132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:45]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér eru það nokkur vonbrigði að loftslagsmálin skyldu ekki vera meira í fókus í ræðu hv. flutningsmanns og kannski í ræðu hæstv. iðnaðarráðherra líka því að umræðan var þannig kynnt. Það sem mig langaði til að ræða hér voru hlutir varðandi losunina. Það er alveg fáránlegt að hæstv. iðnaðarráðherra skuli leyfa sér að segja að hún ætli að halda sig innan skuldbindingarmarka okkar í Kyoto hvað varðar íslenska ákvæðið þegar alþjóð veit að það hljóðaði upp á 1,6 milljónir tonna í útblástur og nú liggur á borðinu að hæstv. ríkisstjórn ætlar að teygja sig langt yfir tveggja milljóna tonna markið og segja að það rúmist innan heimildanna vegna þess að gerður verði meðaltalsútreikningur. (Iðnrh.: Reglurnar eru þannig.) Það er þá ljóst að við áramótin 2012 ætla hæstv. ríkisstjórn og stóriðjuflokkarnir á Alþingi að gangast fyrir því að við losum hér á þriðju milljón tonna gróðurhúsalofttegunda við lok skuldbindingartímabils I í Kyoto. Síðan ætlar þessi ríkisstjórn, að öllum líkindum með stuðningi stóriðjuflokkanna á Alþingi, að fara í herferð, í mikinn leiðangur á vegum Kyoto-sáttmálans, og sækja um undanþáguheimild upp á á þriðju milljón tonna á ári á árunum sem á eftir koma, 2013, 2014, 2015, 2016 — og hvað langt inn í framtíðina?

Ég spyr, frú forseti: Eru menn orðnir algerlega sturlaðir hér? Það er ekki nokkur glóra í þessari ásókn í að heimila þennan útblástur. Eru menn sér meðvitaðir um heilsufar fólks sem þarf að búa við það að 12 kíló af brennisteinsdíoxíði per tonn af bræddu áli fari út í andrúmsloftið við heimili þess? Hvaða áhrif hefur þetta á heilsufar fólksins sem byggir þetta land? Eru menn orðnir (Forseti hringir.) vitlausir, frú forseti?