132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:23]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það skiptir í raun voða litlu máli hvað ég segi hér því hv. þingmaður fer yfirleitt rangt með. Það hef ég rekið mig á. Hann er búinn að halda margar ræður um það út um allt land að ég hafi lofað ýmsu. Það er ekki neitt á bak við það annað en eitthvað sem gerist í hugarheimi hv. þingmanns. En þetta frumvarp er ekki lagt fram með það beint í huga að lækka eða hækka raforkuverð. Þetta gengur eingöngu út á að breyta fyrirtækinu í hlutafélag. Ég trúi því að reksturinn verði skilvirkari með því að fara yfir í hlutafélagaformið og fyrirtækið muni spjara sig betur í samkeppni sem það er að vissu leyti í þrátt fyrir að aðalstarfsemin felist í að dreifa rafmagni sem er ekki samkeppnismál.

Hvað varðar raforkuverðið þá er það nokkuð sem við getum rætt frekar hér í vetur þegar við ræðum þá skýrslu sem dreift hefur verið í þinginu um þróun raforkuverðs. Það er mjög margt jákvætt og ánægjulegt í því og sérstaklega hvað varðar fyrirtækin á Rariksvæðinu hvað raforkukostnaðurinn hefur lækkað mikið. Hins vegar er það þannig með húshitunarkostnaðinn, og það þekkir hv. þingmaður og hlýtur að vita, að þar lækkuðum við þakið. Það var áður 45 þúsund kílóvattstundir en er núna 40 þannig að það þýðir ákveðna hækkun hjá þeim sem kaupa mikið rafmagn. En síðan ætlum við að fara út í aðgerðir til hliðar við það sem hjálpa þá fólki til að einangra hús sín betur.