132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:47]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafna því algerlega að ég hafi farið með rangt mál þegar ég vitnaði til skoðanaskipta hv. varaþingmanns Vinstri grænna, Álfheiðar Ingadóttur, og hæstv. ráðherra. Hún spurði hæstv. ráðherra 26. nóvember 2004 eftirfarandi spurningar: „Telur hún að þessar aðgerðir muni leiða til hækkunar eða lækkunar á raforkuverði til neytenda í landinu, og þá kannski sérstaklega til heimilanna?“

Þá svarar hæstv. ráðherra í beinu framhaldi og talar um „að það sé teljandi í einhverjum hundraðköllum á ári.“ Við skulum ekki ræða það meira.

Förum yfir í aðra hluti. Ég ætla ekki að velta ráðherra meira upp úr þessu. (Iðnrh.: Af hverju les ekki hv. þingmaður beint upp áfram?) Ég ætla að spyrja hæstv. ráðherra um að nú var sagt að eina hækkunin í kerfinu yrði 140 millj. kr. Það væru 100 millj. kr. til landsnetsins og 40 millj. kr. í eftirlit.

Mér leikur forvitni á að vita hvort þetta hafi gengið eftir eða hvort hækkunin hafi orðið meiri. Í raforkuskýrslunni sem liggur á borðinu hjá mér kemur það ekki fram. Ég hefði talið að ef við ætluðum að fara yfir hvernig til hefði tekist hjá hæstv. ráðherra, þá ætti hún einmitt að skoða hver hækkunin hafi orðið í kerfinu sem verið var að breyta.