132. löggjafarþing — 54. fundur,  30. jan. 2006.

Stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins.

392. mál
[20:08]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég get vel tekið undir sjónarmið hv. þm. Jóhanns Ársælssonar um að miðað við stefnu hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar, að því markmiði að steypa allri þessari þjónustu í eitt eða tvö stórfyrirtæki, mun ekki verða nein samkeppni. Sú stefna leiðir til fákeppni og reyndar einokunar. Ég styð þá skoðun hv. þingmanns eindregið að liður í að koma á eðlilegu þjónustuumhverfi væri að leyfa sveitarfélögunum, heimaaðilum, að leysa til sín hluta Rariks á viðkomandi stöðum, finnist þeim það hentugast og best.

Hvers vegna ekki? Þessar eignir og þessi þjónusta hefur orðið til vegna íbúanna á viðkomandi svæðum. Ef íbúarnir telja sér hana fyrir bestu, hvers vegna ætti þá ekki að hlusta á það? Ég tek afdráttarlaust undir það. Ég legg einmitt líka áherslu á að þá yrðu þetta almannaþjónustufyrirtæki. Það er styrkur sveitarfélaga sem eiga veitur að geta nýtt þær í uppbyggingu atvinnulífs og uppbyggingu í þjónustu. Við sjáum alveg hver er munurinn á þeim sveitarfélögum sem eiga slíkar veitur og þeim sem ekki eiga þær. (Gripið fram í.) Aðalatriðið er að fyrirtækin séu í eigu og þjónustu fólksins sem býr þar. Ég held að við eigum að horfa til þess en ekki hinnar taumlausu einkavæðingaráráttu sem hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins gengur fram í og er að verða hæstv. ráðherra hreinasta trú (Forseti hringir.) og reyndar ofsatrú, herra forseti.