132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Um fundarstjórn.

[16:36]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég bendi á ítrekað að hér koma fram breytingartillögur við þetta stórmál í miðri umræðu, ókynntar. Ég segi fyrir mig að ég átta mig ekki á því nú þegar hvað þetta hefur í för með sér við þennan heildarlagabálk. Ég hefði gjarnan viljað skoða nánar hvaða áhrif það hefur á hann, enda er hann gríðarlega mikilvægur og flókinn.

Samfylkingin virðist hafa talið að vindarnir blésu betur með sér í umhverfismálum ef hún styddi þetta frumvarp en þá átta ég mig ekki á, frú forseti, breytingartillögum sem liggja fyrir af hálfu minni hluta iðnaðarnefndar í umræðunni. Standa þær áfram eða hafa þær verið afturkallaðar? Eru þær áfram forsenda inn í umræðuna eða er búið að kippa þeim út? Á meðan þeim er að vísu ekki kippt út eru þær væntanlega inni.

Þetta er stórmál, frú forseti, sem lýtur að auðlindum landsins, vatnsaflinu. Frumvarp ráðherra lýtur að því hversu frjálsar hendur ráðherra hafi til að úthluta rannsóknarleyfum að eigin geðþótta því að ekki hafa verið settar um það neinar reglur. Talað hefur verið um að það þyrfti að skipa nefnd sem ætti að setja rammareglur um þessa úthlutun en það má ekki bíða eftir því. Þetta er úthlutun á gæðum landsins, þetta eru framseljanleg leyfi sem á að fara að úthluta, leyfi sem geta haft falin í sér gríðarlegt verðmæti í fjármunum en ekki síður gagnvart meðferð og ráðstöfun á auðlindinni sjálfri. Hér koma í miðri umræðu fram breytingartillögur sem snerta þetta viðamikla mál. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur nefnt að þetta jaðri við svipaða umfjöllun og þegar fiskveiðiheimildunum var úthlutað.

Frú forseti. Ég ítreka að þetta er slíkt stórmál og þær breytingar sem hér eru færðar inn að það er mjög nauðsynlegt að við þingmenn, a.m.k. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og reyndar tel ég þingheim allan, fáum tækifæri til þess að skoða það betur (Forseti hringir.) og að fundinum verði því frestað, frú forseti.