Sala Hótel Sögu.
Frú forseti. Svar hæstv. landbúnaðarráðherra veldur mér miklum vonbrigðum. Ég hélt að hæstv. landbúnaðarráðherra mundi gæta hagsmuna bænda, þeirra bænda sérstaklega sem lögðu fram þetta mikla fé í upphafi. Það voru ekki félagsgjöld til Bændasamtakanna, þetta voru framlög til Hótel Sögu. Til að byggja hótel. Bændur ætluðu sér að byggja hótel. Þetta er nákvæmlega eins og með hluthafa sem stofna hlutafélag og leggja fram hluti. Það fólk sem leggur fram hluti í hlutafélag á eignina en ég get ekki séð að menn sem leggja fram eign sem ekki er félagsgjald og leggja fram sína eigin eign eigi hana ekki áfram. Ég skora því á hæstv. landbúnaðarráðherra að endurskoða álit sitt og hann láti skoða hvort ekki sé mögulegt að þessir bændur eigi þessa eign sína.