132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[17:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins. Að mörgu leyti koma þar fram svipaðir áhersluþættir og í öðrum einkavæðingarfrumvörpum ríkisstjórnarinnar nú um stundir. Í 2. gr. frumvarpsins segir að ákvæði hlutafélagalaga skuli gilda um hið nýja félag „að svo miklu leyti sem ekki er á annan veg kveðið í lögum þessum.“

Það er svo bæði varðandi hlutafélagalögin og einnig lög sem snúa að réttindum og skyldum starfsmanna viðkomandi stofnana eða fyrirtækja að plokkað er út það sem hentar hverju sinni í stað þess að láta lögin gilda og þá er ég náttúrlega fyrst og fremst að horfa til réttinda starfsmanna.

Í 5. gr. segir: „Hlutafélagið tekur við einkarétti Rafmagnsveitna ríkisins til starfrækslu hita- og/eða dreifiveitna á orkuveitusvæði Rafmagnsveitnanna.“ Þá vaknar sú spurning hvort sá einkaréttur fylgi ekki með þegar fyrirtækið verður selt, því að þrátt fyrir heitstrengingar um að það standi ekki til þá segir sagan okkur að það muni verða gert þegar fram líða stundir og mun ég víkja að því nánar á eftir á hverju ég byggi þær vangaveltur mínar.

Í 7. gr. frumvarpsins segir um réttindi starfsmanna, með leyfi forseta:

„Þegar starfsemi Rafmagnsveitna ríkisins verður lögð niður, sbr. 1. gr., fer um réttindi og skyldur starfsmanna þeirra eftir lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, eftir því sem við á. Félagið skal bjóða störf öllum starfsmönnum Rafmagnsveitna ríkisins.“

Síðan segir að félagið skuli bjóða störf öllum starfsmönnum Rafmagnsveitna ríkisins. Það síðastnefnda er ágætt nema það sem hefur gerst í millitíðinni er að starfsfólkið hefur verið svipt mjög mikilvægum réttindum, þar á meðal lífeyrisréttindum. Þetta gerist á tvennan hátt, í fyrsta lagi það sem lýtur að nýjum starfsmönnum, en ef að líkum lætur verður þeim ekki heimilað að gerast félagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, margir þeirra áttu aðild að þeim sjóði. Þótt slíkt gangi reyndar upp lögum samkvæmt, sem er vegna þess að þeir starfsmenn sem eiga aðild að heildarsamtökum opinberra starfsmanna, og það eiga margir sem starfa í fyrirtækjum sem eru hlutafélagavædd, t.d. starfsmenn í flugstöð Leifs Eiríkssonar og fleiri stofnana, þá eiga þeir samkvæmt lögum og reglugerðum sem gilda um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins heimild, eða hafa heimild til aðildar að sjóðnum. Þannig að það er atvinnurekandinn sem fram til þessa hefur komið í veg fyrir að slíkt gerðist. Það átti sér stað í flugstöð Leifs Eiríkssonar og ég nefni starfsmenn Póstsins, sem ættu allir að geta átt aðild að þessu lífeyriskerfi. En því er hins vegar ekki að heilsa. Það væri fróðlegt að fá að heyra viðhorf hæstv. iðnaðarráðherra til þessa. Stendur til að meina nýráðnum starfsmönnum sem eiga aðild að stéttarfélögum opinberra starfsmanna, BSRB og BHM, aðild að A-deild lífeyrissjóðsins? Það væri fróðlegt að heyra hvaða áform eru uppi um þetta.

Varðandi þá sem eru í B-deild lífeyrissjóðsins og eru þarna starfandi gerist það að þeir munu hafa heimild til áframhaldandi veru í deildinni, í B-deild lífeyrissjóðsins og fá framreikning samkvæmt vísitölu sem er reiknuð og skipulega uppfærð og byggir á föstum launum opinberra starfsmanna. Þetta er reikniregla sem hefur skilað fólki ágætum lífeyrisréttindum. En það er sá hængur á að taki starf viðkomandi einstaklings breytingum frá því að félagið er gert að hlutafélagi og þar til kemur að eftirlaunatöku, þá nýtur starfsmaðurinn ekki þeirra breytinga. Hafi hann t.d. sinnt almennu skrifstofustarfi og verði skrifstofustjóri eða fái stjórnunarstöðu sem gefur meira í aðra hönd, þá nýtur einstaklingurinn ekki ávinningsins af þessu. Þannig að þarna er um að ræða skerðingu á réttindum. Enda er það svo að það er ekkert verið að fela að yrði öllum starfsmönnum, þ.e. öllum þeim sem eru innan réttindakerfis opinberra starfsmanna, sagt upp þá er þeim boðið starf að nýju innan annars réttindakerfis.

Ég velti því fyrir mér hvort það sé þetta sem hæstv. ráðherra á við þegar verið er að tala um að starfsemin verði öll sveigjanlegri og auðveldari viðfangs, verði rekin á markvissari hátt, eins og segir, þegar búið er að hafa réttindi af fólki. Því réttindastaðan er að ýmsu leyti skert hvað aðra þætti varðar líka, t.d. ráðningarfestu. Ef til dæmis stendur til að segja opinberum starfsmanni upp störfum, að hann geti þá borið hönd fyrir höfuð sér, hafi andmælarétt og geti leiðrétt hugsanlegan misskilning ef um slíkt er að ræða eða geti bætt sitt ráð ef um það er að ræða. Þessi réttur er numinn brott. Það voru mikil átök um þetta fyrir nokkru síðan þegar hæstv. þáverandi fjármálaráðherra lagði fram frumvarp hér á þingi þar sem átti að nema brott úr lögum það sem kallað var áminningarskylda. Hún er ekki fyrir hendi hjá félögum, fyrirtækjum, sem starfa á almennum markaði. Að sama skapi yrði fyrirtækið tekið undan upplýsingalögum, ekki aðeins stjórnsýslulögum, heldur líka upplýsingalögum. Þannig að eigandinn, þjóðin, hefði ekki sömu innsýn í starfsemina og áður. Samkvæmt frumvarpinu stendur til að ríkið verði eigandi og að handhafi hlutabréfs ríkisins verði hæstv. iðnaðarráðherra og það er enn eitt sem menn velta fyrir sér, hvað það er sem hæstv. ráðherra sér svona nútímalegt og markvisst við þetta. Fyrirtækið er tekið undan stjórnsýslulögum og sett undir einn hluthafa, hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur, sem þá væntanlega mun sitja á skrafi við sjálfa sig um framtíð fyrirtækisins og brýnar og aðkallandi ákvarðanir. Þetta segir hæstv. iðnaðarráðherra að sé alveg sérlega markvisst og alveg sérlega nútímaleg stjórnun. Sannast sagna á ég afskaplega erfitt með að koma auga á það. Ég hélt að nútíminn kallaði einmitt á allt önnur vinnubrögð, opin vinnubrögð, gagnsæi, og lýðræðislega ákvarðanatöku, ekki síst þegar um er að ræða fyrirtæki, stofnanir og starfsemi sem snýst að öllu leyti um almannaþarfir og almannahag. Auðvitað á þetta að vera opin stjórnsýsla og það á að reka hana á samfélagslegum grunni að öllu leyti.

Hæstv. forseti. Nú er að teikna sig upp í landinu ný skipan í raforkumálum þar sem byggt er á þeirri grunnhugsun að aðskilja beri framleiðslu, dreifingu og smásölu á rafmagni. Til er orðið Landsnet hf. þar sem koma að þrír eignaraðilar, Rarik, með um fjórðung eignarhluta, ef ég veit rétt, Landsvirkjun með ein 70% og síðan Orkubú Vestfjarða. Þessir sömu aðilar mynda síðan einnig smásölukerfi með öðrum eignarhlutum þar sem hlutur Landsvirkjunar, sem er stærstur í Landsnetinu, er tugi prósentustigum minni en Rariks og Orkubús Vestfjarða. Síðan sjá menn væntanlega fyrir sér að Orkuveita Reykjavíkur, þá hugsanlega í samkrulli við einhverja aðra aðila, Hitaveitu Suðurnesja eða aðra, myndi gagnstæða heild. Og þá kemur að hinu mikla galdraverki, allt á að gerast í senn. Allt kerfið verður stórkostlega hagkvæmt og orkuverð á að lækka. Menn eiga að vakna upp við það á morgnana og sofna við það á kvöldin að fletta upp í verðlagsskrám fyrir orku og síðan að stökkva á það sem ódýrast er. Staðreyndin er nú sú, að þar sem þetta hefur verið gert, hefur reyndin ekki orðið þessi. Veruleikinn er allt annar. Frá því farið var að einkavæða og markaðsvæða raforkukerfin í Evrópu hefur það gerst, að 300 þúsund manns hafa misst atvinnu sína. Almennt hefur verð á orku farið hækkandi og öryggið hefur orðið minna. Ég er ekki að segja að það hafi gerst í öllum tilvikum. En þegar á heildina er litið er þetta veruleikinn.

Ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra er ekki þessarar skoðunar. Hún sagði t.d. í Kastljóssþætti 17. febrúar fyrir ári síðan, með leyfi forseta:

„Almennt séð, þá hefur þetta gengið vel, ef við tölum um Evrópu, þessi markaðsvæðing raforkukerfanna. Og það held ég sé nú svona almenn skoðun.“

Svo er ekki. Þetta er ekki almenn skoðun. Það var t.d. ekki skoðun Andris Piebalgs, framkvæmdastjóra Evrópusambandsins á sviði orkumála, sem kom hingað í heimsókn í haust, í nóvembermánuði held ég, og átti m.a. fund með fulltrúum þingflokkanna hér á Alþingi. Hann sagði að það hefði komið mönnum á óvart hve lítil viðskipti með rafmagn hefðu orðið yfir landamæri eftir markaðsvæðingu. Verðlag hefði hækkað en ekki lækkað og meiri fákeppni væri við lýði en æskilegt væri. Hann kvaðst hins vegar vona að þetta stæði allt til bóta en hann er sjálfur mjög eindreginn markaðssinni og greinilega trúaður á hinn frjálsa markað og ágæti þeirra breytinga sem hrundið hafði verið af stað. En það breytir því hins vegar ekki að breytingarnar hafa hingað til ekki gefið góða raun eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur staðhæft. Þetta er bara ekki veruleikinn.

Það er reyndar hægt að finna fjöldann allan af yfirlýsingum hæstv. iðnaðarráðherra sem ganga út á hið sama. Í Morgunblaðinu 6. desember síðastliðnum segir hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir, með leyfi forseta:

„Um alla Evrópu hefur svipuð þróun átt sér stað. Hlutafélagsformið hefur þar verið langalgengasta rekstrarform orkufyrirtækja hin síðari ár enda þykir það henta slíkum rekstri afar vel.“

Þetta er náttúrlega hrakið og það vill svo til að í sama Morgunblaði og hér var vitnað í er í grein um orkumál sem Grétar Júníus Guðmundsson skrifaði og bar yfirskriftina: Kuldahrollur í orkumálum. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Fyrir tveimur vikum hótaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins aðgerðum gegn þeim fyrirtækjum sem selja gas og rafmagn í sumum löndum Evrópu. Segir í frétt BBC að verulega skorti á samkeppni milli fyrirtækja á þessum mörkuðum. ESB lét framkvæma rannsókn á þessu máli vegna ábendinga frá bresku stjórninni, sem leist ekki orðið á blikuna hvað hækkanirnar hafa verið miklar.“

Hæstv. ráðherra brást við ábendingunni á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Ljóst er að hörð samkeppni er fram undan á raforkumarkaði. Með opnun raforkumarkaðar um næstu áramót er stigið enn eitt skrefið fram á við í þeim efnum en þá geta landsmenn keypt rafmagn af þeim sem þeir kjósa helst, hvar á landinu sem viðkomandi orkusali er. Eykst þá samkeppni orkufyrirtækja til muna og til að standast hana verða fyrirtækin að verða í stakk búin til að bregðast fljótt við aðstæðum sem upp kunna að koma hverju sinni. Ljóst er að miðað við núverandi rekstrarform verður slíkt erfitt fyrir Rafmagnsveitur ríkisins.“

Þar er komið að eintali hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur við sjálfa sig. Því hún sem eigandi og hluthafi þarf að komast að mjög skjótum niðurstöðum við erfiðar og krefjandi aðstæður. Sannast sagna hélt ég að hlutafélagaformið hefði fyrst og fremst tvo kosti í för með sér. Það er auðveldara að kaupa og selja hluti. Það er auðveldara að losa sig við hluta af fyrirtækinu, það er auðveldara að fá aðra eignaraðila til liðs við fyrirtækið og þar liggi kostirnir, í tilfærslu á eign. Það er megintilgangurinn með að stofna hlutafélag, ekki hlutsfélag, heldur hlutafélag margra hluta sem ganga þá kaupum og sölum. Þetta hefur vissa kosti í för með sér, t.d. í fyrirtækjum sem eru í atvinnurekstri hér almennt í stað þess að þurfa að selja allan pakkann eins og áður var. Þá er hægt að selja þau að hluta til og vissulega hefur þetta mikla kosti í för með sér. Ef menn ætla að setja fyrirtækið á markað að sjálfsögðu. Til þess er leikurinn gerður.

Nú nikka sjálfstæðismenn kolli. Auðvitað eru þeir alveg með á nótunum. Það er bara Framsóknarflokkurinn sem er alveg …, ég ætlaði að segja grænn í þessu máli en það verður nú varla sagt um þann flokk að hann sé mjög grænn á litinn þó að hann skarti því í merkjum sínum og fánum. Þetta er annar kosturinn við hlutafélagaformið. Að það er auðvelt að skipta um eigendur. Hinn kosturinn við hlutafélagaformið er aðhald frá hluthöfum. Í stað þess að stofnanir eða starfsemi sem er á vegum hins opinbera fái aðhald frá lýðræðislega kjörnum fulltrúum inni í stjórnum, m.a. hér frá Alþingi, bæjarstjórnum o.s.frv., í stað þess að aðhaldið komi þaðan frá og síðan úr opinni umræðu og gagnsæju kerfi fjölmiðla þá er í hlutafélagaforminu stuðst við hluthafafundi. Þá koma hluthafar að og veita þetta nauðsynlega aðhald. En það á ekki einu sinni að nýta þá kosti í þessu. Því það sem við höfum heyrt er að einungis hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir muni hafa bréfið á hendi og hún verði ein um að veita þetta aðhald. Finnst mönnum þetta vera mjög vitlegt? Mér finnst þetta vera hið fullkomna rugl. Og sannast sagna finnst mér það óskaplega dapurlegt hlutskipti fyrir vesalings Framsóknarflokkinn, eina ferðina enn, flokkinn sem talaði um samvinnuhugsjónina, að taka höndum saman, að vinna í sameiningu. Framsóknarflokkurinn er orðinn helsti baráttuflokkur fyrir markaðsvæðingu í landinu og allur hans málflutningur gengur út á að mæra kosti samkeppninnar í stað samvinnunnar.

En hæstv. forseti. Tími minn er þrotinn. Ég á eftir að ræða þetta mál mikið og ítarlega áður en yfir lýkur.