132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Um fundarstjórn.

[16:33]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Vegna ummæla hæstv. forseta sem beint var í minn garð vil ég eyða öllum misskilningi í þessu máli að því leyti að gagnrýni mín beindist ekki að gjörðum forseta þingsins, nema síður væri. Hæstv. forseti Alþingis hefur reynt að beina þessu máli inn í góðan vinnufarveg, gefið svigrúm til þess að iðnaðarnefnd þingsins kæmi saman, og viti menn — það virðist hafa borið árangur. Hluti stjórnarandstöðunnar, Samfylking og Frjálslyndir, hefur fallist í faðma með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki í þessu máli. Er það ekki einhver árangur? Varð það ekki til góðs fyrir talsmenn frumvarpsins? Höfðu ekki einhverjir þeirra uppi mótmæli gegn því að þessi vinnubrögð yrðu viðhöfð en kemur ekki á daginn að þau skila nokkru ef menn gefa sér tíma til að vinna? Og eru menn ekki tilbúnir í framhaldinu til að virða það við okkur sem höfum miklar efasemdir um þetta frumvarp, á öðrum forsendum einnig, að vilja skoða það nánar í ljósi þeirra ummæla sem fallið hafa við umræðuna í dag og þeirra lagabreytingartillagna sem nú liggja nýjar fyrir? Er þetta ekki eðlileg krafa, er hún ekki sanngjörn?

Það er út á þetta sem málflutningur okkar gengur en ekki að gagnrýna hæstv. forseta fyrir það sem gerst hefur í dag. Ég er sannfærður um að sá vinnufarvegur sem hæstv. forseti hefur reynt að skapa hefur orðið til þess að stytta þessa umræðu stórlega, fækka væntanlega þeim sem munu tala í málinu og fækka þeim stórlega sem munu tala lengi í málinu, þannig að þessi vinnubrögð eru til góðs þegar allt kemur til alls. Mér finnst það sanngjörn krafa af okkar hálfu sem viljum fara nánar í saumana á þessu máli, skoða þessi umdeildu ummæli og skoða þær breytingartillögur sem nú liggja fyrir. Við biðjum um það eitt að málið verði ekki tekið upp og umræðunni haldið áfram fyrr en að lokinni helginni.