132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:50]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Margir hafa að undanförnu varað við því að farið sé fram með loforð um mikil stóriðjuáform á næstu 4–6 árum, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert í máli sínu að undanförnu. Það á ekki að ýta undir sérstakt kapphlaup álfyrirtækjanna sem fullnýta heimildir Íslands til losunar samkvæmt Kyoto-bókun með því að láta út frekari stækkunarleyfi álvera að svo komnu máli.

Miðstjórn Frjálslynda flokksins ályktaði þann 25. janúar svo, með leyfi forseta, „að gaumgæfa beri mjög vel fyrirhugaðar virkjanir eða áformaðan vöxt áliðnaðar á Íslandi.

Frekari uppbygging stóriðju er vandasamt verk og taka ber fullt tillit til náttúru, landnytja og mengunar þegar virkjunarkostir eru skoðaðir og ákveðin frekari stóriðja.

Sérstaklega þarf að huga að afleiðingum stóriðjustefnu fyrir aðrar atvinnugreinar.“

Það er ljóst að við erum að missa ýmis atvinnufyrirtæki í útflutningsgreinum úr landi eins og á málum er haldið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Náttúra Íslands er ein verðmætasta auðlind Íslendinga. Veljum næstu skref af vandvirkni og yfirvegun í virkjunar- og álverum. Við höfum séð álver eins og Norðurál í Hvalfirði rekin með ágætishagnaði þrátt fyrir undir 90 þús. tonna framleiðslu. Það er ekki þörf á því að byggja gríðarlega stór álver, við getum dreift þessum atvinnutækifærum skynsamlega um landið og við eigum einnig að nýta orkuna skynsamlega með tilliti til náttúrunnar. Það er óþarfi að æða á undan með forustu iðnaðarráðherra í fararbroddi og axarsköft hennar.