132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:46]
Hlusta

Frsm. minni hluta iðnn. (Jóhann Ársælsson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við í Samfylkingunni erum ekki að taka neitt undir með iðnaðarráðherra og óþarfi að leggja okkur nokkurt orð í munn hér. Það sem við erum einfaldlega að gera er að standa að því að hægt sé að veita rannsóknarleyfi og þau rannsóknarleyfi snúast ekki bara um einhverja stóriðju. Það þarf auðvitað að rannsaka vatnasvæði og rannsaka möguleika á orkuöflun og virkjunum í ýmsum tilgangi, ekki bara til þess að setja upp álver. Við getum ekki stoppað klukkuna alveg í þessu og töldum ástæðu til þess að á meðan verið væri að vinna að þessum málum yrðu opnaðir möguleikar til að rannsaka þessa hluti. (Gripið fram í.) Ég tel ekki að neitt vandamál sé við þetta.

Það tekur mörg ár eins og allir vita að framkvæma rannsóknir af þessu tagi. Aðalatriði málsins er hins vegar það að áður en menn fara að veita leyfi til að virkja á grundvelli þessara rannsókna verði til um það reglur og eðlilegar reglur.