132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:17]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Niðurfelling hátekjuskattsins á þessu ári gerði það m.a. að verkum ásamt skattstefnu ríkisstjórnarinnar, að lækka skattprósentuna um 1% á þessu ári og 2% á árinu 2007, að hátekjufólkið hefur notið verulegs hagræðis í skattbreytingastefnu ríkisstjórnarinnar. Allt er þetta gert með fullum vilja núverandi ráðamanna. Þeir hafa kallað þessa stefnu breikkun á skattstofninum, þ.e. að fá fleiri til að greiða skatta og það sést auðvitað mjög glöggt þegar tölur eru skoðaðar að lágtekjufólkið er farið að greiða skatta sem það gerði ekki áður. Skattleysismörkin eru einhvers staðar í kringum 76–77 þúsund og fólk með 100 þús. kr. tekjur greiðir skatt.

Hver ætlar að halda því fram í þessum sal að fólk með 100 þús. kr. tekjur komist af? Það er fáheyrt hvernig ríkisstjórnin hefur farið í þessi mál. Það hefði verið auðveldur leikur hjá ríkisstjórninni, úr því að hún vildi setja 16 milljarða í sérstakar skattalækkanir, að fara þá leið að hækka persónuafsláttinn eins og við lögðum til í Frjálslynda flokknum fyrir síðustu alþingiskosningar og jafna þannig kjörin í landinu, hífa upp kjör þeirra lægst launuðu. Það kostar nánast það sama, virðulegur forseti, að lækka skattprósentuna um 1% og hækka persónuafsláttinn um 2.600 kr. á mánuði, það eru um 4 milljarðar kr. Ef ríkisstjórnin var tilbúin að fara þessa skattalækkunarleið hefði verið eðlilegt að jafna kjörin.

Hæstv. fjármálaráðherra spurði áðan: Eigum við að taka upp þrepaskipt skattkerfi eins og er víða í löndunum í kringum okkur? Við vorum með þrepaskipt skattkerfi meðan við vorum með hátekjuskattinn inni. Núna erum við með (Forseti hringir.) eina prósentu og höfum fjölgað þeim sem greiða skatta af lágum tekjum.