132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:36]
Hlusta

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson notaði lungann af tíma sínum í þessum ræðustóli til að gagnrýna vinnubrögð ráðuneytisins við frumvarpið, eins og hann kallaði það, og greinargerð Lýðheilsustöðvar, m.a. að ekki hefði verið rétt vísað til heimilda eða að niðurstöður tiltekinna rannsókna hefðu ekki verið rétt greindar.

Það sem mér leikur forvitni á að vita er hvort hv. þingmaður efist í sjálfu sér um skaðsemi reykinga, hvort sem er beinna eða óbeinna, minnug þess að meginefni frumvarpsins er jú vinnuverndarsjónarmið, með tilliti til þeirra sem þurfa að vinna við og þola afleiðingar óbeinna reykinga. Byggja athugasemdir hans líka og andstaða við frumvarpið á því að hann rengi, í bága við allar upplýsingar sem við höfum frá heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisvísindum almennt, að óbeinar reykingar geti haft skaðleg heilsufarsleg áhrif?