132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:59]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. 2. gr. í því frumvarpi sem liggur hérna fyrir vísar til 5. gr. laganna. 5. gr. laganna, svo að menn hafi þetta nú alveg á hreinu, byrjar á orðunum „Rannsóknarleyfi samkvæmt lögum þessum felur í sér heimild til þess að leita …“ o.s.frv.

Ég fór yfir það áðan að þetta er í 5. gr. og ég fór yfir það áðan að þessi orð eru sett þarna inn til að taka af allan vafa um það að heimildin er aðeins fyrir hitaveitur. Mér finnst, virðulegi forseti, þetta vera mjög skýrt. Þá er öllum vafa um það eytt. Efasemdir komu fram í umræðum um málið um það og ótti um að hér gæti komið upp gríðarlega mikil samkeppni og eftirspurn eftir þessu og þá væri ráðherrann með þessa heimild sem veitti honum ívilnandi rétt. Til þess að koma í veg fyrir að svo yrði féllumst við á það og samkomulag varð um að setja þetta inn. Mér finnst þetta ekki flókið, virðulegi forseti, og ég vona að allir geti skilið þetta. Ég bara trúi ekki öðru en að þetta sé ákaflega einfalt, en ekki flókið.