132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:26]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra tók hér til máls áðan, með svokölluðu frammíkalli, í ræðu, hygg ég, hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Mig langar að hefja ræðu mína á því að leggja út af því frammíkalli.

Hv. þingmaður spurði í ræðu sinni hvernig stæði á því að hæstv. ráðherra gerði eitt eða annað — sem kemur ekki málinu við — og ráðherra svaraði með því að hún væri jú iðnaðarráðherra. Ég er iðnaðarráðherra, sagði ráðherra.

Ég held að það sé hollt fyrir okkur og gott að reyna sem frekast má verða að skilgreina hlutverk okkar hér á þessum vettvangi sem við erum kjörin til hvert með sínum atkvæðum — ég ætlaði að fara að segja hvert með sínum hætti en það er nú ekki, að minnsta kosti ekki með okkur þingmenn — og gera okkur grein fyrir því svona að jafnaði hvaða erindi við eigum inn á þann vettvang. Það er vissulega æskilegt að ráðherra þekki sitt svið vel. Ef hann gerir það ekki er gott að hann taki sér tíma til að kynnast því sem rækilegast. Ég tel það líka affarasælt að sá sem verður ráðherra hafi metnað fyrir hönd þess sviðs eða geira í samfélaginu sem hann hefur tekið að sér að stjórna. Mér finnst eðlilegt, eins og gerist með önnur störf, að ráðherra láti til sín taka á því sviði og freisti þess, jafnvel í nokkurs konar samkeppni við aðra ráðherra og önnur svið, að þar séu framfarir sem mestar og bestar.

Það sem ráðherra má hins vegar aldrei gleyma, hversu vænt sem honum þykir um ráðuneyti sitt og málefni þess, er að hann hefur verið kjörinn af hálfu almennings til að fara með það vald sem hann hefur. Sviðið eða geirinn sem ráðherrann stjórnar hefur ekki kosningarrétt. Málefnin sem þar er fengist við hafa ekki atkvæðisrétt í almennum kosningum og það eru ekki þau sem stjórna því hvort ráðherra fær tiltekið ráðuneyti eða ekki. Þannig að ráðherra verður að líta á sig, jafnvel hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fulltrúa almannahagsmuna á því sviði sem hann velst til. Þess vegna er frammíkallið, ég er iðnaðarráðherra, kannski ekki nógu vel hugsað af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra. Það er ekki þannig, og við getum ekki sætt okkur við að það sé þannig, að iðnaðarráðherra hæstv., sem hér er í salnum, eða aðrir ráðherrar, aðhafist á sínu málasviði vegna þess að þeir séu að sinna einhvers konar hagsmunum iðnaðarins í tilviki iðnaðarráðherra eða viðskiptanna í tilviki viðskiptaráðherra. Þeir eiga að sinna hagsmunum almennings, Íslendinga allra, á því sviði sem um ræðir.

Það kann að felast nokkurt stærilæti í því af minni hálfu að predika um hlutverk og erindi ráðherra en ég tel að í þessu ákveðna tilviki eigi það vel við, vegna þess að iðnaðarráðherra hæstv., sem er auðvitað hinn besti maður, hefur svona sýnt þá hneigð að vera einmitt ekki ráðherra almannahagsmunanna á sínu sviði, í iðnaðarmálum sérstaklega, heldur í raun og veru ráðherra þeirra hagsmuna sem sérstaklega teljast vera iðnaðar- og orkuhagsmunir. Þau frumvörp og þau þingmál sem ráðherra hæstv. hefur flutt á þessum vettvangi og þær tiltektir sem hún hefur sýnt á þeim vettvangi sem hún ræður sjálf, í ráðuneytinu og á því valdsviði, bera keim af því að ráðherra sé ekki að hugsa um almannahagsmuni heldur láta undan eða gæla við ýmiss konar iðnaðar- og orkuhagsmuni.

Það frumvarp sem við ræðum hér, um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, og saga þess sýna þetta, held ég, nokkuð glöggt. Þó verð ég að segja það, mitt í þessari ádrepu, að ráðherra hefur þó látið undan, og er lofsvert að hún skuli hafa gert það að því leyti sem henni var það sjálfrátt, því að þetta frumvarp, eins og það er núna, sýnir auðvitað fyrst og fremst að ráðherrann hefur þurft að bakka frá hinum ýtrustu hagsmunum, sem hún telur vera, iðnaðar og orku og undan almannahagsmunum sem hafa krafist annars en þess sem til stóð hjá hæstv. ráðherra í upphafi.

Ég ætla að fara stuttlega yfir það á eftir en vil segja fyrst að ég harma auðvitað að hafa ekki getað verið við 2. umr. málsins og orðið vitni að þeim viðburðum sem urðu við þá umræðu. Ég hef heldur ekki átt kost á því að neinu ráði að kynna mér nákvæmlega hvað þar var rætt í einstökum ræðum. En ég verð var það nú við 3. umr. að þeir hv. þingmenn sem hér hafa talað hafa einkum notað tækifærið til að ræða hið almenna ástand og ásigkomulag í umhverfis,- orku- og virkjanamálum. Ég skil það vel og virði það fullkomlega í því óvissuástandi sem við eigum nú við að glíma, og upp kom alveg sérstaklega eftir atburðina hér í fyrri viku, þar sem ríkisstjórnin virtist ekki vera klár á því hvaða afstöðu hún ætti að taka gagnvart samningum sem hún hefur þó undirritað, þ.e. Kyoto-bókuninni, og því framhaldi sem þar af hefur orðið um eitt, tvö, þrjú, fjögur eða fimm álver. Á hinn bóginn ætla ég ekki að gera það, enda á ég hér sjálfur tvö þingmál sem hafa málanúmer einhvers staðar á sjöunda tugnum, hygg ég, bæði. Annað er um virkjunarleyfi, að færa þau til Alþingis, og í raun og veru fjallar tillagan um að útgáfu þeirra verði frestað um hríð. Hitt er um djúpboranir, um aukinn stuðning við þær. Ég vonast til að þau komist á dagskrá fyrir vorið. Ég tek eftir því að dagskránni nú eru þingmál nr. 53–55. Ég ætti kannski að hjálpa til við það með því að takmarka mig í ræðustóli og skal gera það.

Ég tel í raun og veru að mikill árangur hafi náðst af hálfu stjórnarandstöðunnar og af hálfu almannahagsmuna í þessu máli. Þetta byrjaði í fyrra, forseti, með því að lagt var fram frumvarp til laga sem átti að taka við af lögunum sem nú stendur til að breyta, nr. 57/1998. Það frumvarp var þannig úr garði gert að það varð ekki afgreitt í fyrra. Hins vegar var borinn fram það sem kallað hefur verið „kálfur“ þar sem látið var undan stjórninni og ráðherranum í nokkrum atriðum. Hann var sem betur fer ekki hægt að afgreiða á því stigi. Þetta var töluverður árangur því það sem gerðist í vetur var að kálfurinn kom fram aftur, að vísu með nokkuð öðrum hætti en áður hafði verið og þannig að hann var nú stjórnarfrumvarp en ekki fluttur af meiri hlutanum í iðnaðarnefnd.

Nú hefur það svo gerst að orðið hafa breytingar á þessu frumvarpi, á kálfinum. Þær breytingar eru þannig að í fyrsta lagi fann iðnaðarráðherra hæstv. það út — sem stjórnar iðnaðarráðuneytinu og hefur haft forráð í iðnaðar- og orkumálum, nú þori ég ekki að segja í hve mörg ár en þau eru orðin allmörg — en hún fann það út að frumvarpið sem hún flutti sjálf væri um annað en hún hefði haldið og haldið fram í þessum ræðustól. Urðu auðvitað úr því einhverjar skrýtnustu umræður, þegar litið er til baka, sem hér hafa farið fram, því að ráðherra tók það aftur í jólahléinu sem menn höfðu rætt hér í þaula, þar á meðal sá sem hér stendur, rétt fyrir jólin.

Nú hefur sú breyting orðið á tillögum frumvarpsins um 5. gr. laganna að þar er í fyrsta lagi búið að falla frá þeirri ætlan að ákvæðið um vilyrði fyrir nýtingarleyfi jafnframt rannsóknarleyfinu gildi gagnvart vatnsorkunni sem í raun og veru er verið að setja í þessi lög með þessum litla kálfi, þessu frumvarpi. Í öðru lagi hefur sá árangur náðst að hið sama hefur gerst með jarðvarmann. Eftir því sem ég skil eru þessar breytingar þannig að ekki er lengur um það að ræða að ráðherra geti gefið einhvers konar vilyrði fyrir nýtingarleyfi með rannsóknarleyfi sínu. Þetta er ákaflega mikill árangur sem ég óska þeim sem voru hér í forustu í 2. umr. til hamingju með og kannski sérstaklega hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, sem var talsmaður okkar samfylkingarmanna í þeirri umræðu og þessum umræðum og ég hygg að stjórnarandstaðan öll hafi lagt hér hönd að verki. Það sem eftir stendur er að ráðherra hæstv. getur gefið þetta vilyrði þegar um hitaveitur er að ræða, og ég hygg að við deilum ekki um það, a.m.k. ekki nú, að sé fullkomlega esðlilegt, enda er það þannig að hitaveitur eru ekki hafðar hér á prjónum nema um sveitarfélög sé að ræða og má þá telja að nokkurn veginn sé óhætt og eðlilegt að gefa vilyrði fyrir nýtingarleyfi þegar rannsóknarleyfi er gefið.

Það má líka telja mikinn árangur, og er ástæða til að vekja sérstaka athygli á því vegna þess að ég er ekki viss um að allir hafi gert sér grein fyrir því en það hlýtur þó að vera í iðnaðarráðuneytinu, því merka og háa ráðuneyti, að þar séu menn klárir á því að með ákvæði til bráðabirgða er þetta auðvitað þannig að ef tvær beiðnir um rannsókn eða nýtingu berast, eða fleiri, þá verður að bíða með að gefa þau leyfi þangað til 15. september 2006, og raunar þangað til það frumvarp hefur verið afgreitt sem ráðherra leggur fram í framhaldi af þeirri vinnu sem tilskilin er í ákvæði til bráðabirgða. Ég endurtek: Það er skilningur minn og mér þykir það augljóst að ráðherra iðnaðarmála hæstv. geti ekki gefið út rannsóknarleyfi eða nýtingarleyfi í því tilviki að tveir eða fleiri sæki um það og lít á þann skilning staðfestan ef ekki koma hér einhverjar mótbárur, sem er mikilvægt fyrir framtíðina.

Að lokum um þetta frumvarp sérstaklega er það auðvitað líka að í ákvæði til bráðabirgða er vinnuhópnum eða nefndinni — sem er að vísu furðulega skipuð en látum vera, þar eru a.m.k. fulltrúar allra þingflokka — ekki einungis ætlað að gera tillögur um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi heldur á hún líka að marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til. Hún á að leggja þetta hvort tveggja fram í formi lagafrumvarps og því má ætla að iðnaðarráðherra flytji það frumvarp óbreytt eða breytt á næsta þingi því að hún hefur a.m.k. hálfan mánuð á milli skilanna 15. september og upphafs þings 1. október. Þessi ákvörðun, ef þetta frumvarp verður að lögum, bindur iðnaðarráðherra í raun og veru siðferðilega, þó að kannski sé ekki beinlínis hægt að halda því fram að það bindi hana lagalega eins og þegar tveir eða fleiri sækja um, til þess að gefa ekki út a.m.k. ekki nýtingarleyfi þar sem einn sækir um nema um það ríki svo breið samstaða að það verði ekki að almennu deilumáli, hvorki á þinginu né í samfélaginu. Ég hygg að menn hljóti að geta verið sammála um að þegar nefnd er að störfum með fulltrúum allra þingflokka, með þremur fulltrúum frá Samorku og tveimur fulltrúum iðnaðarráðherra, þegar iðnaðarhagsmunirnir og orkuhagsmunirnir, sem iðnaðarráðherra hæstv. skilgreindi áðan í frammíkalli sínu, eiga samtals fimm fulltrúa í þessari nefnd og almannahagsmunir fimm, ef ég má vera svo djarfur að túlka frammíkall ráðherrans nokkuð hraustlega, að meðan slík nefnd sé að störfum að tillögu ráðherra sjálfs, hljóti ráðherra að vera siðferðilega bundin því að taka ekki ákvarðanir um þessi efni nema með þeirri samstöðu í landinu og þinginu að þar sé greinilega ekki um deilumál að ræða. (Gripið fram í.)

Tillaga nefndarinnar, segir hv. þm. Jóhann Ársælsson. Tillaga nefndarinnar verður auðvitað einhver. Hún kemur fram í formi lagafrumvarps 15. september. Ég er að tala um tímann fram til 15. september. Ég er að tala um að iðnaðarráðherra sé siðferðilega bundin af þessu nefndarstarfi fram til 15. september 2006 og frá því að nefndin er skipuð, með þeim hætti að að iðnaðarráðherra geti ekki og hafi ekki pólitískt umboð til þess að gefa út nýtingarleyfi til þess tíma. Ég skal ekki segja um rannsóknarleyfin. Það er annað mál og öðruvísi þó að auðvitað geti rannsóknarleyfi, sérstaklega þegar um jarðvarma er að ræða, verið umdeild vegna þess að rannsóknir geta valdið miklu raski á jarðvarmasvæðum og meira en þegar um vatnsorku er að ræða.

Ég verð að segja að ég skil auðvitað vel þá hv. ræðumenn sem á undan mér hafa komið og talað um að óeðlilegt sé að þingið gefi heimild til nokkurs leyfis sem ekki er enn vitað með hvaða hætti á að meta í ráðuneytinu. Ég er út af fyrir sig sammála því. En ég tel að hér hafi náðst verulegur árangur og ég óska öðrum stjórnarandstæðingum á Alþingi til hamingju með það og í raun og veru iðnaðarráðherra líka. Einkum held ég þó að það sé að þakka þeirri viðhorfsbreytingu sem gengur núna um samfélagið og er í þá átt, eins og við vitum, að náttúran eigi að njóta vafans og þar sé e.t.v. komið að einhvers konar endimörkum, að við séum komin út á jaðar í áformum okkar um að nýta náttúruauðlindir, þessi kynslóð og örfáar hinar næstu, með þeim óafturkræfa hætti að landið verði minna til framtíðar, að ég minnist ekki á alþjóðlegar skuldbindingar okkar, núverandi og verðandi, í baráttu gegn loftslagsbreytingum sem ég hygg að sé það mál sem okkar kynslóð af stjórnmálamönnum og kannski af Íslendingum verður metin fyrir þegar áratugir eru liðnir og við öll fallin.