132. löggjafarþing — 53. fundur,  27. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[02:46]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Frumvarpið sem hér er til umræðu, um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er stærra, hefur meiri áhrif og skírskotun til stærri atburða en maður gæti haldið í fyrstu, við að lesa þetta litla frumvarp. Þótt nokkrar breytingar hafi verið gerðar á því í dag, eftir að hæstv. ráðherra upplýsti að hún hefði afvegaleitt þingið við meðferð málsins, bæði við 1. umr. og það sem liðið var af 2. umr. þá dugir það ekki. Ráðherra upplýsti að hún hefði afvegaleitt þingið í nefnd þegar um var fjallað. Því hefði verið réttast og eðlilegast að málið færi aftur til 1. umr., að hæstv. ráðherra legði fram nýtt frumvarp, eftir að hafa afvegaleitt þingið í störfum sínum. Ég lít á það sem grafalvarlegan hlut og tel að stjórn þingsins hafi tekið of léttilega og kæruleysislega á því. Það er alvörumál þegar ráðherra afvegaleiðir þingið í störfum sínum, eins og raun ber vitni. Þá á ekki að láta þingið gjalda þess heldur á hæstv. ráðherra, sem á hlut að máli, að taka málið fyrir að nýju og leggja aftur fyrir þingið á þann hátt að trúverðugt mætti telja.

Ég ítreka, frú forseti, að ég átel vinnubrögð stjórnar þingsins í dag hvað þetta mál varðar, ekki síst í ljósi aðdragandans. Við þingmenn höfum við þessa umræðu óskað eftir rýmri tíma til að átta okkur á þeim breytingartillögum sem inn hafa komið og til að átta okkur á hvað felst í yfirlýsingum ráðherra, um að hún hafi afvegaleitt þingið. En því er hafnað af stjórn þingsins. Það gengur átölulaust að ráðherra afvegaleiði störf þingsins en þegar þingmenn, sem hafa látið málið sig varða, vilja fá svigrúm til að skoða, kanna og meta ný gögn sem hafa komið fram í umræðunni, m.a. í tillöguformi, þá er því hafnað. Ég átel þessi vinnubrögð og tel þau ekki þinginu til sóma.

Frú forseti. Þær breytingar sem lagt er til að gera á frumvarpinu hafa í sjálfu sér ekki mikið gildi. Þær snúast um áframhaldandi heimildir til rannsóknar- og virkjunarleyfa. Þótt reynt hafi verið, í tillögum sem hafa verið lagðar fram við umræðuna, að slíta þarna á milli er fullkomlega ljóst að þeir aðilar sem fá úthlutað rannsóknarleyfi hafa í raun fengið forgang til virkjunarleyfis. Það held ég sé öllum ljóst, öllum sem skilja vilja.

Í 32. gr. laga um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. segir, með leyfi forseta:

„Leyfi samkvæmt lögum þessum eru ekki framseljanleg né má setja þau til tryggingar fjárskuldbindingum nema með leyfi ráðherra.“

Rannsóknarleyfin sem við tölum núna um að gefa ráðherra heimild til að veita getur leyfishafinn fénýtt sér. Hann hefur þar náð kverkataki, fengið tak á viðkomandi auðlind og viðkomandi landsvæði. Hann getur fénýtt það og ráðherra getur meira að segja heimilað honum að selja það. Ráðherra getur heimilað honum að selja rannsóknarleyfið. Þegar það er svo nátengt virkjunarleyfinu getur verið um háar upphæðir að ræða, milljarða króna jafnvel sem ráðherra hefur þar í hendi sér, að úthluta til vildarvina Framsóknarflokksins, eins og við þekkjum með Búnaðarbankann. Kannski er það eitthvað slíkt sem býr undir hjá hæstv. iðnaðarráðherra hvað þetta varðar.

Stefna okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að nú verði sagt stopp í bili. Ljúkum því sem þarf að ganga frá. Efnum ekki til nýrra virkjana eða nýrrar stóriðju fyrr en því sem í gangi er hefur verið lokið. Ekkert rekur svo á eftir því að ekki megi vanda vinnuna við undirbúninginn undir næstu virkjunarframkvæmdir, hvar sem þær verða. Ekkert ætti að hindra að gefið sé svigrúm til að undirbúa það vel.

Ég vil líka, frú forseti, láta í ljós þá skoðun mína, sem ég deili með fleirum, að með því að gera orkuvinnslu og rannsóknir á kostum hennar að samkeppnisiðnaði, eins og hér er stefnt að, séum við á rangri braut. Við eigum að gera rammaáætlunina klára og ganga frá forgangsröðun á virkjunarkostum. Mín skoðun er sú að opinberir aðilar, t.d. Orkurannsóknir, eigi að inna af hendi grunnrannsóknir fyrir val á nýjum orkuverum og standa að þeim rannsóknum sem rætt er um að úthluta. Það er langeðlilegast að opinberir aðilar beri þar ábyrgð. Það er ríkisvaldið sjálft sem tekur endanlega ákvörðun um hvar virkjunarleyfum verði úthlutað á grundvelli rannsókna sem það sjálft ber ábyrgð á.

Frumvarp þetta er bein ávísun á áframhaldandi virkjanir. Úthlutun rannsóknarleyfa getur síðan nánast sjálfkrafa leitt til virkjunarleyfa auk þess sem þeir sem fá rannsóknarleyfin í hendur geta fénýtt sér þau, látið þau ganga kaupum og sölum. Það er því mikilvægt að þetta frumvarp verði stoppað og staldrað verði við málaflokkinn í heild, bæði af efnahagsástæðum og vegna stöðunnar í umhverfismálum. Ekkert rekur á eftir því að ráðast í framkvæmdirnar og því ætti að staldra við.

Frú forseti. Ég vildi minnast á eitt enn við hæstv. iðnaðarráðherra. Ég vildi, ef iðnaðarráðherra er í húsinu, spyrja hana út í orðaskipti sem hér urðu nú nýverið. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. forseta: Er hæstv. iðnaðarráðherra til staðar?

(Forseti (JóhS): Iðnaðarráðherra er í húsinu og forseti mun gera ráðstafanir til að hæstv. iðnaðarráðherra komi til fundar.)

Þá hinkra ég á meðan.

Frú forseti. Í umræðum á þingi fyrir skömmu, síðastliðinn mánudag, var fjallað um raforkuverð til fiskeldis. Umræðan snerist m.a. um raforkuverði til fiskeldisins austur á Mjóafirði, fyrirtækis sem nú er verið að loka vegna ruðningsáhrifa stóriðjustefnu hæstv. iðnaðarráðherra og stefnu hennar í raforkumálum. Með leyfi forseta, þá hef ég hér bráðabirgðaútgáfu af ræðu hæstv. iðnaðarráðherra og svari hennar við fyrirspurn hv. þingmanns Kristjáns L. Möllers. Ég bið um leyfi forseta til að vitna í það, með þeim fyrirvara að þetta er bráðabirgðaútgáfa og kannski ekki alveg rétt, frú forseti. En hæstv. ráðherra segir þar:

„Hæstv. forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að uppfræða mig neitt sérstaklega um stöðu mála í Mjóafirði, ég er ágætlega málkunnug oddvitanum, honum Sigfúsi á Brekku … Að sjálfsögðu hef ég verið í sambandi við hann síðustu daga út af þessum fréttum. Hins vegar var málflutningur forsvarsmanna fyrirtækisins Samherja og Sæsilfurs mjög ónákvæmur hvað varðar raforkuverðið, m.a. vegna þess að ég hef upplýsingar um það að verð til fiskeldisfyrirtækis á landsbyggðinni sem kaupir um þriðjung þess rafmagns sem fer til fiskeldis hefur hækkað um 4,7% á milli ára. Það eru ekki nema rétt ríflega verðlagshækkanir þannig að það getur varla verið ástæða þess að uppi eru hugmyndir um að leggja starfsemina af. Ég vil ekki segja að það hafi verið alveg kveðið upp úr með það en a.m.k. eru ekki góðar líkur eins og er. Auðvitað er það mikið áhyggjuefni.

Ég vil líka taka það fram hér að Rarik gerði núna um áramótin úttekt á því hvernig raforkuverð hefur þróast hjá fyrirtækjum á dreifisvæði þess fyrirtækis. Þá kemur í ljós að raforkuverð til fyrirtækja hefur lækkað um 18–20% á kílóvattstund hjá þeim fyrirtækjum sem hafa keypt raforku hjá Rarik. Þetta held ég að sé ákaflega mikilvægt að hv. þingmaður festi sér í minni svo hann þurfi ekki að koma hér upp vikulega til að tala um hækkun á raforkuverði almennt. Fiskeldi naut algjörra sérkjara áður fyrr og gerir raunar enn að ákveðnu marki, enda hefur Landsvirkjun gefið út fréttatilkynningu til að koma á framfæri staðreyndum í þessu máli. Það er spurning hvernig þau mál muni þróast. Þau eru enn í tilraunaferli, þessi fyrirtæki, og auðvitað vonum við öll að þau geti haldið áfram rekstri.“

Hér segir, frú forseti, að rafmagnið hafi aðeins hækkað um 4,7% en reyndar hafi það lækkað til annarra aðila. Í frétt í Morgunblaðinu frá því í gær er vitnað í orð forstjóra fyrirtækisins. Ég vil leyfa mér að lesa það upp og spyrja hæstv. ráðherra: Hvort er satt, það sem hæstv. ráðherra segir eða það sem forsvarsmenn þessa fyrirtækis sögðu? Í fréttinni segir:

„Að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Samherja hf., en Sæsilfur er í meirihlutaeigu Síldarvinnslunnar hf. og Oddeyrar hf., dótturfélags Samherja, ræður sterkt gengi krónunnar mestu um þá ákvörðun að hætta laxeldinu. Gott verð hefur fengist fyrir laxinn í erlendri mynt og markaðsaðstæður eru ágætar, en það megnar ekki að vega upp sterkt gengi krónunnar.

Í fréttatilkynningunni segir einnig að mikil hækkun hafi orðið á raforku í kjölfar lagabreytinga. Hækkun á þessum eina rekstrarlið hjá fiskeldissviði Samherja nemi nú þegar meira en 10 milljónum króna á ári og fyrirsjáanlegt að hann muni hækka um 20 milljónir á ári til viðbótar innan tveggja ára og hafi þá tvöfaldast á einungis þremur árum. Viðræður um raforkukaup hafa ekki skilað árangri til framtíðar og „er ljóst að jafnstór raforkukaupandi og fiskeldið er nýtur alls ekki sannmælis sem slíkur,“ segir m.a. í tilkynningunni.“

Hér er talað um aðrar tölur í rafmagnsverði en hæstv. iðnaðarráðherra talaði um. Í fréttatilkynningu frá þessum aðilum er talað um tugprósenta hækkun á rafmagni. En hæstv. iðnaðarráðherra heldur því fram að í hæsta lagi sé hækkunin um 4,7%. Mér finnst mjög bagalegt, frú forseti, ef hæstv. iðnaðarráðherra fer rangt með. Hún ætti þá a.m.k. að kveða upp úr með hvor hafi rétt fyrir sér, fulltrúar þessara fiskeldisfyrirtækja eða hæstv. ráðherra, þegar rætt er um raforkukostnað.

Frú forseti. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi líka verið haldinn einhverjum misskilningi þegar rætt var um raforkuverðið. Við upplifum umræðuna um raforkuverðið einmitt sem töluverðan misskilning af hálfu iðnaðarráðherra. Þetta kann því að vera annað málið sem tengist þessari umræðu þar sem ráðherra eru haldinn misskilningi. Það á kannski við fleira en frumvarp til laga um breytingar á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þar sem allt hefur vaðið í misskilningi.

Frú forseti. Ég legg áherslu á að mál þetta er ótímabært. Það er illa unnið og einn misskilningur frá upphafi til enda. Ég harma að þingið skuli ekki hafa frestað umræðunni en við eigum 3. umr. eftir. Ég lýk þar með seinni ræða minni við 2. umr. en ég hef ekki sagt mitt síðasta hvað þetta frumvarp varðar. Þetta frumvarp á að stöðva.