132. löggjafarþing — 53. fundur,  26. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[17:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur gert grein fyrir afstöðu sinni í málinu og hvernig það hefur svo sem snúið við.

Það er einn þáttur sem hv. þingmaður gleymir að taka inn. Við síðustu áramót breyttist lagaumgjörð orkuframleiðslu í landinu þannig að innleidd var svokölluð samkeppni í orkuvinnslunni og þar af leiðandi líka í rannsóknum. Mér sýnist að við séum annars vegar svolítið að hugsa í þeim heimi þegar hér voru bara Landsvirkjun og Rarik, opinber fyrirtæki sem sóttu um rannsóknarleyfin, þá var ekki öðru til að dreifa. Frá og með síðustu áramótum er þetta ekki svo, þá getur í rauninni hver sem er sótt um rannsóknarleyfi sem ráðherra hefur síðan í hendi sér hvernig er ráðstafað.

Samkvæmt 32. gr. laganna er kveðið á um að þessi leyfi, m.a. rannsóknarleyfin, séu síðan framseljanleg. Þrátt fyrir þær breytingar sem hv. þingmaður er hér að tala um og eru vafalaust til nokkurra bóta á frumvarpinu sem nú er verið að ræða um, taka þær ekki á því meginmáli að rannsóknarleyfum getur verið úthlutað nú til aðila sem ríkið á ekkert í og þau eru orðin söluvara á samkeppnismarkaði. Þá gilda bara allt önnur (Forseti hringir.) lögmál, frú forseti.