132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort neytendur megi búast við einhverjum breytingum vegna þessarar skipunar. Hvort þetta muni hækka eða lækka rafmagnsreikninginn hjá fólki. Fólk hefur áhyggjur af því. Það hefur orðið fyrir barðinu á fyrri verkum hæstv. ráðherra. Því hefur verið lofað að breytt skipan, þar sem samkeppni yrði innleidd, mundi jafnvel lækka verðið, mundi ekki hækka það. Það mundi ekki verða nein hækkun í kerfinu. En samt sem áður hefur fólk, alla vega á landsbyggðinni, séð hækkanir, sérstaklega þeir sem hita hús sín með rafmagni. Það verður þá fróðlegt að vita hvort ráðherra hefur séð fyrir sér að þessi aðgerð muni þá mögulega lækka rafmagnsreikninginn. Nú er það staðreynd að iðnfyrirtæki hér á Íslandi borga hærra verð fyrir raforku en iðnfyrirtæki í nágrannalöndunum. Ég hefði talið mjög upplýsandi að hæstv. ráðherra færi yfir það hvort þessi aðgerð verði til þess að hækka eða lækka rafmagnsreikninginn. Því öll fyrri afskipti hennar af raforkumálum hafa frekar orðið til þess að hækka rafmagnsreikninginn hjá fólki.