132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[18:53]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hefði þurft um 2.000–3.000 mínútur til að fara nánar í þessa umræðu en það mun gefast tækifæri til þess við síðari umræðu. Varðandi EES-undanþáguna er það umdeilt atriði, þetta er misjafnt mat manna. Þeir eru að ég hygg fleiri sem telja að það hefði í alvöru átt að láta á þetta reyna. Hæstv. ráðherra telur svo ekki vera. Varðandi yfirlýsinguna um raforkuverðið á Kárahnjúkavirkjun verður heldur betur komið inn á það síðar og rifjuð upp þau ummæli sem gefin voru.

Eitt vil ég spyrja hæstv. ráðherra um og það lýtur að réttindum starfsfólks. Fær nýtt starfsfólk aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins? Það er heimilt samkvæmt lögum og reglugerðum sjóðsins en verður þetta heimilað? Ég óska eftir svörum við því.

Að lokum þetta sem stendur upp úr í umræðunni og yfirlýsingum hæstv. ráðherra, þ.e. sú sýn sem hæstv. ráðherra hefur á (Forseti hringir.) þennan geira. Hún byggist (Forseti hringir.) á samkeppni en ekki á samvinnu sem var aðalsmerki Framsóknarflokksins á sínum tíma. En það er (Forseti hringir.) langt síðan.