132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stóriðjuáform ríkisstjórnarinnar og loftslagsmál.

[16:06]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er nú í raun dálítið vandræðaleg umræða. Það bera allir kápuna á báðum öxlum, eins og hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar viti það ekki. Þeir tóku þá ákvörðun að fara í stækkun Alcan með því að vilja, í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur, að orka yrði seld hvað varðar 40% af þörfinni. Þannig að hv. þingmenn geta ekki komið hér og þóst ekki hafa komið neitt nálægt þessu máli. Það er það sem gerir þetta vandræðalegt og þar að auki væri skemmtilegra ef hv. þingmenn væru málefnalegri almennt vegna þess að hér erum við að tala um stóra hluti. Við erum að tala um mikilvægt mál fyrir þessa þjóð. Það vill nú svo til að álverin eru góðir vinnustaðir og samkvæmt könnun eru nú hvorki meira né minna en 99% kvenna í Fjarðabyggð sem vilja vinna í álverinu sem er verið að byggja þar. Það segir sína sögu um hug fólksins. Já, já, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir er hneyksluð vegna þess að hún er örugglega of fín til að vinna í álveri, ég er alveg viss um það.

Svo er það þetta með að við getum ekki staðið við skuldbindingar okkar. Þetta tyggja hv. þingmenn hér upp hver á fætur öðrum, að við getum ekki staðið við skuldbindingar okkar gagnvart Kyoto. Ég er búin að segja það, ég er búin að segja það vegna þess að það er búið að reikna það út, að við stöndum við skuldbindingar okkar á því tímabili sem Kyoto-samkomulagið nær yfir, frá 2008–2012. Það er ekki þannig að við séum að hafna einu fyrirtæki ef Alcan færi í stækkun, sem við vitum ekki í dag. Það er verið að reyna að koma þessu máli þannig á framfæri gagnvart þjóðinni og gagnvart Norðlendingum að ég sé að svíkja Norðlendinga. Það er það sem svífur hér yfir vötnunum. Því langar hv. þingmenn svo óskaplega mikið til að koma á framfæri við kjósendur í mínu kjördæmi. Það er málið.