132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:09]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þetta mál sem er til umræðu tók óvænta sveiflu hér í morgun þegar hæstv. iðnaðarráðherra kom og lýsti því yfir að það sem hún hefur sagt áður um málið hafi að stórum hluta verið misskilningur. Málið fer síðan að tilhlutan forseta þá leið að ráðgast er við formenn þingflokka um þessa sérkennilegu uppákomu í þinginu þegar ráðherra játar á sig að sú umræða sem til þessa hafi farið fram hafi verið á misskilningi byggð.

Úr iðnaðarnefnd kemur síðan tillaga að breytingum sem hér hafa verið kynntar. Þegar síðan hv. varaformaður og starfandi formaður iðnaðarnefndar er beðinn að lesa upp, skýra eða segja frá í hverju breytingartillögurnar séu fólgnar eða settar í samhengi við heildarlagagreinina þá virðist koma í ljós að það hefur aldrei verið lesið saman. Ég er ekkert að lá þingmönnum það, meira að segja hv. varaformanni og starfandi formanni iðnaðarnefndar, Einari Oddi Kristjánssyni, þó honum hafi ekki gefist tóm til að lesa þær breytingartillögur sem verið var að leggja fram saman við frumvarpið sem lagt var fram í haust og líka við gildandi lög. Ég lái honum það ekki þó ekki hafi náðst svigrúm til að lesa það saman eða skilja það í heild.

Frú forseti. Að minnsta kosti virtist það ekki vera á hreinu. Ég er ekkert að lá honum það. (Forseti hringir.)

(Forseti (SP): Forseti spyr hv. þingmann hvort hann sé ekki að fjalla um fundarstjórn forseta. Eða er hann að fjalla um störf í iðnaðarnefnd?)

Frú forseti. Ég er að benda hæstv. forseta á að það geti verið mjög rík ástæða til að gefa svigrúm til að skoða þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram áður en málið er rætt frekar. Ég bendi á að hv. formaður iðnaðarnefndar var ekki klár á að lesa saman breytingartillögurnar og heildarlögin. Hvað þá við þingmenn sem ekki vorum á fundi iðnaðarnefndar eða höfum verið að plokka þetta saman. Til þess að hér séu stunduð vönduð vinnubrögð á þinginu, sem ég treysti að hæstv. forseti beri fyrir brjósti og við höfum reynt hana að, tel ég einboðið og beini þeim eindregnu tilmælum til hæstv. forseta að þessum fundi verði frestað fram yfir helgi og þingmönnum gefist tóm til að skoða betur þau atriði sem hér er verið að leggja ný inn í umræðuna.