132. löggjafarþing — 53. fundur,  27. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[01:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hið umdeilda mál hæstv. iðnaðarráðherra um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, mál sem á sér langan aðdraganda og búið er að rekja í ágætum ræðum þeirra hv. þingmanna sem talað hafa á undan mér. Fyrst þegar stóri lagabálkurinn um rannsóknir á nýtingu á jarðrænum auðlindum var lagður fram fékk sá bálkur strax afar neikvæðar móttökur. Umsagnabunkinn var verulegur og umtalsverður. Umsagnirnar mjög neikvæðar. Sömu sögu má segja um vatnalagafrumvarpið umdeilda sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði einnig fram á síðasta þingi og risu mótmælaöldurnar svo hátt að hæstv. umhverfisráðherra var farin að taka forstöðumenn stofnana umhverfisráðuneytisins á beinið í fjölmiðlum fyrir það að umsagnir þeirra hafi verið óbilgjarnar og of neikvæðar fyrir hennar smekk.

Umsagnir þær sem borist hafa í þessum málum öllum hafa haft eitt meginþema sem gengur út á það að hæstv. iðnaðarráðherra sé að sölsa undir sig mál sem óeðlilegt sé að séu í hennar hendi á þann hátt sem hún er að leggja til. Menn hafa lagt áherslu á að hér sé að stórum hluta til um umhverfismál að ræða og hafa viljað hafa einhvers konar samvinnu á milli umhverfisráðuneytis og iðnaðarráðuneytis um ákvarðanir um þessi stóru mál. Menn hafa mótmælt því á hvern hátt er verið að taka úr höndum Alþingis Íslendinga og hv. alþingismanna þær ákvarðanir sem teknar eru um nýtingu á auðlindum landsins og ýmsir þættir þessara mála hafa verið gagnrýndir afar harðlega. Þá hefur verið velt upp spurningum um auðlindagjald, um það á hvern hátt þessir þættir ættu að koma inn í stjórnarskrá, hvort ekki eigi að skilgreina það í stjórnarskrá á hvern hátt umhverfisréttur eigi að vera til staðar í landi okkar og rætt hefur verið um að í stjórnarskrá þurfi að koma ákvæði sem kveði á um að auðlindirnar séu í sameign þjóðarinnar, orkuauðlindirnar ekki síður en auðlindirnar í hafinu.

Allt er það undir þegar þetta mál er rætt. Hér er um margslungið og flókið mál að ræða sem full þörf hefur verið á að ræða í þeim smáatriðum sem gert hefur verið hér af þeim þingmönnum sem hafa tekið til máls. Og nú vil ég segja það alveg klárt og kvitt, hæstv. forseti, að það eru ekki bara hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hafa séð ástæðu til að hafa hér langt mál því að við 1. og 2. umr. málsins voru hv. þingmenn annars stjórnmálaflokks afar skorinorðir og langorðir og fluttu efnismiklar ræður um málið en því miður við þennan síðari hluta 2. umr. eru hv. þingmenn Samfylkingarinnar fjarri góðu gamni. Ég segi því miður, frú forseti, vegna þess að í samstöðu stjórnarandstöðunnar gegn málinu myndaðist að mínu mati afar eftirsóknarverður styrkur hennar. Stjórnarandstaðan stóð heil saman gegn því að frumvarpið, þetta meingallaða frumvarp næði fram að ganga, fyrst á síðasta vori og svo aftur núna fyrir jólin. Það var þá sem samstaða stjórnarandstöðunnar var eftirtektarverð og aðdáunarverð en ég verð að segja að það hefur valdið mér mjög miklum vonbrigðum hvernig farið hefur verið með Samfylkinguna í málinu í dag, hvernig hv. þingmenn Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd hafa ákveðið að leggja niður og láta af allri andstöðu við málið á þeirri forsendu að eitthvert tæknilegt atriði sem þeir höfðu gagnrýnt hafi verið slegið út af borðinu með því að hæstv. iðnaðarráðherra gekkst inn á það að breyta frumvarpinu á þeim nótum sem þingmenn Samfylkingarinnar höfðu óskað eftir. Þótti mér þar lítið fara fyrir þær miklu mótbárur sem þingmenn eins og hv. þm. Mörður Árnason höfðu hér í frammi í mjög efnismiklum ræðum við fyrri hluta 2. umr. Ég óttast að þessi linkind sem hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa sýnt í málinu í dag eigi eftir að leiða til þess að í ljós komi að umhverfisverndarákafinn sem virtist grípa hv. þingmenn Samfylkingarinnar eftir áramótin, þegar farið var að setja það á oddinn í þeim flokki að nú yrði að vernda Þjórsárver umfram allt, að þessi umhverfisverndaráhugi risti kannski ekki eins djúpt og kjósendur voru látnir halda þegar þær umræður fóru fram eftir áramótin sem vörðuðu Norðlingaölduveitu. Mér þykir þetta mjög miður.

Ég er þeirrar skoðunar að málin séu að snúast í þessu tilliti hjá almenningi. Það er alveg ljóst að hreyfingin gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar er að verða þyngri og öflugri. Til marks um það má nefna tónleikana 7. janúar sem hv. ræðumenn á undan mér hafa getið um en þar var mjög mikill kraftur, mjög há krafa um að ríkisstjórnin léti af stóriðjustefnunni, sneri af villu síns vegar og varpað var upp þeirri spurningu hvernig hægt væri að hjálpa þessum háu herrum til að hætta við.

Frú forseti. Ég hef alveg svör við því fyrir kjósendur í landinu hvernig hægt er að hjálpa ríkisstjórninni að hætta við stóriðjustefnuna. Það er einfaldasta mál í heimi. Ég vil gefa hv. kjósendum svar úr þessum ræðustóli. Það er einfaldlega það að forgangsraða í þágu náttúruverndar í næstu kosningum. Hvernig forgangsraða kjósendur í þágu náttúruverndar á Íslandi í dag? Með einu móti: Með því að kjósa stjórnmálaflokkinn sem ég stend hér fyrir, Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, stjórnmálaflokk sem hefur ekki hvikað frá stefnu sinni einn einasta dag frá því að hann var stofnaður 1999 og enn höldum við uppi öflugu andófi gegn stóriðjustefnunni, leggjum til aðrar leiðir varðandi atvinnuuppbyggingu, atvinnustefnu sem byggir á sjálfbærni sem tekur mið af því að auðlindir séu nýttar á sjálfbæran hátt og að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar ráði við allar meiri háttar ákvarðanir sem teknar eru af stjórnvöldum.

Þetta er forgangsröðun okkar. Ég get farið nánar yfir hana á eftir þar sem ég hef í fórum mínum ákveðnar ályktanir sem Landsfundur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gerði á haustdögum eða fyrir áramótin. Þá héldum við landsfund sem fjallaði ítarlega um þessi stefnumál okkar og einfalt mál er að vitna til þeirra síðar í máli mínu.

En mig langar aðeins að halda mig, frú forseti, við þessi handarbakavinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð. Það er ekki hátt risið á hæstv. iðnaðarráðherra sem þarf að þola það að dag eftir dag um miðjan desember birtust fréttir í fjölmiðlum þar sem hún þarf að leiðrétta frumvarp sem hún hefur lagt fram sjálf og fyrirsagnirnar í þeim fréttum eru satt að segja þess eðlis að ég hefði ekki viljað fá þær um mig og ekki nokkur maður sennilega óskað eftir því að fá fyrirsagnir af þessu tagi um sig í fjölmiðlunum. Fréttablaðið 16. desember skrifar: „Ráðherra leiðréttir umræðu.“ Ríkisútvarpið fjallar 14. desember um málið og segir: „Frumvarp misskilið.“ NFS fjallar 14. desember um málið og segir: „Misskildi sitt eigið frumvarp.“

Frú forseti. Hvað var hér á seyði? Hvað var það sem gerðist á örfáum dögum eftir mjög harðar og miklar umræður um málið í fyrri hluta 2. umr. þar sem þurfti að fresta umræðunum af því að það margir þingmenn voru á mælendaskrá að talið var að ekki væri hægt að ljúka þinginu á þeim tíma sem hæstv. forseti vildi að þingstörfum lykju fyrir jólin? Síðan kemur upp úr kafinu að öll sú umræða hafi verið á misskilningi byggð.

Nú vill svo til, hæstv. forseti, að hér er um að ræða ráðherra í ríkisstjórninni sem hefur þá tilhneigingu mjög ríka þegar andstæðingar gagnrýna hana og gagnrýna þau mál sem hún leggur fram, þá ber hún því iðulega við að þingmenn séu að misskilja eitthvað í málflutningi hennar og finnst manni, frú forseti, að það kasti tólfunum þegar hæstv. ráðherra sem vænir aðra um misskilning í tíma og ótíma þarf að éta ofan í sig grunnforsendur þess frumvarps sem hún er búin að reyna að koma í gegnum þingið á annað ár. Þetta er ekki fallegt til afspurnar og styður í raun kröfu okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að fresta hefði átt þeirri umræðu sem nú er verið að halda vakandi langt inn í nóttina til að hægt væri að greiða úr ákveðnum flækjuþáttum í málinu, til að skyggnast hefði mátt það djúpt ofan í það að hægt hefði verið að analýsera eða greina það til hlítar á hvern hátt hér hefur verið haldið á málum af hæstv. iðnaðarráðherra og hennar fólki í iðnaðarráðuneytinu. Iðnaðarráðherra sagðist hafa misskilið sitt eigið frumvarp um miðjan desember og hún segir í fjölmiðlum að það sé ekki rétt að handhafar rannsóknarleyfa á auðlindum í jörðu eigi að hafa forgang að virkjunarleyfi. Það var ekki bara í málflutningi hennar, frú forseti, sem því sjónarmiði var haldið fram. Það var ekki bara í ræðum hæstv. iðnaðarráðherra sem þetta sjónarmið var meginstef og gert að meginstefi frumvarpsins því það kemur mjög skýrt fram í greinargerð frumvarpsins. Nú skal vitnað til greinargerðarinnar, frú forseti, en þar segir, með leyfi forseta:

„Við gildistöku raforkulaga, nr. 65/2003, var samkeppni í vinnslu raforku innleidd hér á landi. Var ráðherra jafnframt veitt vald til að veita virkjunarleyfi á grundvelli laganna en fyrir gildistöku þeirra var vald ráðherra bundið því skilyrði að Alþingi hefði áður með sérstökum heimildarlögum veitt honum heimild til slíks. Fyrir gildistöku raforkulaga hafði Landsvirkjun jafnframt forgang til virkjunar vatnsafls í samræmi við skyldu sína til að sjá öllum sem þess óskuðu fyrir raforku. Nú þegar þessi forgangur Landsvirkjunar er ekki lengur til staðar hafa fleiri orkufyrirtæki sýnt vatnsaflsvirkjunum áhuga. Samkvæmt gildandi lögum hefur sá sem stundar rannsóknir á vatnsafli hins vegar ekki forgang til nýtingar, öfugt við það sem á við um jarðvarma, eða tryggingu fyrir því að fá rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan komi til þess að annar aðili fái nýtingar- eða virkjunarleyfi á viðkomandi svæði. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu hefur komið í ljós að orkufyrirtækin eru tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist.“

Er von að maður spyrji, frú forseti, voru starfsmenn iðnaðarráðuneytisins og hæstv. iðnaðarráðherra með bundið fyrir bæði augun þegar þessi greinargerð var skrifuð? Og ræða hæstv. ráðherra sem hún flutti við 1. umr. málsins og þrástagaðist á í andsvari eftir andsvar í 1. umr., undirstrikaði og undirstrikaði aftur á bak og áfram? Hvað var þar á ferðinni sem — ég vil í rauninni leyfa mér að fullyrða úr þessum ræðustóli að meiningin hafi verið allan tímann að setja málið svona í gegn og þetta hafi verið fullkomlega meðvitað að átt hafi að búa til sama forgang fyrir orkufyrirtækin til nýtingar í vatnsafli eins og þeir sem nýta núna jarðvarmann hafa þegar þeir eru búnir að fá rannsóknarleyfi. Ætlunarverkið hafi því verið þetta. En þegar mótstaðan virtist vera orðin svona mikil, hún virtist vera orðin óyfirstíganleg þegar öll stjórnarandstaðan stóð saman sameinuð og heil gegn málinu þá hafi menn bara sveigt af leið. Og af hverju sveigðu þeir af leið? Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, frú forseti, og ég er komin að niðurstöðu um málið.

Mín niðurstaða er sú að menn hafi áttað sig á því að þetta skipti ekki meginmáli, þetta atriði skipti ekki meginmáli vegna þess að það væri nóg fyrir orkufyrirtækin að fá það inn að iðnaðarráðherra gæti veitt rannsóknarleyfin í vatnsaflinu, nákvæmlega eins og hún veitir þau í jarðvarmanum. Fyrir þessi orkufyrirtæki er auðvitað tryggasta í heimi að hafa hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur sem lengst við völd því að þau eru greinilega með það alveg á hreinu hvernig þau geta haft áhrif á afstöðu hennar og gerðir í málunum. Þau hafa sagt við hæstv. ráðherra: Slepptu þessu með forganginn að nýtingarleyfinu vegna þess að það liggur í augum uppi að þegar búið er að láta okkur hafa rannsóknarleyfið þá fáum við eðli málsins samkvæmt auðvitað nýtingarleyfið hjá þeim líka. Og ef við fáum það ekki þá er tryggt í frumvarpinu að við fáum rannsóknargögn í hendur seinna. Allt í einu áttuðu menn sig á því að það var ekki alfa og omega að hafa inni í frumvarpinu eða lögunum þessa skilgreiningu á forgangsrétti. Hann væri til staðar eðli málsins samkvæmt þó að það stæði ekki beinum orðum. Mín kenning er því sú, frú forseti, að hér sé mikill blekkingaleikur í gangi og ég harma að hér skuli ekki vera fullur þingsalur af þingmönnum að taka þátt í þessari umræðu á öflugan og kraftmikinn hátt. Fyrir jól fannst mér að hér yrði áframhaldandi andóf og ég bar í brjósti von um það. Nei, aldeilis ekki. Tveir stjórnarandstöðuflokkar hafa lyppast hér niður í dag, kyngt öllu sem hæstv. iðnaðarráðherra segir, Samfylkingin var kölluð á einkafund hæstv. ráðherra og ráðuneytisstarfsmanna og menn éta allt ofan í sig. Mér finnst þetta afar dapurlegt, frú forseti, dapurlegur dagur í þingsögunni. Orkufyrirtækin eru búin að fá sitt fram, þau komu auga á klókan leik og leika hér á þingheim allan. Ekki fagur leikur það.

En sem sagt, frú forseti. Núna stendur málið þannig að við höfum fengið illa unna breytingartillögu inn á okkar borð. Ekki fengum við nokkurt ráðrúm hjá stjórn þingsins til að fara yfir hana eða skoða hana til hlítar í þingflokkunum. Við skömmuðust yfir því fyrr í dag og er óþarfi a orðlengja frekar um það en það breytir ekki því, ég hélt því jafnvel fram að það væru áhöld um það hvort hún væri þingleg. Ég er búin að fara betur yfir þetta núna og verð að viðurkenna að tillagan er kannski þingleg en hún er hroðvirknislega unnin og afar óskýr vegna þess að fyrstu töluliðirnir í breytingartillögunni hefðu að sjálfsögðu átt að skiptast í tvo stafliði, þ.e. a-lið og b-lið til þess að það væri skýrt á hvern hátt 5. gr. laganna ætti að breytast.

Af því að ég spurði hv. varaformann iðnaðarnefndar í andsvari fyrr í dag hvernig 5. gr. ætti að hljóða eftir breytinguna og hann gat ekki svarað því þá ætla ég, þingtíðindanna vegna og þeirra kjósenda sem mögulega eru að hlusta á útsendingu frá Alþingi, að fara aðeins yfir og lesa hér hvernig 5. gr. kemur til með að hljóða þegar þessar breytingar hafa gengið í gegn, því við vitum það auðvitað öll að þessar breytingar verða knúnar í gegn með góðu eða illu. Þrátt fyrir að við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs séum öflug og megnug um margt þá getum við sennilega ekki haldið úti mótmælaaðgerðum í ræðum okkar mikið lengur en svo að á endanum verður þetta knúið í gegn með meirihlutavaldi. En 5. gr. laganna hefst þannig, með leyfi forseta:

„Rannsóknarleyfi samkvæmt lögum þessum felur í sér heimild til þess að leita að viðkomandi auðlind á tilteknu svæði á leyfistímanum, rannsaka umfang, magn og afkastagetu hennar og fylgja að öðru leyti þeim skilmálum sem tilgreindir eru í lögum þessum og ráðherra telur nauðsynlega. Um veitingu leyfis, efni þess og afturköllun fer skv. VIII. kafla laga þessara.“

Þá kem ég að 2. mgr. 5. gr. en við hana á samkvæmt upphaflegu frumvarpi að bæta nýrri málsgrein og samkvæmt frumvarpinu átti hún að orðast svo:

„Rannsóknarleyfi skal veitt einum aðila á hverju svæði. Þó er heimilt að veita fleiri en einum aðila slíkt leyfi sameiginlega hafi þeir staðið saman að rannsóknarleyfisumsókn og gert með sér samning um skiptingu rannsóknarkostnaðar.“

Þannig lítur frumvarpið út á þskj. 304, greinin sem ég nú las verður þá 2. mgr. 5. gr. laganna. Á þskj. 697, breytingartillögunni bætist nýr liður við 2. gr. frumvarpsins, svohljóðandi:

„Á eftir orðinu „nýtingarleyfi“ í 2. mgr. kemur: fyrir hitaveitur.“

Þá verður þessi 2. mgr. sem vitnað er til í breytingartillögunni orðin 3. mgr. í 5. gr. laganna og kemur til með að hljóða svo:

„Ráðherra er heimilt í rannsóknarleyfi að veita fyrirheit um forgang leyfishafa að nýtingarleyfi“ — og þá kemur inn viðbót — „fyrir hitaveitur í allt að tvö ár eftir að gildistíma rannsóknarleyfis er lokið og að öðrum aðila verði ekki veitt rannsóknarleyfi á þeim tíma.“

Frú forseti. Þetta er óskiljanlegt, þetta er algerlega fyrir neðan allar hellur að bjóða manni upp á þetta. Nú hef ég starfað hér í tæp sjö ár við að lesa lög og hef oft farið í gegnum flóknar lagasetningar og þykist vera orðin nokkuð sleip. En þetta er gersamlega óskiljanlegt, það er fullkomlega ógegnsætt hvernig þessi breyting á að fara fram og fara inn í lögin. Það er skammarlegt að stjórn þingsins skyldi ekki heimila það að hér yrði gefinn sá tími og það ráðrúm sem eðlilegt hlýtur að teljast þegar um flókna lagabreytingu er að ræða að hún skyldi ekki heimila þingmönnum að fara þannig í gegnum málið að við gætum rætt af einhverju viti um þessar breytingar. Og að sjálfsögðu er enginn til að svara þeirri málaleitan okkar að hér séu hlutirnir skýrðir. Ekki gat varaformaður iðnaðarnefndar svarað þessari spurningu minni um hvernig 5. gr. laganna ætti að hljóða eftir breytinguna. Ég þóttist vera búin að finna það út fyrr í kvöld en ég er kannski orðin of syfjuð eða þreytt til að muna hver lausnin á gestaþrautinni var. En þetta er það sem okkur er boðið upp á í Alþingi Íslendinga á þessu herrans ári 2006 og okkur er boðið upp á þetta af hæstv. iðnaðarráðherra. Sem sagt, vitleysan er í boði hæstv. iðnaðarráðherra.

Ég ætla ekki að gera aðra tilraun til að klæmast á þessari lagagrein fyrir alþjóð og þingheim, ég legg þetta til hliðar í bili og vind mér að næsta kafla í ræðu minni.

Hæstv. iðnaðarráðherra misskildi frumvarpið sitt, það var leitt. Þegar hún var spurð um það í fjölmiðlum svaraði hún því til að frumvarpið gengi ekki út á neinn forgang að nýtingarleyfi síðar eða virkjunarleyfi síðar, það gengi ekki út á annað en að rannsóknarkostnaður yrði endurgreiddur annars vegar og hins vegar að skipuð yrði nefnd með fulltrúum þingflokkanna sem ætti að móta tillögur til framtíðar um hvernig við ætlum að úthluta þessum gæðum til framtíðar þannig að jafnvægisreglan sé í hávegum höfð og annað slíkt, sagði ráðherrann. Hún er með mikla framtíðarglýju í augunum en áttar sig ekki á því að þjóðin veit og þingheimur allur að hér er ekki neitt framtíðarástand sem verið er að leiða í lög, hér er einungis verið að leiða í lög bráðabirgðaástand sem aðeins á að gilda þangað til þessi nefnd hefur verið skipuð, nefndin sem við höfum ekki fengið heimild til að fara út í að skipa strax. Hæstv. ráðherra getur ekki haft biðlund og kannski geta orkufyrirtækin ekki heldur beðið eftir nefndinni sem ætlað er að skipa þessum málum til framtíðar heldur er þetta óðagot sem hér er ævinlega viðhaft látið ráða ferðinni. Með þessum lögum er verið að koma á einhvers konar þvinguðu bráðabirgðaástandi, sem er algerlega óásættanlegt.

Svo segir hæstv. ráðherra í viðtali við Ríkisútvarpið þann 14. desember sl. að hún eigi það markmið að ná sem víðtækastri sátt um framtíðarskipan þessara mála. Hún segir að það hafi ekki horft vel um þá sátt þegar jólahlé þingmanna hófst og í ljósi þessara nýju upplýsinga er hún spurð hvort hún hafi misskilið sitt eigið frumvarp og greinargerðina við það, hvort gagnrýni þingmanna hafi þá mögulega verið ys og þys út af engu og hverju svarar hæstv. ráðherra því? Hún svarar, með leyfi forseta:

„Já því miður hefur það orðið og að einhverju leyti get ég kennt mér um það og ráðuneytinu, að við höfum ekki verið með nægilega skýrar upplýsingar gagnvart nefndinni og þinginu. En ég vonast til þess að eftir að þessi misskilningur hefur verið skýrður þá muni þetta ganga betur hjá okkur.“

Sem sagt, hæstv. ráðherra viðurkennir að hún hafi ekki verið með nægilega skýrar upplýsingar gagnvart nefndinni og þinginu. En ég er búin að sýna fram á, hæstv. forseti, að það er beinlínis verið að fara í blekkingaleik, það er verið að blekkja Alþingi Íslendinga og þjóðina með þessu máli og hæstv. ráðherra skýlir sér á bak við að hún hafi misskilið eitthvað.

Heyr á endemi, frú forseti, þetta er auðvitað ekki boðlegt. Auðvitað hefðu allir þingmenn átt að sitja hér í dag og fylgjast með þessum umræðum og spyrja ráðherrann út úr málinu. Svo vonast hún til að misskilningurinn verði leiðréttur þegar hann hefur verið skýrður og að þá muni þetta ganga betur hjá okkur. Auðvitað rataðist hæstv. ráðherra þar satt á munn. Samfylkingin var svínbeygð í dag, það var bara sest að henni og misskilningurinn leiðréttur og nú gengur allt miklu betur hjá hæstv. ráðherra, eins og hún vonaðist til í viðtalinu þann 14. desember að kæmi til með að gera.

Ég spyr sjálfa mig: Ætli hún hafi haft eitthvað fyrir sér í því að það sem gerðist í dag mundi gerast? Ég hef tilhneigingu til að efast um það því ég er ekki viss um að hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem sitja með mér í umhverfisnefnd Alþingis verði mjög glaðir þegar þeir koma heim frá Ósló og átta sig á því hvað hefur gerst hér í dag. Ef marka má ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar sem var talsmaður Samfylkingarinnar á eftir hv. þm. Jóhanni Ársælssyni í málinu við upphaf 2. umr. þá geri ég ekki ráð fyrir að sá hv. þingmaður komi til með að fagna þeim gerðum eða þeirri samþykkt sem gerð var í dag við hæstv. iðnaðarráðherra í þessu máli fyrir hönd Samfylkingarinnar.

Síðan rekst hvað á annars horn í yfirlýsingum ráðherrans um misskilninginn. Þann 14. desember þegar hæstv. ráðherra var í viðtali í Ríkisútvarpinu, sem ég vitnaði til áðan, mætti hún líka í viðtal á NFS, nýja fréttastöð. Þar segir í fréttinni að ráðherra hafi sagst hafa misskilið sitt eigið frumvarp um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og endurtekið að það væri ekki rétt að handhafar rannsóknarleyfa á auðlindum ættu að hafa forgang að virkjunarleyfum. Hún sendi frá sér fréttatilkynningu um málið til að það væri allt skýrt fyrir fréttamönnunum. En svo er hún spurð, á NFS fréttastöðinni, um hvernig þetta gat farið svona, hvernig þessi misskilningur hafi komið til. Hún svarar, og í raun og veru er þetta alveg kostulegt svar, frú forseti, sem ég verð fá að vitna til hér, með leyfi forseta:

„Málið gengur út á það að þeir sem rannsaka vatnsafl fái tryggingu fyrir því að þeir fái endurgreiddan þann kostnað ef þeir fá svo ekki endanlega nýtingarleyfið“ — ég endurtek, frú forseti — „að þeir fái endurgreiddan þann kostnað ef þeir fá svo ekki endanlegt nýtingarleyfi og eins það að þeir hafi í tvö ár forgang að nýtingarleyfi eftir að hafa lokið rannsókninni.“

Frú forseti. Ég varð að fá að endurtaka þessa setningu því þetta stangast á við það sem hæstv. ráðherra hefur sagt í allan dag og sagði reyndar þegar hún játaði misskilninginn á sig í fréttatilkynningu. Sama dag og fréttir af þessu eru sagðar í fjölmiðlum segir ráðherrann þetta í viðtali við NFS, að þau orkufyrirtæki eða þeir sem rannsaka vatnsaflið fái tryggingu fyrir endurgreiðslu þess kostnaðar sem fellur til ef þeir fá ekki endanlegt nýtingarleyfi. Jafnframt segir hún að þeir hafi í tvö ár forgang að nýtingarleyfi eftir að hafa lokið rannsóknum. Hvað þýðir þetta, frú forseti? Veit ráðherrann hvorki daginn né stundina í þessum efnum? Hvers vegna í ósköpunum gátu fjölmiðlar, þann 14. desember, ekki fengið skýrari svör um málið frá hæstv. ráðherra heldur en raun ber vitni? Hvers vegna nær ekki hæstv. ráðherra að skýra þetta betur fyrir okkur en hún hefur gert? Mér finnst þetta með ólíkindum, frú forseti.

Eitt af því sem mikið hefur verið fjallað um í þessu sambandi er auðlindagjald. Þingmenn Samfylkingarinnar hófu máls á því og hafa haldið fólki við það efni. Þann 14. desember, sem er örlagaríkur dagur í fjölmiðlunum hvað varðar þetta mál, birti Morgunblaðið leiðara sem fjallar um nýtingarrétt á vatnsorkuauðlindum. Kveikjan að þeim leiðara er umræðan í þinginu, þ.e. sú tilraun hæstv. iðnaðarráðherra að koma þessu máli í gegnum þingið á síðustu dögunum fyrir jól, tilraun sem misheppnaðist og endaði í misskilningi. Morgunblaðið ver heilum leiðara í að fjalla um þetta mál út frá sínum forsendum en reyndar er þar farið ofan í saumana á ræðu hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í iðnaðarnefndinni. Ég vil fá að vitna aðeins í leiðarann þar sem höfundur segir, með leyfi forseta:

„Iðnaðarráðherra sagði hér í blaðinu síðastliðinn föstudag að hún hefði kosið að málið yrði samþykkt á Alþingi fyrir áramót og vísaði til hagsmuna raforkufyrirtækjanna. „Ýmislegt er í pípunum í sambandi við stóriðjumál víða um land og þess vegna er mikilvægt að orkufyrirtækin fái svigrúm til þess að rannsaka vatnsaflið,“ sagði ráðherra.“

Mér þykir þetta athyglisvert, frú forseti. Hæstv. ráðherra dregur ekki nokkra dul á hvað er í gangi, þ.e. að orkufyrirtækin knýja á hverjum degi á, berja á dyr hæstv. ráðherra og heimta að fá rannsóknarleyfi á vatnsaflinu eins og þau hafa möguleika á í jarðvarmanum. Ástæðan er ein og aðeins ein: Gegndarlaus áform um stóriðju sem eru auðvitað öll komin upp á yfirborðið núna. Stækkun álversins í Straumsvík um 280 þús. tonn upp í 460 þús. tonn. Nýtt álver í Helguvík upp á 260 þús. tonn, stækkun Norðuráls á Grundartanga, mögulega upp í 300 þús. tonn. Nýtt álver norður á Húsavík upp á tvöhundruð og eitthvað þúsund tonn. Álver í Reyðarfirði upp á 322 þús. tonn.

Þetta eru áform hæstv. iðnaðarráðherra að bræða ál á Íslandi upp á 1.660 þús. tonn á ári. Það væru 1.660 þúsund tonn ef allt þetta gengi eftir. Þetta er sexföldun — ég endurtek, frú forseti — sexföldun á núverandi framleiðslu okkar. Þetta er ekki fimmföldun eins og fólk hefur talað um fram að þessu. Nú er þetta komið í ljós, að fleiri álver en fólk grunaði að gætu verið í bígerð eru komin á teikniborðið. Ég hef þó ekki nefnt rafskautaverksmiðju á Katanesi, sem er ein af draumaverksmiðjum hæstv. iðnaðarráðherra. Hvað er eiginlega að hérna, frú forseti? Það er eitthvað mikið að í landi sem þarf að hafa þessa ríkisstjórn yfir sér. En nú er þjóðin að snúast í þessu máli þegar hún sér öll áformin, sér fyrir sér eimyrjuna og allt brennisteinsdíoxíðið sem á að spúa yfir landslýð, börn okkar borin og ófædd. Þau eiga eftir að fá að anda að sér eimyrjunni frá þessum verksmiðjum. Sömu stjórnvöld þykjast hafa einhverja heilbrigðisstefnu og leyfa sér að búa til plögg um stefnu ríkisstjórnarinnar í sjálfbærri þróun. Hvaða endemis bull og vitleysa er þetta?

Auðvitað er þjóðin farin að sjá í gegnum þetta, sem betur fer. Ég spái því að augu þjóðarinnar séu að opnast og það eigi eftir að verða afdrifaríkt fyrir þessa ríkisstjórn. Það ætti ekki að þurfa að koma henni mjög á óvart sem upp úr kjörkössunum kemur í næstu kosningum. Ég trúi ekki öðru en að kjósendur átti sig á því að ef við forgangsröðum ekki í þágu náttúruverndar núna þá gerum við það aldrei. Það er nú eða aldrei. Næst verður það of seint. Kosningarnar 2007 eiga eftir að skera úr um þetta. Ég trúi því ekki á þjóðina mína að hún veiti þeim háu herrum sem hér hafa um vélað brautargengi til áframhaldandi stjórnarsetu.

En aftur að leiðara Morgunblaðsins frá 14. desember, frú forseti. Í honum segir að frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra endurspegli þá gríðarlegu breytingu sem hér sé að verða á raforkumarkaði. Leiðarahöfundur vitnar til greinargerðar frumvarpsins þar sem m.a. er rakið að komin sé samkeppni á raforkumarkaði, samkeppni sem hefur dæmt sig sjálf og er þegar farin að skila okkur töluvert hærra orkuverði en við höfðum fyrir breytinguna. Sums staðar hefur orðið allt að 50% hækkun á orkureikningum hjá fólki og hjá atvinnufyrirtækjum. Fyrirtæki sem eru mjög frek á raforku miðað við eðlileg fyrirtæki, þ.e. fyrirtæki í almennum iðnaði sem þurfa nokkuð mikla orku, kvarta sáran. Nú virðist svo komið að almennur iðnaður í landinu sé við það að leggjast af eða flytjast úr landi. Að hluta til er ástæðan rakin til hins háa raforkuverðs sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur komið á með þeirri endemis vitleysu sinni að koma á samkeppnismarkaði með raforku í landi þar sem er enginn grundvöllur er fyrir samkeppni um slíkt.

Almennur raforkumarkaður í landinu vex um 2% á ári og væri einfalt mál að standa saman um þá grunnþjónustu, reka hana eins og verið hefur fram að þessu í sameign allra landsmanna, með það eitt að markmiði að tryggja þjóðinni, bæði einstaklingum, heimilum og fyrirtækjum, raforku á lágu verði. Auðvitað eiga Íslendingar að búa við raforkuverð sem endurspeglar hve miklar auðlindir við eigum í þessum efnum en því hefur ekki verið að heilsa. Ekki batnar það, frú forseti, með þeirri stefnu sem hér er rekin. Nú er stundað kapphlaup um auðlindir landsins, kapphlaup um orkuauðlindirnar. Hver hefur hleypt af startbyssunni? Það gerði hæstv. iðnaðarráðherra með stuðningi allrar ríkisstjórnarinnar.

Leiðarahöfundur Morgunblaðsins gerir öðru fremur að umtalsefni í leiðara sínum spurninguna um hvort náttúra Íslands megi við fleiri stórvirkjunum. Hann segir að margir séu þeirrar skoðunar að nú þegar hafi verið gengið of langt í nýtingu auðlinda og fallvatnanna og stjórnvöld eigi að vera íhaldssöm á að heimila fleiri virkjanir. Hins vegar spyr hann eðlilega, og þá kemur leiðarahöfundur að því sem ég nefndi áðan: Hvernig á að velja á milli þeirra sem sækjast eftir nýtingarrétti á auðlindum? Sú spurning leiðir inn í umfjöllun um auðlindanefndina sem skilaði skýrslu sinni árið 2000 og markaði stefnu í þeim málum. Sú stefna hefur verið Morgunblaðinu nokkuð hjartfólgin, þ.e. blaðið hefur verið á þeim buxunum að stefna auðlindanefndar sé skynsamleg og skoða eigi hana til hlítar. Auðlindanefndin taldi að tryggja þyrfti að þjóðin nyti í framtíðinni eðlilegrar hlutdeildar í þeim umframarði sem nýting vatnsafls í eigu þjóðarinnar skapaði og því bæri að selja nýtingarréttinn á því vatnsafli sem er í þjóðareign á uppboði ef nægileg samkeppni væri til staðar en ella með samningum. Leiðarahöfundurinn segir frá eigin brjósti, með leyfi forseta:

„Auðvitað er fráleitt að iðnaðarráðherra geti afhent orkufyrirtækjum gífurleg verðmæti í formi nýtingarleyfis á auðlindum án þess að búið sé að ákveða einhverja stefnu um það hvernig eigi að úthluta slíkum leyfum og hvernig eigi að borga fyrir þau. Verði frumvarp ráðherra að lögum er jafnvel möguleiki á að þeir, sem þannig fá eignir almennings afhentar til nýtingar, geti framselt nýtingarréttinn, reyndar með sérstöku leyfi ráðherra. Að teknu tilliti til þess hvernig raforkumarkaðurinn hefur þróast og er líklegur til að þróast, væri slíkt ástand auðvitað engu betra en gjafakvótakerfið.“

Ég bendi leiðarahöfundi Morgunblaðsins á að þetta er auðvitað það sem hæstv. ráðherra hefur staðfest í dag, og ekki bara í dag við umfjöllun um málið heldur er þetta einn af meginþáttum þessa frumvarps, að gera rannsóknarleyfin þannig úr garði að þau geti verið söluvara og gengið kaupum og sölum á ímynduðum markaði.

Landið er að selja orkuauðlindir sínar til stórra erlendra auðhringa, náttúruauðlindir sem hægt væri að nýta margfalt gáfulegar með því að vernda þær. Hæstv. iðnaðarráðherra er að koma málum svo fyrir að orkuauðlindunum okkar verði beinlínis kastað á glæ með því að setja þær í kjaftinn á erlendum auðhringum. Hún hefur ekki orðað hugmyndir um auðlindagjald, sameign þjóðarinnar á auðlindunum í stjórnarskrá eða nokkuð annað af því taginu. Nei, um aldur og ævi skal eyða þeim orkulindum sem eftir eru hér á landi, sem sannarlega eru ekki ótakmarkaðar. Hæstv. ráðherra talar alltaf eins og orkuauðlindir okkar séu ótakmarkaðar en þær eru það ekki. Menn leggja á ráðin um að selja þær á einu bretti til risastórra álfyrirtækja og það er óafturkræf aðgerð, frú forseti. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að horfa upp á slíkt gerast og þurfa að hlusta á hæstv. ráðherra eins og ég gerði í morgun. Í fréttunum var verið að fjalla um þessi gríðarlegu áform, nýtt álver á Norðurlandi á sama tíma og álverið í Straumsvík yrði stækkað og iðnaðarráðherra sagði óþarft að hafa nokkrar áhyggjur af því að það mundi valda þenslu. Hún bendir á að eitthvað þurfi að gera til að koma í veg fyrir að hagvöxtur lækki mjög skyndilega á næsta ári.

Heyr á endemi, frú forseti. Eigum við að ryðja upp fleiri hundruð þúsund tonna álbræðslum, fá þær á færibandi inn í landið til að hagvöxturinn lækki ekki skyndilega á næsta ári, þegar hún þykist ætla að verða búin með Kárahnjúkavirkjun, sem ég efa að verði. Ég spái því að Kárahnjúkavirkjun komist ekki í gagnið fyrr en 2008, ef landvættir lofa yfir höfuð að hún verði gangsett.

Þá býr hæstv. ráðherra þessa stóriðjudrauma sína í þann búning að koma þurfi í veg fyrir að hagvöxtur lækki mjög skyndilega á næsta ári. Kaupir þjóðin þetta? Kaupa fjölmiðlar þetta? Hæstv. iðnaðarráðherra segir, með leyfi forseta, í Ríkisútvarpinu í morgun kl. 8:

„Við höfum reiknað með því að þessar framkvæmdir verði í gangi á sama tíma en hins vegar verða þær von… ja, við reiknum ekki með því að þær verði í hámarki á sama tíma. Þannig að það verður reynt að koma hlutum þannig fyrir enda er Alcan komið þó nokkuð lengra með sitt mál heldur en Norðlendingar þar sem stækkunin þar er komin í gegnum umhverfismat.“

Hæstv. ráðherra verður þarna fótaskortur á tungunni þar sem hún ætlaði að fara að segja: en hins vegar verða þær vonandi ekki í hámarki á sama tíma. Ég ætla að vona að hæstv. ráðherra verði að ósk sinni, að þær verði ekki í framkvæmd á sama tíma, en ég sé ekki annað en að allt stefni í það.

Fréttamaðurinn segir þá: „Já, en ef tvær framkvæmdir eru í gangi á sama tíma þrátt fyrir að þær séu kannski ekki í hámarki á sama tíma, heldurðu að það geti ekki valdið mikilli þenslu og aðrar útflutningsgreinar, hátæknifyrirtæki, líði fyrir það?

Og hverju svarar hæstv. ráðherra því? Með leyfi forseta, segir hún:

„Ja, við erum nú að gera okkur grein fyrir því að þetta er þannig í dag að það eru framkvæmdir, þessar gríðarlegu framkvæmdir á Austurlandi auk þess sem það er í gangi stækkun á Grundartanga og það …, við höfðum nú hugsað okkur að þær framkvæmdir yrðu ekki í hámarki á sama tíma en við það var ekki ráðið í það skipti. En hvað varðar þessar framkvæmdir sem eru fram undan að þá er hægt að koma því þannig fyrir að það verði ekki svo mjög þensluvaldandi og við vorum að hafa það líka í huga að fari ekkert af þessu af stað þá lækkar hagvöxtur mjög mikið skyndilega á næsta ári.“

Er þetta nú boðlegt svar, frú forseti? Mér finnst það ekki. Það er kannski skammarlegt að vitna í þetta í þingtíðindum og láta prenta þetta í þeim en það er nú gert sem gert er og étið það sem étið er.

Frú forseti. Það væri hægt að taka á ýmsum þáttum þessara mála og hefur auðvitað verið farið mjög vítt yfir í þessari umræðu. Ég ætla að hlaupa yfir stóran þátt sem ég hafði ætlað mér að fjalla um og það voru mengunarmálin því að ég er hér með svar frá hæstv. umhverfisráðherra við fyrirspurn frá síðasta löggjafarþingi þar sem ég spurði um mengun frá stóriðju og fékk þá afskaplega sláandi tölur um losun væntanlegra verksmiðja. Sérstaklega er það brennisteinsdíoxíðið sem maður hefur áhyggjur af og með þeim áformum sem ég rakti áðan, aukningu upp á 1.660 þús. tonn, þá virðist mér brennisteinsdíoxíðslosunin vera komin upp í svipað magn og losað er í Noregi öllum. Já, brennisteinsdíoxíðslosunin sem gert er ráð fyrir frá þessum álverksmiðjum sem eiga að koma hér, ef hæstv. iðnaðarráðherra fær einhverju um það ráðið, losa jafnmikið af brennisteinsdíoxíði eins og öll losun á þessu efni er í Noregi og sést nú af því hversu arfavitlaus þessi áform eru.

Það væri betur ef við værum að ræða um annars konar atvinnuuppbyggingu en þessi hræðilegu stóriðjuáform. Nær væri að við værum að fjalla um fjölbreytt atvinnulíf á sjálfbærum grunni sem væri í takt við hugmyndafræði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en við erum þeirrar skoðunar að atvinnulíf eigi að hvíla á sjálfbærum grunni eigi uppbygging þess að standast til langframa. Við teljum að fjölbreytni eigi að vera grundvallarviðmið í atvinnustefnu á Íslandi en ekki einhæfni af því tagi sem hér er verið að innleiða. Ein hugmynd, stóriðja eða ekkert, stóriðja eða dauði, mundi Smekkleysa sennilega hafa orðað það.

Við erum þeirrar skoðunar, frú forseti, að reynsla síðustu ára sýni að þróttmikil nýsköpun í atvinnulífi og lítil og meðalstór fyrirtæki eigi mesta vaxtarmöguleika í landinu og þau skapi flest störf og skili þjóðarbúinu mestu. Með því að styðja við slíka atvinnuþróun megi auka útflutningstekjur þjóðarinnar og stuðla að hagvexti án þess að gengið sé á höfuðstól náttúrunnar. Höfuðgreinar hins almenna atvinnulífs, sjávarútvegur, landbúnaður og framleiðsluiðnaður bæði til innanlandsþarfa og útflutnings, svo og vaxtargreinar eins og ferðaþjónusta og hátækni- og þekkingariðnaður þurfa áfram að skipa veglegan sess í atvinnulífi okkar.

Flokkur minn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, hefur ályktað um þetta og síðast á landsfundi sínum í október sl. þar sem við segjum að fyrst og fremst þurfi að leggja áherslu á að efla menntakerfið á öllum stigum því að bætt menntun sé forsenda hagvaxtar sem hvíli á hugviti fremur en rányrkju, og við erum þeirrar skoðunar í alvöru, frú forseti, að hér sé um rányrkju að ræða. Þetta er ekkert annað en rányrkjustefna sem verið er að koma á og þröngva yfir þjóðina og sannarlega sér maður ekki að neinn lággróður fái að þróast hér í ljósi þeirra ruðningsáhrifa sem þegar eru farin að koma í ljós af stóriðjuframkvæmdunum á Austurlandi.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð telur að íslenskt atvinnulíf eigi að fá að þróast með hagsmuni allra landsmanna að leiðarljósi. Þess vegna þurfi byggða- og umhverfissjónarmið að hafa sitt vægi við allar ákvarðanir og jafnframt beri að stuðla að því að atvinnulífið lagi sig að alþjóðlegri þróun og nýti þau tækifæri sem bjóðast í viðskiptum en taki jafnframt fullt tillit til réttinda launafólks í viðkomandi löndum í anda félagslegrar alþjóðahyggju en starfsmannaleigum sé ekki hleypt inn í landið óheft þannig að þær lækki öll launaviðmið.

Ég gæti haldið lengi áfram að fara yfir ályktanir Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs frá landsfundinum. Þær eru þess eðlis að þær eiga vel heima í þessari umræðu og sýna svo ekki verður um villst að hægt er að velja aðra leið en þá sem hér er lögð til.

Ég vil ljúka máli mínu, frú forseti, á því að segja að mér þykir afar dapurlegt að þurfa að standa í þessum ræðustóli með þetta mál fyrir framan mig og þau gögn sem ég hef verið að vitna í hér. Mér finnst afar lágt risið á stjórnmálamönnum sem fara í þann leiðangur sem hæstv. iðnaðarráðherra er í í þessu máli og ekki bara í þessu máli heldur sömuleiðis í vatnalagafrumvarpinu sem hún hefur lagt fram, sem er sama marki brennt. Allt vald til iðnaðarráðherra, má segja að sé yfirskriftin yfir þeim málum sem hún hefur verið að flytja hér þar sem hún virðist ætla að sölsa undir sig stóran hluta af málum sem varða umhverfisvernd, og því miður hefur hæstv. umhverfisráðherra ekki haft styrk til að standa af einhverju afli gegn þeim áformum.

Kapphlaup orkufyrirtækjanna stendur sannarlega yfir, kapphlaupið um orkulindirnar okkar. Til marks um það eru t.d. áform Hitaveitu Suðurnesja um að virkja í Brennisteinsfjöllum. Brennisteinsfjöll og Trölladyngja eru útivistarperlur höfuðborgarbúa núna. Búið er að taka frá okkur Hengilinn, þar er verið að koma upp risastórri jarðvarmavirkjun, búið er að skera Hengilinn allan sundur og saman með vegum, slóðum og borholum og guð veit hverju. Hann verður því ekki lengur sú paradís sem hann áður var ósnortinn og það stefnir í að Brennisteinsfjöllum verði líka fórnað á altari stóriðjunnar en Hitaveita Suðurnesja sækir nú fast að fá að virkja þar. Hún hefur reyndar fengið að hluta til rannsóknarleyfi, hún fékk rannsóknarleyfi í Trölladyngju og Sandfell árið 2000 og hefur borað a.m.k. eina rannsóknarholu þar, og eftir því sem ég best veit er búið að veita leyfi fyrir borun annarrar rannsóknarholu á því svæði. Verið er að sækja um rannsóknarleyfi fyrir 295 ferkílómetra svæði þar sem miðað er við að ytri mörk nái svona 2–3 kílómetra út fyrir það svæði, þar sem viðnámsmælingar benda til að hiti hafi einhvern tíma náð 240 gráðum á Celsius á 600 metra dýpi. Reiknað er með borun hvorki meira né minna en 13 rannsóknarhola á svæðinu við Trölladyngju og Brennisteinsfjöll með margháttuðum yfirborðsrannsóknum og öðrum athugunum og talið er mögulegt að hægt verði að virkja um 100 megavött á fjórum stöðum á Krýsuvíkursvæðinu. Sótt er um þetta rannsóknarleyfi til 10 ára.

Hverjar eru ástæður þessarar orkuöflunar? Jú, Hitaveita Suðurnesja hefur undirritað samkomulag við Norðurál og Reykjanesbæ um athugun á möguleikum á byggingu álvers í Helguvík. Í fyrstu er gert ráð fyrir að í 1. áfanga þurfi um 350 megavött en álverið í endanlegri mynd gæti þurft um 700 megavött og í öflun orku er fyrst og fremst horft til jarðhita en einnig til vatnsafls. Á Reykjanesskaga er talið að jarðhitasvæðin geti gefið af sér a.m.k. 100 megavött hvert. Þar er um að ræða þrjú svæði, Krýsuvík austan við Sveifluháls, Seltún og Sandfell, og Trölladyngju og Brennisteinsfjöll. Tekið er fram í þeim gögnum sem ég hef hér varðandi þessar umsóknir Hitaveitu Suðurnesja að hitaveitan hafi sótt um rannsóknarleyfi árin 2000 og 2002 með Orkuveitu Reykjavíkur en niðurstöður varðandi það leyfi liggja ekki fyrir. Það er búið að bora við Seltún og þar eru vegir og sá hluti svæðisins er kannski orðinn raskaður en að öðru leyti er svæðið óraskað og það eru ákveðin verndunarákvæði sem gilda um það því að Krýsuvík er innan Reykjanesfólkvangs og í reglugerð um fólkvanginn segir, með leyfi forseta:

„Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, samanber þó lög um náttúruvernd.“

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að það er auðvitað skelfilegt þegar maður les allar friðslýsingarnar á Íslandi hversu margar þeirra eiga það sammerkt að hafa verið ákveðnar með hagsmuni orkunýtingar fyrirtækjanna í huga en ekki hagsmuni náttúruverndarinnar. Dæmi um það eru Þjórsárver og friðlandsmörkin þar og sama má segja um þau fólkvangsmörk sem eru í Reykjanesfólkvangi. Inn á fyrirhuguðu rannsóknarsvæði eru tvö svæði á náttúruminjaskrá og þar eru einnig tvö svæði sem Umhverfisstofnun hefur lagt til að friðlýst verði síðar. Og það er rétt að geta þess hér í framhjáhlaupi að Umhverfisstofnun hefur lagt til að svæðið verði sett á náttúruminjaskrá. Þess er getið í náttúruminjaskránni, sem gefin var út og dreift á þinginu fyrir ekki margt löngu, á hvern hátt Umhverfisstofnun sæi fyrir sér að svæðið yrði friðað og segir í hugmyndum stofnunarinnar að svæðið Brennisteinsfjöll – Herdísarvík eins og það er kallað í náttúruverndaráætluninni sé merkilegt fyrir þær sakir að þar séu merkar gosminjar sem nánast eru ósnortnar, t.d. gígar, hraun, sprungur og hellar og í Brennisteinsfjöllum er háhitasvæði sem er nánast ósnortið. Á svæðinu má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi, eldsvæðið nær frá sjó norður í Rauðuhálsa ofan við Sandskeið, víðáttumikið dyngjuhraun er á svæðinu. Frá gíg sunnan í Draugahlíðum hefur runnið hraun niður að Hlíðarvatni. Í Herdísarvíkurhrauni er kjarrlendi fyrir opnu Atlantshafi og er það eitt heilsteyptasta kjarrið sem eftir er á Reykjanesskaga. Meðal menningarminja á svæðinu er hluti Selvogsgötu sem liggur frá Hafnarfirði í Selvoginn og Bennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum. Þessar eldgosaminjar eru nánast ósnortnar og afar merkar og sömuleiðis þessar jarðskjálftasprungur og misgengi. Þetta svæði hefur að mati Umhverfisstofnunar hátt verndargildi, það hefur alþjóðlegt náttúruverndargildi og þess vegna er það eitt af þeim svæðum sem Umhverfisstofnun leggur til að verði friðað til frambúðar. En ef hæstv. iðnaðarráðherra fær að ráða verður það ekki gert, frú forseti, því er nú verr og miður. Og ekki aðeins Brennisteinsfjöllum er ógnað heldur meira og minna náttúruperlum okkar um þvert og endilangt landið. Náttúruperlur sem tengjast háhita og vatnsföll sem eru stór þáttur í okkar stórbrotnu og merkilegu náttúru eiga þvílíkt undir högg að sækja vegna stefnu núverandi ríkisstjórnar í stóriðjumálum og einn þáttur þeirra mála er frumvarpið sem við nú ræðum.

Ég ítreka einungis vonbrigði mín með niðurstöðu dagsins í dag, að hv. þingmenn Samfylkingarinnar skuli hafa gengist inn á þennan vagn ríkisstjórnarinnar, stóriðjuvagninn, og að mótstaðan sem við fögnuðum rétt fyrir jól að væri til staðar gegn þessum áformum virðist nú brotin á bak aftur að öllu leyti nema því að hér stöndum við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs klukkan að verða þrjú um nótt og reynum að malda í móinn, reynum að gera það sem í okkar valdi stendur til að leiða fólki fyrir sjónir hvað hér er í uppsiglingu, hvað hér er á döfinni og auðvitað gerum við það í trausti þess að við höfum árangur sem erfiði og fólk átti sig á að hér er um mjög alvarlegt mál að ræða. Hér eru fórnir fram undan á náttúruperlum sem við, ef af verður, fáum aldrei aftur til baka.