132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Breytingar á skattbyrði.

[15:27]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Það er óumdeilt að kaupmáttur ráðstöfunartekna á Íslandi hefur aukist um nær 60% á síðustu tíu árum. Sambærilegar tölur þekkjast ekki í nágrannalöndunum, þar hefur kaupmáttaraukningin verið á bilinu 15–20%. Þetta þýðir auðvitað að skattgreiðslur hafa aukist. Kaupmáttaraukningin, traust atvinnuuppbygging, vöxturinn, vinnan, velferðin, eins og var lofað, hefur verið grunntónninn í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og auðvitað gagnast þetta öllum almenningi á Íslandi.

Um skatta almennt á það að gilda að þeir eiga að vera réttlátir, sanngjarnir og skattheimtan á að vera þannig að borgurum landsins þyki sjálfsagt að greiða þá. Í sjálfu sér dregur maður ekki í efa þessar fullyrðingar fræðimannanna. Í fyrsta lagi hefur t.d. verið dregið úr skattbyrði fyrirtækja, í öðru lagi hefur á síðustu 12–13 árum verið dregið úr tekjujafnandi millifærslum í skattkerfinu og þá mest í upphafi tímabilsins, en síðast en ekki síst hefur opinber þjónusta við borgara þessa lands aukist stórkostlega, einkum eftir 1995.

Er það ekki með sköttum sem við greiðum fyrir almenna velferð í landinu? Er það ekki með sköttum sem við greiðum fyrir fullkomið heilbrigðiskerfi? Er það ekki með skatttekjum hins opinbera sem átak hefur verið gert í kennslu í skólakerfinu allt frá grunnskólanum og upp úr? Samkvæmt fjárlögum 2006 verða útgjöld ríkissjóðs til almannatrygginga og velferðarmála rúmlega 73 milljarðar og hafa þá útgjöld til velferðarmála rúmlega tvöfaldast frá árinu 1998.

Virðulegur forseti. Heildarskattbyrði er eitt og tilfærslur í skattkerfinu er annað. Hvenær voru t.d. barnabætur skertar um 70% með fyrsta barni hjóna og 38% með börnum umfram eitt? Hvenær voru skerðingarmörk einstæðra foreldra lækkuð um fjórðung? Hvenær voru barnabætur lækkaðar úr 30 þús. kr. í 9 þús. kr.? Var það ekki gert undir gunnfána ríkisstjórnar sem kenndi sig við eyju hér úti á sundum? Sá sem talar um sjónhverfingar í skattamálum, virðulegur forseti, hefði e.t.v. átt að hnika til samanburðar árum sínum í sagnfræðinni þannig að öll myndin skýrðist.