132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:54]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er heiðarlegt af þingmönnum Samfylkingarinnar að opna sig hér í þessu máli og segja frá stefnu Samfylkingarinnar hvað varðar uppbyggingu stóriðju, m.a. á Norðurlandi. Ég hef ekki heyrt annað á hv. þingmönnum Samfylkingarinnar hér en að Samfylkingin hafi í þessari umræðu lagst gegn þeim áformum.

Talandi hér um þenslu og þensluástand (Gripið fram í.) vil ég upplýsa þingmenn Samfylkingarinnar um að það er ekkert mikið þensluástand í Þingeyjarsýslum. Það er gríðarlegt atvinnuleysi í Eyjafirði. Forustumenn sveitarfélaganna á Norðurlandi hafa í ágætu samráði við hæstv. iðnaðarráðherra átt gott samstarf hvað varðar framtíðaráform í uppbyggingu atvinnutækifæra á Norðurlandi. En því miður virðist Samfylkingin hafa snúist gjörsamlega í þessu máli og það er alveg ljóst að hv. þingmenn Samfylkingarinnar geta ekki talað öðru máli norðan heiða en hér í þingsölum Alþingis. Og það er alveg ljóst að menn verða að vera ábyrgir orða sinna í þessum efnum.

Allt of geyst farið í stóriðjumálum? Hæstv. iðnaðarráðherra fór yfir það áðan að við munum standa við skuldbindingar okkar hvað Kyoto-bókunina varðar, það er ásetningur íslenskra stjórnvalda. Síðan geta hv. þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna náttúrlega talað á allt annan hátt, sagt að ríkisstjórnin ætli sér að brjóta þetta samkomulag. Það var reyndar hlegið að hæstv. ríkisstjórn þegar við reyndum að fá undanþágu hvað varðar mengunarákvæði í þessari Kyoto-bókun. Það er alveg ljóst að ef ríkisstjórnin hefði ekki náð því fram værum við ekki að horfa á framtíðaruppbyggingu í atvinnumálum, sérstaklega ekki á landsbyggðinni.

Það virðist vera þannig að þegar talað er um atvinnumál á landsbyggðinni gegnir þar allt öðru en um atvinnumál á höfuðborgarsvæðinu. Það er gríðarleg uppbygging stóriðju á höfuðborgarsvæðinu. Þegar við tölum um Austurland (SigurjÞ: Eigum við að taka veiðiréttinn?) eða Norðurland fer allt af hjörunum hjá hv. þingmönnum vinstri flokkanna hér á Alþingi. (Gripið fram í: Þetta er einnar hugmyndar atvinnustefna.)