132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Um fundarstjórn.

[16:42]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Í tilefni orða forseta í sambandi við fjarveru hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar vil ég bara taka af öll tvímæli um það að ég nefndi ekki nafn hans í ræðu minni áðan af því að ég vissi ekki að hann væri erlendis við skyldustörf. Það vill svo til, hæstv. forseti, að ég var einmitt samskipa honum á flugvelli fyrr í vikunni og veit nákvæmlega í hvaða erindagjörðum hann er hjá Evrópuþinginu úti í Strassborg.

Hitt verð ég þó að fá að ítreka að hv. þm. Birkir Jón Jónsson, formaður iðnaðarnefndar, hefur tekið virkan þátt í þessari umræðu. Hann hefur staðið hér í fararbroddi umræðunnar sem hefur verið nokkuð löng og snúin, og ég þykist nokkuð viss um það, hæstv. forseti, að hann þekkir ekki þann snúning á málinu sem hefur orðið núna í dag. Ég tel fulla ástæðu til þess að hæstv. forseti fresti þessum fundi fram á mánudag þegar hv. formaður iðnaðarnefndar verður til staðar og þegar allir þingflokkar Alþingis eru sáttir við þann tíma sem þeim hefur gefist til að undirbúa lokahnykkinn í þessari umræðu. Ég teldi það vera þinginu til sóma ef hæstv. forseti tæki þessar ábendingar okkar til greina, sýndi okkur þann skilning að hér væri hægt að fresta fundi og þessi umræða yrði ekki tekin upp fyrr en á mánudaginn.

Hæstv. forseti verður líka að hafa í huga að hér hangir auðvitað miklu meira á spýtunni en fólk í fljótu bragði gæti ætlað. Í fjölmiðlum hafa upp á síðkastið verið risastórar og alvarlegar fréttir um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og áform um stór álver víða um landið. Menn vita líka af biturri reynslu, frú forseti, að í þeim heimi, álheiminum, gerast hlutirnir mjög hratt. Við vitum það öll sem viljum vita að eitt af því sem þetta frumvarp hér gerir er að greiða fyrir raforkufyrirtækjunum, flýta fyrir þeim og hjálpa þeim að fara út í að afla stóriðjufyrirtækjunum rafmagns.

Nú er svo komið, að því er virðist, að það er að fjara undan stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar í hugum þjóðarinnar. Mótstaðan og andstaðan við þessi áform eykst til muna og það gerir það auðvitað að verkum að hæstv. iðnaðarráðherra má ekki til þess hugsa að þetta mál hér dragist á langinn, jafnvel ekki eina helgi.

Hæstv. forseti. Ég tel eðlilegra að forseti Alþingis láti sjónarmið þeirra sem telja hér á sér brotið verða ofan á í þessu deilumáli og ítreka því enn að lokum ósk mína um að þessum fundi verði frestað og umræðunni um þetta mál verði ekki haldið áfram fyrr en eftir helgi.