132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:44]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra segir að almennir neytendur hafi á árum áður og til skamms tíma greitt niður raforkuna fyrir íslensk iðnfyrirtæki. Nú verði því íslensk iðnfyrirtæki að átta sig á því að af því raforkufyrirtækin eru búin að taka til hjá sér þurfi þeir að greiða 50% hærra verð fyrir raforkuna en þeir gerðu til skamms tíma. Ég treysti því að íslensk iðnfyrirtæki séu að hlusta á hæstv. ráðherra.

Varðandi það hvort við hefðum þurft að innleiða tilskipunina frá Evrópusambandinu eða ekki segir hæstv. ráðherra að það hafi verið óhjákvæmilegt. Ég mótmæli því, því það kom fram í öllum umræðum um málið á Alþingi frá árinu 1996 að Íslendingar gátu að sjálfsögðu sótt um undanþágu frá innleiðingu tilskipunarinnar á þeim grundvelli og þeirri forsendu að við værum allsendis ótengd raforkumarkaði EES. (Forseti hringir.) Það var aldrei látið á það reyna því það var ekki vilji fyrir því hjá stjórnvöldum.