132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:35]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd taki þessi mál til alvarlegrar skoðunar. Þetta eru ekki einu rangfærslurnar í þessari greinargerð. Þetta er ekki í eina skiptið sem farið er mjög frjálslega með staðreyndir og niðurstöður rannsókna.

Þetta eru náttúrlega atriði sem þeir sem semja þetta frumvarp verða að svara fyrir. Það er ábyrgðarhluti að halda fram röngum upplýsingum í greinargerð til að ná fram markmiðum sínum. Það er ekki síður athyglisvert og ámælisvert að víkja ekki að rannsóknum sem leiða til annarra niðurstaðna, eins og þessari niðurstöðu frá 1998, viðamestu rannsókninni á þessu sviði. Af hverju í ósköpunum er ekki vísað til hennar í þessari umfjöllun? Ég held að hv. þingmaður sem á sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd ætti að spyrja þá sem til svara verða (Forseti hringir.) þegar þar að kemur í hv. nefnd.