132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:17]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er á ferðinni enn eitt einkavæðingarfrumvarp ríkisstjórnarinnar og enn er það hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sem dregur einkavæðingarvagninn. Nú eru það Rafmagnsveitur ríkisins sem á að hlutafélagavæða. Nú er það svo, frú forseti, að þegar maður hlutafélagavæðir fyrirtæki er það til þess að geta selt það að hluta eða öllu leyti, taka út úr því arð til eigenda sinna. Hæstv. ráðherra hefur ítrekað lýst því, bæði á Alþingi og í viðtölum, að stefnt sé að því að einkavæða og selja raforkufyrirtækin, Rarik og Landsvirkjun. Ég hlýt því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvenær telur ráðherra að það komi á dagskrá hjá þeim að selja Rarik? Ég minni á umræðuna um sölu Símans. Þegar Síminn var hlutafélagavæddur voru gefnir sömu svardagar en um það bil 10 árum síðar var Síminn seldur. Þá voru gefnir sömu svardagar af þáverandi ráðherra, þegar Pósti og síma var breytt í hlutafélag, að ekki stæði til að selja hann. Sama segir hæstv. ráðherra nú. Hvað telur hún að langt verði þangað til að lagt verður til að selja? Og hvernig hefur hæstv. ráðherra hugsað sér að taka fé út úr fyrirtækinu því eitt af meginmarkmiðum með að hlutafélagavæða fyrirtæki er að ná út úr þeim fé, fjármagni til eigenda sinna. Hefur ráðherra hugsað sér að selja síðan Rarik að hluta eða að öllu leyti þegar til sölu kemur? (Forseti hringir.) Mér finnst eins gott að við tölum hreint út.