132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:48]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Það er mjög mikilvægt og við þurfum að ræða það oftsinnis á þessum vettvangi sem og annars staðar í þjóðfélaginu. Það hefur verið sátt um það meðal stjórnmálaafla á Íslandi að nýta þá orku sem landið hefur upp á að bjóða. Er Ísland með algjöra sérstöðu þegar kemur að endurnýjanlegum orkugjöfum, 70% af orku okkar kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum og bara svo að við berum okkur saman við t.d. OECD-löndin eru það 5% þar. (KolH: Þetta er fölsun.) Virðulegi forseti. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir.

Það sem er einnig athyglisvert er að þegar menn skoða loftslagsmálin — því að þeir hafa áhyggjur af þeim — lítur þetta ekki vel út varðandi endurnýjanlega orkugjafa. Þeir voru 13,1% 1973 og eru svipaðir núna en verða 12,3% árið 2030, ef áætlanir ná fram að ganga.

Það hefur verið mjög mikil sátt um stóriðjuna meðal allra stjórnmálaafla hér á þingi og annars staðar í þjóðfélaginu. Hefur sá sem hér stendur m.a. unnið í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og borgarstjórn að því að Orkuveita Reykjavíkur fer að byggja upp aðstæður fyrir stóriðju sem m.a. kom fram hjá iðnaðarráðherra. Það kom mér svolítið á óvart að heyra hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur tala um stóriðjuflokkana og að þeir væru orðnir sturlaðir þar sem ég sit nú með fulltrúa Vinstri grænna í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og hef aldrei heyrt þetta tal þar. Þvert á móti hefur í fyrsta skipti í sögu Orkuveitu Reykjavíkur undir forustu R-listans, þó að við sjálfstæðismenn höfum tekið virkan þátt í því — þar á meðal með þátttöku vinstri grænna í algjörri sátt — verið farið út í það að skapa hér aðstæður fyrir stóriðju og að fyrirtæki fari að selja orku til hennar. Það hefur aldrei gerst áður. Ef við erum hér að tala um stóriðjuflokka er nú sá ágæti flokkur Vinstri grænir einn af þeim.

Ástæðan örugglega fyrir því að menn hafa viljað gera það er sú að vatnsaflsvirkjanir menga mun minna af CO 2 en t.d. kolavirkjanir, ef þannig má að orði komast, sem eru með 11,4 tonn, gas með 5–8 tonn á meðan (Forseti hringir.) vatnsaflið er með 0,06 tonn.