132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:49]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu á þskj. 697 sem er flutt af iðnaðarnefnd allri. Ég tek það skýrt fram að öll iðnaðarnefnd stendur að þessari breytingartillögu, allir.

Svo að ég skýri málið aðeins var það upphaf þess að á útmánuðum í fyrra ákvað iðnaðarnefnd að flytja þetta mál vegna þess að þá lá fyrir stjórnarfrumvarp um auðlindir í jörðu. Niðurstaðan varð sú að við töldum ekki fært að halda áfram umræðum um það, heldur varð úr að iðnaðarnefnd í heild sinni flutti málið efnislega nákvæmlega eins og frumvarpið liggur fyrir í dag. Það mál var ekki útrætt á vorþinginu í fyrra. Á haustþinginu kom þetta mál aftur fyrir, þá sem stjórnarfrumvarp, efnislega alveg eins nema að þar var ekki ákvæði um nefndarskipan sem hafði verið í tillögum okkar. Meiri hluti iðnaðarnefndar breytti því máli og setti aftur inn þetta ákvæði um nefndina, það var eina breytingartillagan sem við gerðum.

Í umræðum um málið kom mjög skýrt fram frá nokkuð mörgum hv. þingmönnum, sérstaklega frá Samfylkingunni, að þeir höfðu af því áhyggjur að þegar þessi leyfi væru veitt upphæfist mikil samkeppni um þau og því hefðu þeir áhyggjur af því að í 5. gr. núgildandi laga, virðulegi forseti — svo að ég haldi þessu öllu til haga, sem er í 2. gr. frumvarpsins, í 5. gr. núgildandi laga — er ákvæði um það að ráðherra sé heimilt að veita þeim sem hafa fengið rannsóknarleyfi vilyrði um nýtingu. Þetta vakti tortryggni nokkurra hv. þingmanna og við frekari athugun og skoðun á þessu máli þegar iðnaðarnefnd kom saman í dag milli klukkan 13 og 15 varð það niðurstaða nefndarinnar að rétt væri að taka tillit til þeirrar gagnrýni og þeirrar tortryggni sem menn höfðu látið í ljósi. Því flytjum við breytingartillögu um breytinguna á 5. gr. þar sem öllum vafa er eytt. Það er tekið fram að vilyrðin sem hæstv. iðnaðarráðherra er heimilt að veita eiga aðeins við hitaveitur.

Eins og ég tók fram áðan, virðulegi forseti, stendur öll iðnaðarnefndin að þessum breytingartillögum. Við afgreiðslu málsins í iðnaðarnefnd lá ekki fyrir afstaða áheyrnarfulltrúans í nefndinni, fulltrúa Vinstri grænna, en niðurstaðan varð sú að hann mundi láta okkur vita um hana seinna.

Nú hef ég tekið eftir því, virðulegi forseti, hér á þinginu að hann og félagar hans hafa komið hér fram með mótmæli við því að þetta skuli ganga svona fram. Ég hef hins vegar ekki heyrt þá efnislega ræða um þetta, það hefur ekki komið fram í tali þeirra að þeir væru efnislega mótfallnir því sem við erum að gera. Ég lít því þannig á, virðulegi forseti, að mjög mikil samstaða sé í þinginu um að gera þetta á þann veg sem við leggjum til og held að það sé þannig að það þurfi engra sérstakra skýringa við að öðru leyti. Þetta er alveg skýrt, það eru tekin af öll tvímæli um það að hæstv. iðnaðarráðherra getur komið með vilyrði þegar um hitaveitur er að ræða, alls ekki annars. Ég vona því, virðulegur forseti, að þetta sé öllum mönnum ljóst og skiljist mjög vel.