132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:29]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason fór hér ágætlega yfir efni máls og af hverju við erum að greiða atkvæði, nokkurn veginn allir þingmenn á Alþingi Íslendinga. Ég verð samt eiginlega að vekja athygli á þeirri fullyrðingu að ef máli er þannig fyrir komið að saman séu kallaðar stjórn og stjórnarandstaða í eina nefnd sé verið að plotta í reykmettuðum bakherbergjum. Það er náttúrlega illa komið fyrir mönnum þegar þeir ætla að fara í svokallað samráð. Það er þá ágætt að það sé bara vitað að það sé hið versta mál þegar menn setjast niður með stjórnarandstöðunni til að finna góðan flöt á máli eins og var gert þarna og ég hélt að allir væru sáttir með.

Ég vil minna hv. þm. Hlyn Hallsson á að það er bannað að reykja í opinberum byggingum þannig að ég rétt leyfi mér að vona að menn hafi ekki gert það þegar þeir settust niður og fóru yfir þetta ágæta mál.