132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:26]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er komið til síðustu umræðu frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Við hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum iðin við kolann eins og hæstv. forseti sér og veit. Við höfum farið ítarlega yfir ýmsa þá annmarka sem eru á frumvarpinu og ber þar allt að sama brunni. Frumvarpið er í sjálfu sér bastarður því hér er einungis um að ræða lítið brot af öðru frumvarpi, miklu stærra og viðameira sem hæstv. iðnaðarráðherra var gerð burtræk með héðan úr þingsölum á síðasta ári og þá leit dagsins ljós þessi bastarður. Þetta er farið að minna mig svolítið á líkinguna sem fólk segir gjarnan við mann núna tengt Þjórsárverum: Þegar við höldum að við séum búin að bjarga Þjórsárverum þá er þetta bara eins og skrímsli sem hefur verið hoggið en lifnar einhvers staðar annars staðar því að fólk niðri í sveit í Gnúpverjahreppi upplifir nú með skelfingu væntanlegt lón tengt Núpsvirkjun og það er akkúrat það sem kemur í minn hug að þegar ég skoða þessi frumvörp hæstv. iðnaðarráðherra. Þetta eru eins og skrímsli og þótt maður höggvi eitt og hafi á tilfinningunni að búið sé að ýta því út af borðinu þá dúkkar bara upp annað skrímsli, að vísu svolítið minna en alveg jafnhættulegt. Það er akkúrat það sem þetta frumvarp er. Það er stórhættulegt. (Iðnrh.: Vinstri grænir styðja útflutning.) Ég ætla ekki að fara í samtal við hæstv. iðnaðarráðherra meðan ég stend í ræðustóli en hæstv. iðnaðarráðherra er velkomin í andsvör við ræðu mína og ég mun svara hæstv. ráðherra í andsvörum þeim athugasemdum sem hún hefur fram að færa.

Mál þetta snýst um grundvallaratriði. Þessu máli er ætlað að auðvelda uppbyggingu stóriðju og orkufreks iðnaðar og það ekki í neinum smáskömmtum heldur á að taka risaskref í þeim efnum. Þau skref stækka eftir því sem vikurnar líða og skammtarnir sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að samþykkja að verði blásið út í loftið af eitruðum lofttegundum stækka að sama skapi.

Fyrir örfáum mánuðum var alveg ljóst að hæstv. iðnaðarráðherra var þeirrar skoðunar að íslensku ákvæðin sem kreist voru undan blóðugum nöglunum á samningamönnunum í Kyoto á sínum tíma og var reyndar lengi til umfjöllunar á þeim vettvangi og á endanum minnir mig að það hafi verið í Marrakesh sem endanlega var settur stimpill á að þetta íslenska ákvæða kæmist í gegn sem bókun við Kyoto-samninginn — það eru bara örfáir mánuðir síðan hæstv. iðnaðarráðherra gaf til kynna í svari á þingskjali til mín í Alþingi að undanþáguákvæðið fæli einungis í sér, sem er náttúrlega gríðarlegt magn, 1 milljón og 600 þúsund tonn af losun gróðurhúsalofttegunda. Núna er hæstv. iðnaðarráðherra búin að hafa reiknimeistara sína á hnjánum í ráðuneytinu og þeir hafa reiknað út fram til þessa að það væri allt í lagi að fara yfir 2 milljónir tonna í losun samkvæmt íslenska undanþáguákvæðinu vegna þess að þetta sé allt hugsað í meðaltölum. Skrefin stækka því frá degi til dags, frá viku til viku, frá mánuði til mánaðar. Ég hugsa það stundum að þau séu jafnvel orðin stærri en villtustu áldraumar hæstv. iðnaðarráðherra nokkru sinni gátu fært henni fyrir ári síðan.

Ég held því fram með fullum rökum að hlutirnir séu farnir úr böndunum. Hér ríkir gríðarlegt kapphlaup orkufyrirtækja um auðlindir þjóðarinnar, orkuauðlindirnar okkar sem mér finnst að menn tali alltaf um að séu ótakmarkaðar en það eru þær ekki. Við eigum sárafáa valkosti eftir í vatnsaflinu og þetta frumvarp hér er nú fyrst og fremst til þess ætlað að hæstv. iðnaðarráðherra geti gefið út rannsóknarleyfi á vatnsafli á sama hátt og hún hefur heimildir til að gefa út rannsóknarleyfi í jarðvarmanum. En sannleikurinn er sem sagt þessi og það sýnir rammaáætlunarvinnan okkur og bara heilbrigð skynsemi þegar litið er yfir þá virkjunarkosti sem eru til staðar ónýttir í landinu að þeir eru ekki ótakmarkaðir, sannarlega ekki. Og ég veit ekki, kannski er bara komið að því að hæstv. ríkisstjórn ætli sér að leggja það til að Gullfoss verði virkjaður, Hvítá verði virkjuð við Gullfoss. (Gripið fram í: Nei.) Ja, mér sýnist eins og það eigi engu að þyrma, það á engu að hlífa.

Ævinlega hvín í hæstv. iðnaðarráðherra þegar Vinstri grænir herða málflutning sinn í þessu andófi gegn álstefnu ríkisstjórnarinnar og hún hefur upp raust sína og segir að við séum alltaf á móti öllu, við séum á móti virkjunum og við séum á móti rannsóknum. Við höfum oft þurft að bera það til baka í þessum ræðustóli og ég er alveg til í að gera það einu sinni enn að þetta með rannsóknirnar, því nú hefur Samfylkingin líka bæst í þennan hóp stuðningsmanna frumvarps ríkisstjórnarinnar eða iðnaðarráðherra í þessum efnum af því að það þurfi svo mikið að rannsaka þetta allt saman. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sér rangt að það þurfi eða liggi svo mikið á að rannsaka fallvötnin okkar á þeim nótum sem hér um ræðir, þ.e. sem virkjunarkosti fyrir stóriðju. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tölum fyrir því að öflugar rannsóknir séu stundaðar á Íslandi, náttúrurannsóknir þar með taldar. Grunnrannsóknir eru af skornum skammti í landinu, gera þarf verulegt átak í grunnrannsóknum en þær rannsóknir eiga ekkert endilega að vera í þágu stóriðju eða reyndar alls ekki í þágu stóriðju. Þær grunnrannsóknir sem við viljum að séu stundaðar eiga að vera unnar í þágu náttúruverndar og þeirra atvinnuvega sem byggja á verndun náttúrunnar, t.d. í þágu ferðaþjónustunnar eða í þágu hvers konar vísindastarfsemi. Við getum nefnt atvinnutengda uppbyggingu í sambandi við vísindastarfsemi, rannsóknir á náttúru- og veðurfari, rannsóknir á jarðveginum okkar, þessum ótrúlega eldfjallajarðvegi sem er að koma upp úr kafinu að er auðlind í sjálfu sér þegar skoðaðar eru nýlegar rannsóknir sem sagt var frá í tímaritinu Geology fyrsta tölublaði þessa árs sem ég mun víkja að síðar í ræðu minni.

Við sjáum líka fyrir okkur að hægt væri að nýta slíkar rannsóknir sem færu fram í þágu ýmissa umhverfisvænna atvinnuvega sem eru atvinnuskapandi og virkja hugvitið án þess að skerða svo mikið sem eitt strá í dýrmætri náttúru Íslands. Það er auðvitað þarna sem okkur greinir á við hæstv. ríkisstjórn og hæstv. iðnaðarráðherra. Atvinnuuppbyggingin sem við sjáum fyrir okkur er á allt öðrum nótum og atvinnuvegirnir, fjölþættir atvinnuvegir okkar, þurfa allir á því að halda að við hlúum að þeim og sinnum þeim en ekki að þessi hræðilegi yfirballans stóriðjunnar sé ævinlega í forgangi. Ruðningsáhrifin sem hefur verið fjallað hér um ítarlega úr þessum ræðustóli tala sínu máli í þeim efnum.

Það er mat okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að náttúruverndin og rannsóknir í þágu náttúruverndar hafi allt of lengi orðið að lúta í lægra haldi fyrir álbrjálæðinu, fyrir stóriðjustefnunni og þeim rannsóknum sem stóriðjustefnan kallar á. Forstjóri Landsvirkjunar stærir sig iðulega af því að Landsvirkjun hafi lagt svo mikið til rannsókna á Íslandi. Það er auðvitað alveg rétt, það hefur Landsvirkjun gert og það hefur hún gert á öflugan hátt. En ef við hefðum ákveðið að setja upp annars konar rannsóknarstofnun en Landsvirkjun þá hefðu vatnsföllin og landafræði sem tengist þeim verið rannsökuð í annars konar augnamiði og með annars konar áherslum og um það snýst þetta mál að hluta. Þetta er barátta náttúruverndar sem við stöndum í hér. Það ber alla þætti ríkisstjórnarinnar að sama brunni. Það er ekki eitt heldur allt. Þessi ríkisstjórn hefur allt. Hún hefur lagt niður Náttúruverndarráð og lagði náttúruverndarþing af. Í staðinn kom umhverfisþing sem er allt annað þing og er á forsendum stjórnvalda en ekki á forsendum náttúruverndar. Þessi ríkisstjórn hefur gengið fram fyrir skjöldu og aflýst friðlýsingum í þágu stóriðju. Friðlýsingar samkvæmt náttúruverndarlögum fá ekkert gildi í augum ríkisstjórnarinnar og svona gæti ég haldið áfram að telja, frú forseti. Alls staðar þar sem borið er niður í stefnu þessarar ríkisstjórnar yfirskyggir stóriðjustefnan, álbrjálið allt annað, en náttúruverndin fýkur út í hafsauga og það er mjög miður að ríkisstjórn svona innréttuð skuli vera við völd svona mörg ár á Íslandi þegar tækifærin og möguleikarnir sem eru til staðar í náttúruverndinni, atvinnutækifæri. Atvinnumöguleikar í náttúruvernd eru til staðar en allt er það fótumtroðið og hunsað af þessari ríkisstjórn því álbrjálið yfirskyggir allt.

Hæstv. iðnaðarráðherra Valgerður Sverrisdóttir hefur gert kröfu um það á Alþingi að fá til sín allt vald í þessum efnum, þ.e. allt vald til að rannsaka og stýra stjórnsýslu á vatnsauðlindum Íslands. Hún hefur lagt fram þrjú frumvörp sem staðfesta þessa fullyrðingu mína. Hún er ansi gróf þessi fullyrðing, ég viðurkenni það og það er eðlilegt að það sé kallað eftir rökstuðningi á henni. En hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, hún hefur lagt fram frumvarp til vatnalaga og hún hefur lagt fram þennan bastarð sem ég vil leyfa mér að kalla þetta frumvarp sem við nú fjöllum um og ef við skoðum málið í heild sinni eins og við þingmenn Vinstri grænna höfum verið að krefjast og óska eftir, þá sjáum við að hæstv. iðnaðarráðherra vill sölsa undir sig allt vald í þessum efnum af hræðilegu ofríki að mínu mati og mikilli græðgi, allt vegna áfergjunnar í álið. Í markmiðsgrein frumvarpsins um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skynsamleg stjórn og hagkvæm nýting náttúruauðlinda frá samfélagslegu sjónarmiði, að teknu tilliti til eignarréttar fasteignareigenda.“

Í 2. gr. sem er beint áframhald er talað um gildissvið og þar segir, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til allra jarðrænna auðlinda á landi og í jörðu og innan netlaga sjávar, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

„Til allra jarðrænna auðlinda á landi og í jörðu“ og hvað skyldi það nú fela í sér? Það felur í sér, frú forseti, og hér styðst ég við greinargerð með þessu frumvarpi, grunnvatnið okkar og yfirborðsvatnið, þar á meðal auðlindir í vatnsföllum og stöðuvötnum, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga. Það er hins vegar tekið fram í 2. gr. frumvarpsins að þau eigi ekki að taka til gróðurs og lífvera annarra en hveraörvera en sem sagt, af þessu leiðir að hagnýting allrar vatnsorku kemur til með að falla undir frumvarpið. Það er notað þetta hugtak jarðrænar auðlindir sem er nýlunda um þessar auðlindir og merkir samkvæmt greinargerð frumvarpsins hvers konar frumefni, lífræn og ólífræn efnasambönd og orkulindir sem vinna má úr landi og úr jörðu hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þær kunna að finnast við. Yfir öllum þessum auðlindum á síðan stofnun hæstv. iðnaðarráðherra, Orkustofnun, að vaka. Það á að vera Orkustofnun sem getur heimilað aðilum leit jarðefnaauðlinda, jafnvel þó ekki hafi tekist að afla samþykkis fasteignareigenda. Það er ráðgert að það eigi að auðvelda mönnum að standa undir nauðsynlegri forathugun áður en eiginlegar rannsóknir koma til með útgáfu á tilheyrandi leyfi, þ.e. rannsóknarleyfi á borð við það sem við fjöllum um í frumvarpinu. Í greinargerð með stóra frumvarpinu er tekið fram að leitin geti farið fram á mjög stóru landsvæði og hún geti tekið áratugi og það hefur auðvitað komið fram nú í umræðunni að rannsóknir á þessum auðlindum okkar leiða sjálfar til náttúruspjalla. Í síðari ræðu minni við 2. umr. tók ég dæmi af Brennisteinsfjöllum og Reykjanesfólkvangi sem nú liggur allur undir þessari orkugræðgi orkufyrirtækjanna þar sem búið er að sækja um heimildir til að bora 13 rannsóknarholur í Reykjanesfólkvangi. En Reykjanesfólkvangur er í raun og veru framtíðarútivistarsvæði Reykvíkinga og höfuðborgarbúa þar sem búið er að sundurskera Hengilinn allan með uppbyggðum vegum og borholum og borplönum og verið er að reisa þar gríðarlega jarðvarmavirkjun. Á næsta leiti verður sem sagt önnur eins reist, í miðjum Reykjanesfólkvangi. Rannsóknarholur í jarðvarmanum útheimta borplön, vegalagnir og annað sem gerir það að verkum að verði rannsóknir heimilaðar á þeim viðkvæmu svæðum þá er landið þar með orðið ónýtt til útivistar, það er búið að raska því svoleiðis að óafturkræft er.

Svo ég haldi áfram að gagnrýna hvernig hæstv. iðnaðarráðherra sér fyrir sér að öll stjórnsýsla vatnsauðlindanna eigi að heyra undir iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun, þá minnist ég þess þegar umrædd frumvörp komu fram, þ.e. frumvarp til laga um rannsókn og nýtingu á jarðrænum auðlindum og frumvarpið til vatnalaga sem er einnig mjög umdeilt, þá ráku forstöðumenn stofnana Umhverfisráðuneytisins, forstjóri Umhverfisstofnunar og forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands upp ramakvein og sendu hingað til Alþingis afar efnismiklar umsagnir um þessi mál þar sem þeir gagnrýndu það að verið væri að taka stjórnsýslu allra þessara mála undan umhverfisráðuneytinu og stofnunum þess og færa undir iðnaðarráðuneytið. Þeir voru snupraðir fyrir vikið af hæstv. umhverfisráðherra sem virðist ætla að láta sér þetta í léttu rúmi liggja og stærir sig nú af því einu að geta flaggað einhverri skýrslu, örugglega merkilegu plaggi, það skal viðurkennt, mjög merkilegu plaggi og ég ætla ekki að kasta neinni rýrð á það, rannsóknarskýrslu um Surtsey af því að hæstv. umhverfisráðherra telur að nú þurfi endilega að koma Surtsey inn á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna.

Frú forseti. Surtsey er ekki í neinni yfirvofandi hættu. Það eru engir álfurstar að ásælast eitt eða neitt í Surtsey. Þangað er fólki ekki einu sinni leyft að stíga fæti, nema vísindamönnum með einhverjum sérstökum leyfum og þurfa nánast að ganga um á sauðskinnsskóm og mega ekkert leggja frá sér á eyjunni þannig að hún verndar sig sjálf. En það þarf að taka til hendinni á hálendi Íslands, í óbyggðum Íslands þar sem orkufrekjan er orðin þvílík að iðnaðarráðherra ætlar eins og ég segi að sölsa þar undir sig allt vald, alla stjórnsýslu.

Frumvarpið til vatnalaga átti ekki að ná yfir minna en frumvarpið um jarðrænu auðlindirnar. Markmið þeirra þar var samkvæmt markmiðsgrein frumvarpsins að skýra eignarhald á vatni. Það átti að tryggja skynsamlega vatnsnýtingu og hagkvæma og sjálfbæra nýtingu vatns eins og í marksmiðsgreininni segir, með leyfi forseta:

„Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Nú vil ég taka það fram, hæstv. forseti, að hér gætir verulegs tvískinnungs af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra og af hálfu ríkisstjórnarinnar allrar. Það er þegar þessi ríkisstjórn fer að tala um að ekki megi raska náttúrulegum farvegi vatnanna umfram það sem nauðsynlegt er og það þurfi að sjá til þess að lífríki, vistkerfi og landslag raskist ekki umfram það sem nauðsynlegt er, þá fer svolítið um mann hrollur og þá er maður minnugur bókarinnar Velferð til framtíðar, þ.e. skýrslunni sem hæstv. ríkisstjórn skilaði af sér til á Jóhannesarborgarfundi Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma 2002 þegar stefna Íslands í málefnum sjálfbærrar þróunar var endurnýjuð. Og þar var sjálfbærri þróun snúið upp á þann í neðra vil ég nú meina, þar sem efnahagsvöxtur var í raun og veru grunnforsenda fyrir því að íslenska ríkisstjórnin var tilbúin til að setja sér stefnumörkun og sjálfbæra þróun því að hún átti að hámarka efnahagsvöxt á sama tíma og hún átti, ef ég man rétt, að hámarka líka félagslega velferð og svo í síðasta lagi að ganga ekki um of á umhverfisauðlindirnar. Þannig að tvískinnungs gætir svo sannarlega í málflutningi þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að sjálfbærri þróun og sjálfbærri nýtingu auðlindanna.

Í greinargerð með frumvarpi til vatnalaga kemur fram að unnið sé að lögleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins frá árinu 2000. Tilskipunin tekur til vatnafars og vatnabúskapar í víðasta skilningi þar sem lögð er áhersla á umhverfið og verndun þess. Í greinargerðinni segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Gangi kröfur EFTA-landanna þriggja eftir mun lögleiðing tilskipunarinnar taka til notkunar og meðhöndlunar á vatni sem kann að leiða til mengunar eða rýrt getur gæði vatns og umhverfi þess. Þarf þar að kveða á um stjórn vatnsnotkunar, rannsóknir og vöktun á vatnsgæðum og vatnafari til þess að stuðla að vernd vatns og sjálfbærri notkun.“

Ég ítreka það sem hér stendur, að þessi vatnatilskipun gerir ráð fyrir vöktun vatnsgæða og að kveðið sé á um stjórn vatnsnotkunarinnar og rannsóknir á því. Þessi orð sýna svart á hvítu að lagafrumvarp það sem við fjöllum um hér er fullkomlega ótímabært og slitið úr samhengi við grundvallaratriði þessa máls, þ.e. hina eiginlegu stjórnsýslu og stjórn vatnsnotkunar á landinu, rannsóknir á vatnsnotkun og alla umsýslu vatns, hvort sem það er í þágu virkjana til stóriðju eða annarra nota. Vatn er ein dýrmætasta auðlind jarðarinnar og kannski sú aldýrmætasta. Hvar værum við án vatns?

Hæstv. iðnaðarráðherra hyggst sölsa undir sig alla þessa umsýslu þrátt fyrir að í greinargerð með hennar eigin frumvarpi komi fram að leiða þurfi í lög stjórn vatnsverndar. Í sömu greinargerð segir að fyrir liggi drög frumvarps þess efnis sem unnið hafi verið á vegum umhverfisráðuneytisins eða starfshóps sem umhverfisráðuneytið skipaði. Enn hefur vatnsverndarfrumvarp ekki litið dagsins ljós.

Nú höfum við rætt málið fram og til baka, kallað eftir því að litið verði heildstætt á málin og að vatnsverndarlöggjöf, sem ætti að öllum líkindum að falla undir umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun yrði lögð fram samhliða þeim málum sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur lagt fram. Með því væri hægt að taka ákvarðanir út frá þeim skyldum sem okkur hafa verið lagðar á herðar af alþjóðasamfélaginu. Þar hef ég í huga Ríó-yfirlýsinguna frá árinu 1992.

Allar þær kröfur gerðar hafa verið til okkar og við höfum gert til okkar sjálfra varðandi umhverfisvernd, varfærnislega nýtingu auðlindanna og sjálfbæra þróun, eiga rætur sínar að rekja til heimsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun sem haldin var í júní 1992. Yfirlýsingin sem samþykkt var á þeirri ráðstefnu er ekki flókin. Hún er sáraeinföld en hún fjallar um grundvallaratriði, þau grundvallaratriði sem þetta mál sem við fjöllum um í lokaumræðu byggir á. Við þurfum að taka tillit til þeirra atriða. Fyrsta regla í Ríó-yfirlýsingunni er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Sú viðleitni að koma á sjálfbærri þróun varðar sjálft mannkynið. Því ber réttur til að lifa heilbrigðu og auðgandi lífi í sátt við náttúruna.“

Þessari reglu fylgir íslenska ríkisstjórnin ekki. Þessa reglu brýtur hún. Með stóriðjustefnunni er þessi regla þverbrotin, í bak og fyrir. Hér er bæði verið að innleiða stóriðnað, sem er afar heilsuspillandi, sérstaklega þegar horft er til þess að álverið sem verið er að reisa í Fjarðabyggð á að losa 12 kg af brennisteinsdíoxíði á hvert brætt áltonn á sama tíma og Alþjóðabankinn veitir ekki lán út á verkefni sem losa umfram 1 kg á hvert brætt áltonn. Við erum að tala um 12 kg losun. Í álverinu sem Norsk Hydro ætlaði að reisa á sínum tíma í Fjarðabyggð var styrkur brennisteinsdíoxíðs í bræddu áltonni talsvert innan við kíló. Hér er því þverbrotin regla nr. 1 í Ríó-yfirlýsingunni. Þetta gerir ríkisstjórn Íslands með galopin augun. Hið sama má segja um reglu nr. 2, sem er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt stofnskrá Sameinuðu þjóðanna og grundvallarreglum alþjóðalaga hafa ríki fullveldisrétt til að nýta auðlindir sínar í samræmi við eigin þróunar- og umhverfisstefnu og þeim ber skylda til að tryggja að starfsemi innan lögsögu þeirra eða á vegum þeirra valdi ekki tjóni á umhverfi annarra ríkja eða á svæðum utan lögsögu þeirra.“

Þau áform hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur sem við höfum fjallað um og gagnrýnt stangast á við þá þróunar- og umhverfisstefnu sem við höfum undirgengist og sett okkur. Tvískinnungurinn í þessum málum hjá ríkisstjórninni er óþolandi. Það er eins og þessar yfirlýsingar hafi aldrei verið samþykktar. En það er öðru nær. 3. reglan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Réttinn til þróunar ber að nýta með þeim hætti að komið sé af sanngirni til móts við umhverfis- og þróunarþarfir núlifandi og komandi kynslóða.“

Erum við að gera það hér? Kemur álbrjálæði ríkisstjórnarinnar af sanngirni til móts við umhverfis- og þróunarþarfir komandi kynslóða? Nei. Við brjótum líka gegn — og það verður síðasta reglan sem ég les — 4. reglunni í Ríó-yfirlýsingunni, með leyfi forseta. Hún er svohljóðandi:

„Til þess að af sjálfbærri þróun geti orðið verður umhverfisvernd að vera óaðskiljanlegur liður í þróunarferlinu og því er ekki hægt að slíta hana úr samhengi við það.“

Nú hef ég lesið fjórar fyrstu reglurnar í Ríó-yfirlýsingunni, frú forseti. Allar eru þær þverbrotnar með þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstjórn keyrir með tilliti til stóriðjunnar. Atvinnuuppbygging ríkisstjórnarinnar er dæmd úr leik þegar hún er mæld á mælikvarða alþjóðasamfélagsins sem undirritaði þessa yfirlýsingu í Rio de Janeiro árið 1992.

Eins og komið hefur fram í máli mínu, frú forseti, tel ég að menn hafi skrumskælt þann anda sem unnið var eftir bæði í Ríó og í Kyoto. Til marks um það get ég bent á umræðuna sem fram fór í gær um loftslagsmál og álframleiðslu. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin ætlar sér að sprengja íslenska undanþáguákvæðið svo hraustlega að það fer út fyrir öll velsæmismörk, út fyrir öll mörk sem jafnvel ríkisstjórnin sjálf taldi ákvæðið setja okkur.

Eins og ég hef vikið að með lestri mínum úr Ríó-yfirlýsingunni tel ég að ríkisstjórnin gangi með álversáformum á rétt komandi kynslóða til að ráða sömu auðlindum. Ég tel ekki þurfa að orðlengja neitt frekar um það.

Einn angi þessa máls, eins og hér hefur verið vikið að, snertir losunarbókhaldið okkar og Kyoto-sáttmálann. Það er kunnara en frá þurfi að segja að gróðurhúsalofttegundir virðast eiga mjög stóran þátt í þeirri hlýnun sem á sér stað á jarðarkringlunni. Menn hafa náð áttum í þeim efnum. Kyoto-bókunin hefur verið undirrituð til að þjóðir heims geti sameinast um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Í tengslum við alla þá umræðu hefur farið af stað mikið rannsóknarferli þar sem aðrir þættir sem eiga þátt í þessum kolefnabúskap jarðarinnar koma við sögu. Þeir hafa verið rannsakaðir.

Ég gat áðan um, frú forseti, rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Geology, 1. tölublaði þessa árs. Þetta er tímarit bandaríska jarðfræðifélagsins Geological Society of America. Rannsóknirnar sem blaðið segir frá hljóta að vekja verulega athygli því að þær varða kolefnisbúskapinn, þátt jökulánna og framburðar jökulánna í kolefnisbúskap jarðarinnar, þ.e. hvernig framburðurinn vinnur gegn hlýnunaráhrifum. Þetta er kannski fullflókið til að fara í það í smáatriðum. Það er hins vegar hægt er að segja frá því með miklu stolti að höfundar þessar greinar, þ.e. höfundar rannsóknarinnar, eru Sigurður R. Gíslason, frá Háskóla Íslands; Eric H. Oelkers, frá Toulouse-háskóla og Árni Snorrason, forstöðumaður vatnamælinga Orkustofnunar. Forsíða tímaritsins er íslensk. Hún skartar mynd af sjálfum Dettifossi. Í greininni segir í smáatriðum frá rannsóknum sem varða kalsíumflæði í framburði jökulánna, annars vegar upplausn þess í vatninu og hins vegar í aurburði sem árnar bera fram. Árnar sem rannsakaðar hafa verið eru einmitt Jökla sem nú á að fara að stífla við Kárahnjúka og Jökulsá í Fljótsdal.

Það kemur í ljós, þegar maður les þessa grein, að kalsíum virðist hafa verulega þýðingu fyrir kolefnisbúskapinn með því að bindast koltvísýringi og draga úr gróðurhúsaáhrifum. Þar af leiðandi virðist manni, þar sem Jökla verður stöðvuð í farvegi sínum og allur aurinn með þetta háa kalsíuminnihald sem rannsóknir gefa til kynna verður settur í Hálslón, að framburðurinn virki ekki áfram sem kolefnissvelgur í hafinu líkt og verið hefur. Það er athyglisvert í þessum rannsóknum að eldfjallaeyjar, Ísland og aðrar eldfjallaeyjar, bera fram mikið af kalsíumefnum í sjóinn. Magnið er slíkt að í samanburði við Afríku skila íslenskar jökulár út í hafið einum fjórða hluta sams konar framburðar sem fer í hafið í kringum alla Afríku. Ég sé ekki annað, ef þessar rannsóknir eru rétt túlkaðar, en að við blasi að íslensku jökulárnar, með ótrufluðu rennsli um farveginn og ótruflaðan aurframburð, séu í eðli sínu mikilvæg auðlind sem geti haft verulega mikið að segja í baráttunni við gróðurhúsaáhrifin. Verði þessar jökulár virkjaðar þá verður þessi eiginleiki ekki lengur til staðar.

Ég fæ ekki betur séð en að reikna verði áhrifin af virkjun þeirra inn í losunaruppgjörið sem við þurfum að undirgangast. Þar með eru virkjanir í jökulám, svo ekki verður lengur um villst, afskaplega óhagstæðar með tilliti til umhverfis, ekki bara af því að þær valdi verulegum náttúruspjöllum á landi heldur af því að þær koma til með að draga úr hæfileikum sjávarins til að svolgra í sig koltvísýring. Hitajöfnunaráhrifin sem af því leiða glatast þannig að ég held að okkur sé óhætt að stimpla hinar hræðilegu virkjanir í jökulám á Íslandi fyrir stóriðju sem ósjálfbær skrímsli sem auðvitað hefði aldrei átt að heimila, enda sagði úrskurður Skipulagsstofnunar á sínum tíma um Kárahnjúkavirkjun að umhverfisáhrifin af henni yrðu svo mikil að það ætti ekki að heimila hana. Ef þessi vitneskja hefði bæst við umhverfismatið er enn líklegra að vísindamenn og þeir sem að þeim úrskurði komu hefðu staðið fastar á því að ekki mætti fara í framkvæmdina. Ég sé ekki betur en að vísindamenn hafi enn fært okkur heim sanninn um á hvers konar arfavitlausu fylliríi íslensk stjórnvöld eru með náttúruauðlindir okkar.

Verið er að eyðileggja möguleika komandi kynslóða þvert ofan í þær skuldbindingar sem við höfum gert og undirgengist með alþjóðasamfélaginu. (Iðnrh.: Er það ekki Reykjavíkurlistinn sem stóð að því?) Og hæstv. ráðherra á sér þann draum að það hafi verið Reykjavíkurlistinn sem hafi staðið í því að reisa Kárahnjúkavirkjun. En það er nú ekki svo, frú forseti. (Iðnrh.: … núna í gangi.) Ég held að hæstv. ráðherra sé með frammíköllum sínum í ræður mínar einungis að staðfesta hvernig henni er innanbrjósts. Auðvitað er henni ekki rótt. Hvaða iðnaðarráðherra getur verið rótt þegar birtast heilu opnurnar af blaðagreinum aftur og aftur árum saman sem fjalla um Ísland og náttúruvernd á Íslandi?

Ein slík birtist þar sem höfundurinn er með tárin í augunum yfir eyðileggingunni sem blasir við á hálendinu núna miðað við framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Þessi opna tók alla athygli mína. Höfundur greinarinnar sem ber yfirskriftina Hugleiðingar um Ísland heitir Helena Stefánsdóttir og er leikstjóri. Við hliðina á grein Helenu birtist grein eftir hæstv. iðnaðarráðherra sem heitir Sólargeisli í skammdeginu. Og á sömu opnu er Morgunblaðið í leiðara sínum að fjalla um mengun. Mér finnst þessi opna í Morgunblaðinu vera alveg dæmigerð fyrir ástandið þar sem hæstv. iðnaðarráðherra reynir að klóra í bakkann og réttlæta þær aðgerðir sem farið hefur verið út í með áluppbyggingunni, réttlæta af hverju íslensk stjórnvöld hafi farið krjúpandi á hnjánum til útlanda til að reyna að draga hingað erlend fyrirtæki sem geta sett upp stórar álbræðslur á Íslandi og nú er svo komið að þær flæða um allt landið. Íslendingar eru farnir að skrifa opnugreinar í Morgunblaðið aftur og aftur þar sem beðið er um að hætt verði við. Það gerir Helena Stefánsdóttir í Morgunblaðinu þennan fimmtudag 8. desember sl. Mig langar til að fá að vitna í grein hennar í lok míns máls, frú forseti, því ég held að ekki fari hjá því að Helena og aðrir náttúruverndarar sem hafa verið að tjá sig á síðum blaðanna upp á síðkastið hræri streng í brjósti, jafnvel forhertustu virkjunarsinna. Helena Stefánsdóttir segir, með leyfi forseta:

„Ég ligg í ósnortinni náttúru á hálendi Íslands og dunda mér við að telja plöntutegundirnar fyrir framan nefið á mér. Ég er komin upp í 13 þegar ég heyri í dínamítsprengingu og er óþægilega minnt á þær hryllilegu framkvæmdir og ofbeldi á náttúrunni sem fer fram örlítið neðar við Jöklu. Ég lít upp og við mér blasir tindur sem þriggja ára dóttir mín hefur nefnt „Tröllafjall“. Milli mín og Tröllafjalls er „Ævintýralækur“, einn af mörgum sem við dóttir mín höfum svalað þorsta okkar í undanfarna daga.“

Tröllafjallið, frú forseti, sem barnið kallar svo er Fremri-Kárahnjúkur. Helena skrifar áfram, með leyfi forseta:

„Það er varla að ég geti skrifað þessi orð ógrátandi, meðvituð um það að hér fara fram mestu náttúruspjöll sem unnin hafa verið í einni aðgerð í sögu Íslands.“

Frú forseti. Það er meira í vændum. Það er miklu meira í vændum. Þeir sem fara svona með náttúru Íslands standa sig ekki í skuldbindingum sínum. Þeir bera ekki þá virðingu fyrir umhverfinu eða fyrir komandi kynslóðum sem þeir ættu að vera að gera. Sjálf fór ég með dóttur minni á Kárahnjúkasvæðið í sumar og gekk með henni um Kringilsárrana með tárin í augunum, í fjóra daga. Það skyldi enginn vanmeta þá uppsprettu auðs sem er á þessum svæðum þar sem þessi eyðilegging steðjar að.

Hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. ráðherrar sem hafa gengið hér fram fyrir skjöldu í broddi fylkingar fyrir þessari álstefnu klifa á því að þetta sé nú ekki það verðmætt landsvæði, þetta séu nú mest melar og möl. Hvernig svarar Helena Stefánsdóttir þeim fullyrðingum ráðamanna? Á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Ég veit að það er ekki sandur og möl sem ætlunin er að drekkja. Það eru sjaldgæfar plöntur, lækningajurtir, varpland fugla, griðlendi hreindýra, kraftmiklir fossar, stórkostlegir árfarvegir og klettar, bústaðir álfa og huldufólks. Það á að drekkja landi sem kynngimagnaður kraftur Vatnajökuls hefur hingað til séð um að móta.“

Og Helena horfir á Vatnajökul og heldur áfram:

„Mér líður eins og ég þurfi að biðjast afsökunar á því að geta ekki stöðvað þetta. Mér finnst jökullinn tala til mín. Hann er að segja mér að náttúran sé lifandi vera. Að hún geti ekki tekið við vægðarlausu ofbeldi og mengun mikið lengur — að hún muni sjálf mótmæla.“

Frú forseti. Ég held að það sé alveg við hæfi að enda á þessum tilfinningalegu nótum Helenu Stefánsdóttur í þeirri umræðu sem nú er komin að lokum. Því það er með miklum trega að ég yfirgef þennan ræðustól í þessu máli því mér finnst eins og þetta sé síðasta hálmstráið. Þetta er einn af síðustu nöglunum sem reknir eru í líkkistu íslenskrar náttúru, hef ég á tilfinningunni, þegar hæstv. iðnaðarráðherra fær hér þær heimildir sem hún þarf til að heimila frekari rannsóknir í vatnsafli. Rannsóknir sem eflaust færu fram þó svo hún fengi ekki þessa heimild. Ég tek undir orð sem hafa fallið varðandi Samfylkinguna. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með Samfylkinguna í málinu, að hún skyldi ekki getað staðið með okkur sem erum að reyna að vekja fólk til umhugsunar um hversu alvarleg stefna er á ferðinni og þetta er bara einn liður í heildarstefnunni, eins og ég segi, einn nagli í líkkistu íslenskrar náttúru. Þannig líður mér og það er ekki gott að burðast með slíka tilfinningu og hafa á tilfinningunni að maður megni það ekki að hér verði hætt við.