132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[16:51]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er ljóst að það mál sem hér er til umræðu felur í sér töluverða þrengingu á þeim heimildum sem fyrir eru í núgildandi lögum og varða reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Í þessu máli takast á tvenns konar sjónarmið, annars vegar heilbrigðissjónarmið og hins vegar spurning um frelsi fullorðinna einstaklinga til að aðhafast það sem þeir kjósa.

Ég velti fyrir mér hvort hæstv. heilbrigðisráðherra hafi velt fyrir sér hvort hægt hefði verið að fara vægar í sakirnar en gert er í þessu frumvarp, t.d. með því að ganga frekar eftir því að núgildandi lögum sem vissulega eru mjög ströng sé betur framfylgt en er í dag. Hins vegar spyr ég hvort leitað hafi verið fyrirmynda eða kannað hvort þeirra mætti leita annars staðar en gert er í þessu frumvarpi (Forseti hringir.) þar sem litið er til þeirra landa í heiminum sem strangastar reglur hafa á þessu sviði.