132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:40]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp. Það gefur færi á því að leiðrétta ýmis orð sem fallið hafa á undanförnum dögum og vikum um svokallaða stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar eins og það er kallað.

Staðan á Íslandi er sú að hér eru starfrækt tvö álver, þ.e. álver Alcans í Straumsvík og álver Norðuráls á Grundartanga. Þessu til viðbótar er í byggingu álver Fjarðaáls í Reyðarfirði sem mun taka til starfa árið 2007. Stjórnvöld beittu sér markvisst á sínum tíma til að laða öll þessi fyrirtæki hingað til lands til eflingar íslensku atvinnulífi. Hvað varðar frekari uppbyggingu stóriðju hér á landi er hins vegar e.t.v. réttara að tala um stóriðjuáform ríkisins, sveitarfélaga og orkufyrirtækja í eigu þeirra og ekki síst álfyrirtækjanna sjálfra. Sveitarfélögin á stórhöfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi hafa staðið ötullega að stækkun þeirra álvera sem nú eru starfrækt. Svo er einnig um allar hugmyndir um frekari stóriðjuuppbyggingu annars staðar. Á Norðurlandi koma sveitarfélögin að athugunum Alcoa og stjórnvalda á fýsileika þess að byggja þar upp stóriðju.

Ég er ekki hissa á því að þessir aðilar hafi áhuga á að byggja upp öflugt atvinnulíf. Það hefur sýnt sig að álverin þykja góðir vinnustaðir sem standa vel að aðbúnaði starfsfólks. Framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands greindi t.d. frá því í síðustu viku að meðalstarfsaldur hjá álveri Alcans væri með því lengsta sem gerist hér á landi. Þá sagði hann jafnframt að regluleg mánaðarlaun verkafólks og iðnaðarmanna í álverinu væru mun hærri en meðaltal þessara hópa á landsvísu. Þá væru stjórnendur álfyrirtækjanna frumkvöðlar og í fararbroddi hvað varðar öryggis- og aðbúnaðarmál. Álverin eru einnig, sem kunnugt er, stór kaupandi að raforku hér á landi og fyrir tilstuðlan þeirra hefur verið byggt upp öflugt og öruggt raforkukerfi.

Fyrirtækin Alcoa, Century Aluminium og Alcan eiga nú í könnunarviðræðum við orkufyrirtæki, stjórnvöld og í sumum tilfellum sveitarfélög um þrjú möguleg verkefni. Tvö þeirra eru á suðvesturhorninu. Alcan er að skoða stækkun álversfyrirtækisins í Straumsvík um 280 þús. tonna ársframleiðslugetu. Hefur félagið undirritað samkomulag við Orkuveitu Reykjavíkur um afhendingu á tæplega helmingi af þeirri raforku sem þörf er á vegna stækkunarinnar og einnig liggur fyrir mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá er Alcan um þessar mundir í einkaviðræðum við Landsvirkjun um þá orku sem út af stendur til að af stækkun geti orðið. Ekki er hins vegar búið að taka neina ákvörðun um hvort af stækkun muni verða og ítrekaði Rannveig Rist, forstjóri Alcans á Íslandi, það í Morgunblaðinu 28. janúar sl.

Alcoa, eigandi Fjarðaáls, er að skoða byggingu allt að 250 þús. tonna álvers á Norðurlandi. Rannsóknir á orkuöflunarkostum í tengslum við þá framkvæmd eru skemmra á veg komnar, en fyrsti áfangi álversins gæti hugsanlega hafið framleiðslu á árinu 2012. Century Aluminium, eigandi Norðuráls, er svo að skoða byggingu nýs allt að 250 þús. tonna álvers í Helguvík í Reykjanesbæ. Það er því ljóst að jafnvel þótt litið sé til allra ýtrustu áforma um stækkun álvera eða byggingu nýrra hér á landi og ef miðað er við þær tímaforsendur sem að framan greinir munu Íslendingar standa við skuldbindingar sínar í Kyoto-bókuninni gagnvart útstreymi gróðurhúsalofttegunda vegna stóriðju. Þar sem engar ákvarðanir liggja fyrir um nokkurt þessara nýju verkefna er allt of snemmt að segja til um hvort af þeim muni verða. Mitt hlutverk og íslenskra stjórnvalda er hins vegar að gæta þess að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni. Stjórnvöld munu jafnframt vinna að því að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum og gæta þess að í áframhaldandi uppbyggingu muni framkvæmdir, ef af þeim verður, dreifast með skynsamlegum hætti yfir næstu ár þannig að ekki verði hér of mikil þensla og að útflutnings- og samkeppnisgreinar standi ekki höllum fæti.

Hæstv. forseti. Að síðustu hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort ekki hafi með viðræðunum við Alcan verið ákveðið að Alcan væri næst í röðinni langar mig til að benda á að Orkuveita Reykjavíkur tók fyrsta skrefið með því að semja við Alcan í júní sl. (Forseti hringir.) um að útvega fyrirtækinu 40% þeirrar orku sem þarf til stækkunarinnar.