132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:59]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við fengum ekki fullnægjandi svör um það hvers vegna Samfylkingin tekur á málinu áður en inn í lögin voru negldir allir þeir varnaglar sem um var talað við 1. og 2. umr. málsins og þá er ég að vísa m.a. í þá nefnd sem hæstv. iðnaðarráðherra á að styðjast við þegar rannsóknarleyfi eru veitt.

Ég hafði það löngum á tilfinningunni, þegar Kárahnjúkavirkjun var á teikniborðinu, að ríkisstjórnin og þá sérstaklega iðnaðarráðherra væru staðráðin í að keyra málið áfram hvað sem tautaði og raulaði. Þess vegna er þetta spurning um að reyna að spyrna við fótum, þetta er spurning um að stöðva, þetta er spurning um að reyna að stöðva málið. Og ríkisstjórnin hefur reynst mjög ósvífin í framkvæmd þessarar stóriðjustefnu. Nú er talað um að við séum að mála skrattann á vegginn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það voru margir sem sögðu það líka þegar við stóðum ein vaktina gegn Kárahnjúkum, þegar við stóðum ein vaktina um Þjórsárverin. Það var sagt að við værum að mála skrattann á vegginn. En við erum þó sá flokkur sem hefur haldið þessum umhverfisfána á lofti gegn stóriðjunni, gegn álstefnu ríkisstjórnarinnar. Og nú hef ég trú á því að árangurinn af þessari baráttu, ekki bara okkar hér á þingi heldur náttúruverndarsamtaka og fólks í Skagafirði í grennd við náttúruperlurnar í Þingeyjarsýslum, í Gnúpverja- og Skeiðahreppi sé farinn að skila sér. Ég held að það séu að verða vatnaskil í viðhorfum þjóðarinnar. Undiraldan er orðin önnur og sterkari. Ég skal ekki segja til um hlutföllin en það er að skapast annað andrúmsloft í þjóðfélaginu gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Þeim fjölgar mjög sem segja að nú sé nóg komið.