132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[19:40]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Herra forseti. Menn velta hér vöngum yfir því hvort eða hvenær við stöndum frammi fyrir því að Rafmagnsveitur ríkisins hf. verði seldar. Ég verð að segja að í mínum huga er þetta mál alveg skýrt. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur bent á hefur hæstv. ráðherra orðið tvísaga í málinu. Mér finnst greinin sem birtist í Morgunblaðinu fimmtudaginn 1. desember og ég hef vitnað til lýsa algerlega því hvernig hæstv. ráðherra er innanbrjósts hvað þetta varðar. Þar kemur skýrt fram af hálfu ráðherrans að ekki standi til af hálfu núverandi ríkisstjórnar — ég undirstrika það — það stendur ekki til af hálfu núverandi ríkisstjórnar að selja Rafmagnsveitur ríkisins. Hins vegar segir hún örlítið aftar í greininni, með leyfi forseta:

„Ef ríkisstjórnir framtíðarinnar hafa einkavæðingu Rariks að stefnumiði sínu geta þær með einföldu meirihlutasamþykki Alþingis framfylgt því, hvort sem Rarik verður þá áfram ríkisfyrirtæki eða hlutafélag í eigu ríkisins.“

Hæstv. ráðherra bendir hér á þennan möguleika að það þurfi aðeins einfalt meirihlutasamþykki Alþingis til að ákveða annað en sú ríkisstjórn sem nú situr og á kannski eftir að sitja rúmt ár í viðbót, ef guð lofar, að núverandi ríkisstjórn ætli sér að sitja á strák sínum hvað þetta varðar. Hins vegar veit hæstv. ráðherra, sem líka er viðskiptaráðherra hér á landi, ofurvel að fjármálafyrirtækin hafa gefið um það yfirlýsingar að næsti fjárfestingamarkaður þeirra sé orkumarkaðurinn. Þess vegna er þetta í mínum huga algerlega ljóst. Spurningin er ekki hvort heldur hvenær Rafmagnsveitur ríkisins verða seldar. Eins og ráðherrann bendir á er hægt að selja þær í dag ef vilji er fyrir því. Það verður líka hægt að selja þær þegar þær eru orðnar háeff. Þetta er bara spurning um hvenær, ekki hvort. (Gripið fram í.) „Að sjálfsögðu,“ segir hv. þingmaður Kjartan Ólafsson, talsmaður Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu. Það er búið að undirstrika þetta hér afar rækilega. Ég verð að segja að mér þykja viðbrögð annarra þingmanna við þeim yfirlýsingum sem hér hafa fallið fremur dauf. Ég hefði haldið að allur þingheimur eða að minnsta kosti hálfur, ætti að rísa hér upp á afturfæturna þegar við heyrum hér yfirlýsingar af þessu tagi frá þingmanni Sjálfstæðisflokksins í umræðunni og í blaðagrein hæstv. ráðherra um málið.

Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs í seinni ræðu var hins vegar sú að ég þarf að leiðrétta rangfærslu hæstv. ráðherra. Ráðherrann sagði í seinni ræðu sinni þegar hún fór yfir ágæti stóriðjunnar að eigin mati, að samkvæmt skoðanakönnun Samtaka atvinnulífsins sem kynnt var á mikilli hallelújasamkomu fyrir helgina hefði komið fram að um 50% þjóðarinnar væru hlynnt frekari uppbyggingu áliðnaðar. Til þessa vitnaði hæstv. ráðherra í ræðu sinni og sagði jafnframt að einungis 10% hefðu verið andvíg. Þetta verður að leiðrétta hér því þetta er rangt. Samkvæmt könnuninni kemur í ljós að tæp 40% þjóðarinnar eru andvíg frekari uppbyggingu stóriðju á Íslandi, tæp 40%. Það verður að standa sem sannara reynist. (JBjarn: Hún sagði að þetta væru einhverjir kjósendur Vinstri grænna.) Þetta er rétt ábending hjá hv. þingmanni Jóni Bjarnasyni. Hæstv. ráðherra tók það fram í ræðu sinni að þessi 10% sem hún taldi vera á móti frekari uppbyggingu áliðnaðar á Íslandi væru einungis fylgismenn Vinstri grænna. En þeir eru sem sagt þá tæplega 40% fylgismenn Vinstri grænna.

Það kemur líka fram í könnun Samtaka atvinnulífsins að 34% þjóðarinnar séu andvíg frekari uppbyggingu áliðnaðar sem byggist á vatnsafli. 34% eru andvíg. Það kemur líka fram að 36% aðspurðra í þessari könnun telja að losun gróðurhúsalofttegunda sé vandamál hér á landi. Þetta eru tæplega 40%. Það kemur líka fram að 26% þjóðarinnar séu neikvæð í garð frekari uppbyggingar áliðnaðar sem byggist á gufuorku eða jarðvarma. Stór hluti aðspurðra í þessari könnun aðhyllist því ekki stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og andmælir henni sama hvort verið er að hugsa um virkjanir í vatnsafli eða jarðgufu. En af því lýðræði hæstv. ráðherra byggir á því að meiri hlutinn ráði þá hefur hæstv. ráðherra náttúrlega ekki skoðað þessar tölur í könnuninni. Meiri hlutinn ræður. Það er hugsjón hæstv. ráðherra. Við getum fengið að tala hér í ræðustóli Alþingis og sprikla og ólátast eins og okkur sýnist. En það þarf ekkert að taka neitt tillit til þess sem við segjum. Það þarf ekkert að breyta kúrsinum þó við sem hér höfum verið að tala, hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar græns — framboðs virðumst vera tala fyrir hátt í 40% þjóðarinnar ef marka má skoðanakönnun Samtaka atvinnulífsins. Ég held að hæstv. ráðherra verði að átta sig á því að stór hluti þjóðarinnar deilir þeim sjónarmiðum sem við hér höfum verið að halda fram.

Ég rifja það líka upp að á sínum tíma, snemma árs árið 2003, var það kannað hvort fólk væri því hlynnt að vísa mikilvægum málum sem varða þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi spurning var send á vegum Gallups til þjóðarinnar og tengdist annarri spurningu um það hvort fólk hefði viljað þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Það er gott að rifja það upp í þessari umræðu hér að í þessari könnun lýstu 80% svarenda sig fylgjandi því að vísa mikilvægustu málum þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu og á þeim tíma töldu 64% svarenda að þeir væru hlynntir þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun. Hæstv. ráðherra verður því að athuga það og átta sig á því að hún er kannski ekki alltaf að tala fyrir stærsta hluta þjóðarinnar eins og ráða má af ræðum hennar. Hún talar hér fyrir afar umdeildum framkvæmdum og afar umdeildum formbreytingum á rekstri almannaþjónustufyrirtækja eins og Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég held að það sé rétt að hæstv. ráðherra hafi þetta vel í huga og sömuleiðis það að ekki sé vænlegt til frekari frama í pólitík að láta alltaf eins og meiri hlutinn ráði sama hvað það kostar, að minni hlutinn megi hafa málfrelsi en alls engan rétt á því að hafa áhrif á afgreiðslu mála.