132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[16:46]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er komið til móts við óskir og áskoranir fjölmargra aðila um reyklausa veitingastaði hér á landi. Hér er jafnframt á ferðinni frumvarp sem markar á sinn hátt tímamót á sviði lýðheilsu og forvarna á Íslandi.

Á árinu 2004 óskaði ég eftir tillögum frá tóbaksvarnaráði og Lýðheilsustöð um endurskoðun tóbaksvarnalaga með það að leiðarljósi að endurskoða þau ákvæði sem heimiluðu reykingar á afmörkuðum svæðum veitinga- og skemmtistaða. Frumvarpið sem nú er mælt fyrir er afrakstur vinnu sérfræðinga og embættismanna sem fjallað hafa um málið undanfarin missiri.

Í frumvarpinu er lagt til að reykingar í þjónusturými á veitinga- og skemmtistöðum verði bannaðar með öllu frá og með 1. júní 2007. Með því að setja gildistímann 1. júní 2007 er þeim sem reka veitinga- og skemmtistaði veittur aðlögunartími sem að margra mati er fulllangur en hann er nauðsynlegur og sanngjarn að mínum dómi.

Meginmarkmið frumvarpsins er vinnuvernd starfsmanna á veitinga- og gistihúsum og vernd almennings með vísan til vaxandi vísindalegra sannana fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsutjóni og dauðsföllum.

Miðað við núverandi undanþágu sem veitinga- og skemmtistaðir hafa frá 9. gr. tóbaksvarnalaga nýtur starfsfólk þessara staða ekki þeirra réttinda sem vinnuverndarlögum er ætlað að tryggja, jafnt og öðru vinnandi fólki.

Frá sjónarhóli þessa starfsfólks eru núverandi aðstæður ekki þolandi. Alþingi hefur samþykkt heilbrigðisáætlun til ársins 2010 sem ætlað er að marka stefnu í heilbrigðismálum. Eitt af markmiðum áætlunarinnar er að draga úr reykingum og er frumvarpið því í fullu samræmi við þau markmið sem Alþingi hefur samþykkt í heilbrigðisáætlunum. Íslendingar undirrituðu á árinu 2003 rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir og voru þeir meðal fyrstu þjóða sem það gerðu. Í samningnum er staðfest að aðilar hans viðurkenni að vísindaleg gögn hafi með óyggjandi hætti sýnt að óbeinar reykingar valdi dauða, sjúkdómum og fötlun og þeir skuldbindi sig til að setja lög og grípa til annarra ráðstafana gegn alvarlegum afleiðingum óbeinna reykinga.

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar sem haldinn var í apríl 2005 samþykkti að ganga til viðræðna við stjórnvöld um að allir veitinga- og skemmtistaðir yrðu reyklausir frá og með 1. júní 2007. Með þeirri ályktun lýstu Samtök ferðaþjónustunnar yfir áhuga sínum og vilja til að stuðla að bættu vinnuumhverfi fyrir starfsfólk og áhuga fyrir samvinnu við stjórnvöld og ber að fagna því.

Í áranna rás hefur smám saman verið hert á ákvæðum tóbaksvarnalaga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk þurfi að anda að sér tóbaksreyk frá öðrum. Afnám undanþágu til reykinga á veitinga- og skemmtistöðum er eðlileg framvinda þeirrar þróunar og hefur verið tekin upp í fjölmörgum löndum að undanförnu.

Í ljósi vinnuverndarlaga tóbaksvarnalöggjafar heilbrigðisáætlunar til ársins 2010, þess að Ísland hefur fullgilt rammasamning Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um tóbaksvarnir og stuðnings veitingaiðnaðarins við lagasetningu um reyklausa veitinga- og skemmtistaði er mikilvægt að stjórnvöld haldi áfram á þeirri braut sem þau hafa markað og tryggi öllum reyklaust vinnuumhverfi, þar með talið starfsfólki á veitinga- og skemmtistöðum.

Virðulegi forseti. Frumvarpi því sem hér er lagt fram er eins og áður hefur komið fram ætlað að auka vinnuvernd starfsmanna á veitinga- og skemmtistöðum og vernda almenning gegn þeim heilsufarsskaða sem óbeinar reykingar valda og þar með að stuðla að bættu almennu heilsufari þjóðarinnar. Ég leyfi mér því, virðulegur forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. heilbrigðis- og trygginganefndar og til 2. umr.