132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[20:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera að ég hafi ekki talað nógu skýrt. Ég skil þetta sem ósk hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um að ég tali skýrar.

Ég tala um þetta í tvennu lagi. Annars vegar minntist ég á, óháð hlutafélagavæðingunni, þær óskir sem hafa komið fram frá aðilum eins og Skagafjarðarveitum, um að fá að leysa til sín aftur Rafveitu Sauðárkróks. Þær óskir hafa komið fram og einnig um viðræður um að fá hlut Rafmagnsveitna ríkisins í eignum í Skagafirði. Ég tel að þetta geti verið sjálfstætt mál.

Hitt var svo mál sem ég ræddi um, í tengslum við hlutafélagavæðinguna sjálfa. Þegar fyrirtækið hefur verið búið undir samkeppnisrekstur, sett á markað og selt, er eðlilegt að sveitarfélögin í heild sinni geri kröfu og komi inn í umræðu um ferlið sem þar er sett í gang.

Þannig að þetta mál er tvíþætt. Það lýtur annars vegar að einstökum þáttum eins og Rafveitu Sauðárkróks á sínum tíma. Ég tel að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að Skagfirðingar geti leyst til sín eignina. Aðgreinda eign sem er nýkeypt.

Hins vegar er það hið almenna, að verði af hlutafélagavæðingunni, gangi hún fram með þeim hætti sem hér er að stefnt, eigi sveitarfélögin í heild sinni að ræða um stöðu eignarinnar, áður en hún verður sett inn í hlutafélag.