132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[15:59]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa umræðu sem gefur reyndar líka tilefni til þess að velta fyrir sér stefnu Samfylkingarinnar. Hún er hvorki skýr og ákveðin né gefur tilefni til þess að fólkið í landinu geti tekið mark á henni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf haft þá skýru stefnu að nýta beri orkuauðlindir landsins til hagsbóta fyrir landsmenn eins og sjá má af ályktunum flokksins og stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Við ætlum okkur að halda áfram að bæta kjör þjóðarinnar, og nýting orkuauðlindanna er ein af þeim leiðum sem við höfum til þess. Kaupendur orkunnar eru stóriðjuver sem skapa útflutningstekjur, atvinnu og aukinn hagvöxt. Í hnattrænu samhengi er hér um góða leið að ræða, auðlindir okkar eru endurnýjanlegar. Í efnahagslegu samhengi er það ekki spurning að hér er um góða leið að ræða en það verður auðvitað að hafa í huga að framkvæmdirnar komi rétt inn í hagkerfið og inn í hagsveifluna. Það er auðvitað meginmál sem við verðum að huga að.

Það liggur ljóst fyrir að það er ónýtt orka á Þjórsársvæðinu sem skynsamlegt og hagkvæmt er að nýta. Sú orka verður auðvitað nýtt sunnan lands. Á Norðurlandi eru miklir kostir hvað varðar orkunýtingu, bæði í fallvötnum og ekki síst í gufuaflsvirkjunum. Tækniþekking er sífellt að aukast á því sviði og gefur því fleiri tækifæri. Það er augljóst að sú orka sem verður aflað á Norðurlandi verður nýtt þar eftir því sem gufuaflssvæðin gefa tilefni til. Viðræður eru reyndar að hefjast við Alcoa um það efni á næstu vikum.

Það er ánægjulegt að núna eru það kaupendurnir sem banka á dyrnar hjá okkur varðandi orkukaup. Sú tíð (Forseti hringir.) er liðin að við þurfum að eltast við þá út um allan heim.