132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[16:46]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek alveg eindregið undir það. Auðvitað er mjög eðlilegt að hv. iðnaðarnefnd skoði þetta í samhengi við þessa umfjöllun að gera Rarik að hlutafélagi. Hægt er að sjá góð rök fyrir því að önnur sveitarfélög í landinu ættu að eignast hlut í Rarik með sambærilegum hætti og Reykjavíkurborg og Akureyri eignuðust hlut í Landsvirkjun. Reykjavíkurborg lagði á sínum tíma fram eignarhlut í Sogsvirkjun og eimhverfilsstöð borgarinnar við Elliðaár og spennistöð ásamt tilheyrandi lóðum. Þetta var upphafið. Hvernig þær eignir urðu til er lengra aftur í tíma og ástæða til að skoða það. Þegar þróunin í þessu eignarhaldi er skoðuð og hvernig um það hefur verið búið í framhaldinu, sem ég sé ástæðu til að nefndin fari yfir, þá bendir það eindregið til þess að full ástæða sé til að skoða þessi tvö mál í samhengi og hvort ekki sé í raun og veru hægt að færa fram rök fyrir eins konar jafnræðiskröfu um að önnur sveitarfélög ættu að eiga rétt á eignarhlut í því fyrirtæki sem hér er verið að fjalla um, af sömu málefnalegu ástæðum og lágu þar að baki. Ég tek undir það og mun örugglega, ásamt hv. þingmanni, beina því til formanns hv. iðnaðarnefndar þegar þar að kemur að við förum vel yfir þetta mál.