132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Sala Hótel Sögu.

[15:08]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta nú ekki vinarbragð af hv. þm. Halldóri Blöndal að vísa gráðugum frænda sínum í aðrar eignir bænda þegar fyrir liggur að Mjólkursamsalan og mjólkuriðnaðurinn á Íslandi er sameign bænda samtíðarinnar og um það liggja fyrir hin bestu álit lagaprófessora samtímans hvað það varðar þannig að svona úlfúð á ekki að kynda undir hjá hv. þm. Pétri Blöndal.

Bændur lögðu fram mikið fé fyrir 50–60 árum en þeir bændur eru fáir starfandi hérna megin í dag og erfitt að ná til þeirra. Ég er einn erfingi þeirra sem lögðu fram fé. En myndarlega stóðu þeir að þessu og frumkvöðlar voru íslenskir bændur. Það er rétt. Pétur Ottesen kom að þessu en Þorsteinn Sigurðsson á Vatnsleysu, höfðinginn mikli sem söng í Tungnaárréttum, var glæsilegur leiðtogi og baráttumaður, samdi hér í Reykjavík um glæsilega lóð við vin sinn Gunnar Thoroddsen borgarstjóra. Þarna hefur nafli alheimsins verið á Íslandi síðan sem sýnir að bændur voru framsýnir. Síðan eignuðust þeir Hótel Ísland. Nú er það bara bændanna sem eru að funda í öðru húsi í dag að taka ákvörðun um hvað þeir gera í þessu eignarmáli sínu og síðan hvernig þeir verja því fé, ef þeir selja sem ég efast um, til að styrkja íslenskan landbúnað, íslenska neytendur og fyrst og fremst bændur samtímans og framtíðarinnar. Girnumst ekki eigur annarra, segir í Biblíunni. Höfum þetta að leiðarljósi.