132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:55]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson segir að með samkomulagi sínu við ríkisstjórnina hafi Samfylkingin viljað opna leið á það að menn gæfu sér tíma til að endurskoða þá lagabálka sem ég vék að hér áður og þá sérstaklega lögin um rannsóknarnýtingu á jarðrænum auðlindum. Vandinn er sá að það er verið að opna aðra leið líka, að auðvelda hæstv. iðnaðarráðherra að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins um frekari virkjanir í þágu stóriðju. Ég vil spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson: Hvers vegna telur hann að hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur liggi svo lífið á sem raun ber vitni að fá þetta frumvarp samþykkt? Hvers vegna telur hv. þingmaður að lífið liggi á að fá þetta litla en mikilvæga frumvarp samþykkt? Ég tel að það sé vegna þess að þar með er liðkað fyrir frekari virkjunum í þágu stóriðju og nú bíða þau í röðum fyrirtækin sem vilja komast í jökulárnar í Skagafirði og Skjálfandafljót og fleiri ár, virkja meira og meira í þeim anda sem verið er að boða okkur. Við stöndum nefnilega frammi fyrir veruleika sem er mjög ágengur.