132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Afbr.

[16:19]
Hlusta

Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Við upphaf þingfundar í morgun var hæstv. iðnaðarráðherra á dagskránni og þær fréttir bárust að einhver misskilningur hefði verið hjá henni í frumvarpi sem verið var að ræða, í frumvarpi sem hafði verið frestað í 2. umræðu. Hæstv. ráðherra vildi koma á framfæri breyttum skilningi í þeim efnum. Fundi var frestað. Það var boðað til skyndifundar í iðnaðarnefnd þar sem ég sit sem varamaður. Á þeim fundi kemur nýtt nefndarálit, breytingar á því og síðan á að afgreiða það hér með afbrigðum. Ég spurði hvort þetta væru eðlileg vinnubrögð, af því mér þótti eitthvað gruggugt við þetta. Ég fékk þau skilaboð að þetta væri fullkomlega eðlilegt og venjulegt. Ég gerði samt bókun um að mér þætti eitthvað skrýtið við þetta mál og (Forseti hringir.) síðan kemur auðvitað í ljós að málið er allt hið furðulegasta og alls ekkert eðlilegt við það. Þess vegna greiði ég (Forseti hringir.) atkvæði gegn þessu.