132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:23]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ágætt að hæstv. iðnaðarráðherra sé viðstaddur þessa umræðu en hún lét ýmis ummæli falla fyrr í dag sem hljóta að teljast harla undarleg. Hún vildi láta í veðri vaka að afstaða okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði væri eins konar arfur frá fortíðinni, frá kommúnistatímanum hér fyrr á tíð og sagði reyndar að fyrrum kommúnistaríki Austur-Evrópu gengju núna langt í einkavæðingarátt, jafnvel Albanía. Allir væru að einkavæða, allir væru að markaðsvæða nema þá helst Vinstri hreyfingin – grænt framboð á Íslandi.

Hæstv. iðnaðarráðherra hlær við þessu, þetta er allt óskaplega mikið grín þegar við erum að taka almannaþjónustuna og mikilvæga starfsemi sem hér hefur verið byggð upp í tímans rás og setja hana á markað, þá er það bara eins og hvert annað grín og þeir sem andæfa því eru með einhverja arfleifð frá fortíðinni í farteskinu. Skyldi hæstv. iðnaðarráðherra ekki vera ljóst að verkalýðshreyfingin í Evrópu leggst almennt gegn þessari markaðsvæðingu? Hún leggst gegn markaðsvæðingu, hlutafélagavæðingu og að sjálfsögðu einnig sölu á þessum fyrirtækjum. Í ræðu minni fyrr í dag vísaði ég til mótmæla nú í haust, fjölmennra mótmæla sem fram fóru víðs vegar í Evrópu undir kjörorðinu „Látum ljósin loga“. Þar var bent á að frá því að markaðsvæðingin hófst hefðu 300 þúsund starfsmenn í þessum geira misst atvinnu sína. Almennt hefði verðlag farið hækkandi og sérstaklega hjá almennum notendum, það væru helst stórfyrirtækin sem hefðu hagnast, og verðlagið hefði orðið sveiflukenndara. Öryggi vegna afhendingar á rafmagninu varð minna, það dró úr því. Af þessum sökum hafa almannasamtök í Evrópu með verkalýðshreyfinguna í fararbroddi andmælt þessu.

Nú ræðum við það hvort til standi að selja Rarik hf. Við höfum fengið yfirlýsingar frá talsmanni Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, hv. þm. Kjartani Ólafssyni, þar sem hann segir að það eigi alls ekki að útiloka að Rarik hf. verði selt og svo vitnað sé í ummæli hv. þingmanns, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins við þessa umræðu, þá voru þau á þá lund að allt væri til sölu sem hægt væri að fá gott verð fyrir. Ef verðið væri rétt þá væri það til sölu. Við erum að tala hér um afstöðu talsmanna Sjálfstæðisflokksins til þessa frumvarps en síðan höfum við á móti fullyrðingar hæstv. ráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, og heitstrengingar um að ekki standi til að selja Rarik hf., eða hvað? Hverju á eiginlega að trúa þegar yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra um sölu á raforkufyrirtækjum eru annars vegar?

Það er ekki ýkja langt síðan þessi umræða blossaði hér upp í þingsal, það var um miðjan nóvembermánuð, þá ekki í tengslum við Rarik sérstaklega heldur Landsvirkjun, en umræðan snerist almennt um einkavæðingu og sölu á raforkugeiranum. Ég ætla að rifja þessa umræðu aðeins upp.

16. nóvember sagði hv. þm. Jón Bjarnason hér í þinginu orðrétt, með leyfi forseta:

„Nú hefur það komið fram m.a. hjá hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og líka núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins að til stendur að einkavæða og selja orkufyrirtækin og þar með Landsvirkjun. Nauðsynlegur liður í því er að ríkið komist yfir hlut sveitarfélaganna í Landsvirkjun til að hægt sé síðan að hefja einkavæðingar- og söluferlið. Þessu leggjumst við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs alfarið á móti. Við erum á móti því að þessi sameiginlegu orkufyrirtæki landsmanna verði einkavædd og seld.“

Nú bregður svo við að hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir bregst hin versta við og segist vilja koma því á framfæri — og nú vitna ég í ummæli hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„… að það stendur ekki til að einkavæða orkufyrirtækin í landinu. Það eru hreinar línur með það. Og hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert einhverja samþykkt á sínum landsfundi, það getur vel verið en það kemur þessu máli ekki við að því leyti til að það þarf tvo til og af hálfu Framsóknarflokksins eru ekki áform uppi um að selja orkufyrirtækin. Svo einfalt er það mál.“ (Gripið fram í.)

Þetta var tilvitnun í hæstv. iðnaðarráðherra Valgerði Sverrisdóttur sem kallar hér fram í: Var þetta ekki gott hjá mér? Ja, skyldi þetta vera alveg svona einfalt mál eins og hæstv. ráðherra segir þarna? Því að sama Valgerður Sverrisdóttir hæstv. iðnaðarráðherra tjáði sig nefnilega í Kastljóssþætti sjónvarpsins hinn 17. febrúar fyrir ári síðan um nákvæmlega sama mál en komst að allt annarri niðurstöðu. Eða finnst þeim sem á hlýða eftirfarandi ekki nokkuð skýrt og nú ætla ég að vitna hér í útskrift af samræðunum eins og þær fóru fram í Kastljóssþætti sjónvarpsins 17. febrúar á síðasta ári, með leyfi forseta:

„Fréttamaður: En þessi viljayfirlýsing sem var undirrituð í dag, er þetta eins og talað er um fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu Landsvirkjunar?

Valgerður Sverrisdóttir:

Já, það eru uppi áform um það að síðan breyta þessu fyrirtæki sem verður til í hlutafélag, hugsanlega árið 2008. Þá erum við komin í gegnum Kárahnjúkauppbygginguna og eftir að fyrirtækið er orðið hlutafélag þá er ekki ólíklegt og reyndar áform uppi um það að aðrir aðilar geti komið að fyrirtækinu. Þetta er náttúrlega gríðarlega verðmætt fyrirtæki. Vonandi verður það ekki síður verðmætt á þessum tíma og það er engin sérstök ástæða til þess að ríkið haldi eitt utan um það.

Fréttamaður: Sérðu fyrir þér hverjum verði boðið að kaupa hlut í þessu hlutafélagi sem þá verður stofnað um Landsvirkjun? Getur almenningur keypt eða verður þetta boðið út einhvern veginn öðruvísi?

Valgerður: Við erum náttúrlega bara ekki komin svo langt. Þetta er svo langt frammi í framtíðinni en almennt hefur það verið þannig þegar ríkið hefur verið að selja eignir sínar að þá hefur það verið gert allt mjög faglega, vil ég halda fram. Og það hefur svo sem gengið ágætlega það sem við höfum einkavætt fram að þessu.“

Er þetta ekki alveg skýrt? Var þetta ekki gott hjá mér? Er ekki rétt að endurtaka það, hæstv. ráðherra?

Hér eru ummæli og yfirlýsingar sem stangast algerlega á. Annars vegar segir hæstv. ráðherra hér í þinginu 16. nóvember sl. að hún hafi aldrei um það talað að til stæði að selja hluti í Landsvirkjun. 17. febrúar hafði hún hins vegar haldið gagnstæðu sjónarmiði fram. Hvað er rétt í þessum málum og hverju eigum við að trúa?

Nú stöndum við frammi fyrir því að afgreiða frumvarp þar sem segir í greinargerð og þar sem hæstv. ráðherra fullyrðir í framsöguræðu sinni að ekki standi til að selja hlutina í Rarik hf. Við erum með í farteskinu fyrri yfirlýsingar um áform um einkavæðingu og sölu á raforkugeiranum og það sem gerst hefur núna við umræðuna er að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Kjartan Ólafsson, stendur hér í pontu fyrir stundu og lýsir því blákalt yfir að það eigi við um þetta fyrirtæki eins og aðrar eignir að ef fæst gott verð þá er allt til sölu. (Gripið fram í: Það þarf tvo til.) Það þarf tvo til en er það staðfestan í þessum hæstv. ráðherra sem segir eitt í dag og annað á morgun? Hvað er uppi í þessu máli núna, hverju eigum við að trúa?

Það sem ég segi er þetta: Ef stofnunin eða þessi starfsemi er sett í hlutafélagaform þá er greið leið fram undan að einkavæða og selja þetta fyrirtæki. Hvað er rétt, hvað meinar hæstv. ráðherra í dag? Hver eru skilaboðin til okkar núna?