132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[17:49]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þetta þingmál, um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, er komið fram. Eins og fram hefur komið í umræðunni var ég einn af meðflutningsmönnum hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur þegar málið var lagt fram á síðasta þingi og er ég mikill fylgismaður þess að þessar lagabreytingar nái fram að ganga.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra eru markmiðin vinnuverndarsjónarmið, einnig að minnka reykingar og að sjálfsögðu að forðast óbeinar reykingar. Þó svo að endurbætt greinargerð komi með þessu frumvarpi finnst mér engin ástæða til að nota það sem einhver rök gegn málinu. Það sýnir bara að verið er að bæta vinnubrögðin og ég fagna því. Ástæðulaust er að gera málið eitthvað tortryggilegt hvað það varðar, sérstaklega af fólki sem er sannfært um og efast ekki um að reykingar séu skaðsamar, eins og hv. þingmaður sem talaði á undan mér sem reyndi að finna málinu allt til foráttu þrátt fyrir að vera sannfærður um að reykingar og óbeinar reykingar séu skaðlegar.

Auðvitað vitum við, og það sýnir sig í öllum þeim 74 tilvísunum sem eru með frumvarpinu, að fjöldi rannsókna hefur sýnt fram á það og komið fram með mjög alvarlegar upplýsingar um það hve óbeinar reykingar eru skaðlegar heilsu þeirra sem fyrir þeim verða. Þær eru hættulegri heilsunni en reykingar eru reykingamanninum sjálfum. Í ljósi þess er óviðunandi að starfsmenn veitinga- og skemmtistaða líði vegna óbeinna reykinga því að þeir eru ein fárra stétta sem ekki fær vernd í tóbakslögunum og vinnuverndarlögunum eins og þau eru í dag. Þetta starfsfólk býr við það í vinnu sinni að anda að sér reykmenguðu lofti þótt það sé sannað að það valdi óþægindum, sjúkdómum og jafnvel dauðsföllum. Rannsóknir sýna að fólk sem vinnur á vínveitingabar en reykir ekki er með svipaða þéttni nikótíns í blóði og fólk sem reykir daglega.

Ef skoðaðar eru rannsóknir þar sem könnuð hafa verið tengsl lungnakrabbameins og þess að vinna á veitinga- og skemmistað kemur í ljós að fólk sem vinnur á veitingahúsum er í allt að 50% meiri hættu á að fá lungnakrabbamein en aðrir. Ófædd börn verða fyrir óbeinum reykingum ef reykt er umhverfis þungaða móður og eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og hefur reyndar komið mjög fram í umræðunni um þessi mál eru afleiðingarnar lítil fæðingarþyngd og fyrirburafæðing, sem er mun algengari ef móðir hefur orðið fyrir óbeinum reykingum á meðgöngu og hættan eykst eftir því sem óbeinu reykingarnar eru meiri. Einnig hefur verið bent á að vöggudauði sé algengari ef barn verður fyrir óbeinum reykingum. Þess vegna fagna ég því að við getum snúið hér vörn í sókn og barist gegn þessum afleiðingum, sem vitað er að eru af óbeinum reykingum, með því að samþykkja þetta þingmál.

Í tóbaksreyk eru nokkur þúsund efni og efnasambönd. Uppruni þeirra er margvíslegur. Þetta eru efni úr tóbaksjurtinni sjálfri, efni notuð við ræktun hennar, t.d. skordýraeitursleifar, efni notuð við vinnslu plöntunnar, t.d. klórsambönd, og efni notuð til að auka fíknaráhrif nikótíns, t.d. ammoníak. Fjölmörg þessara efna eru hættuleg heilsu manna, þar á meðal eru tugir krabbameinsvaldandi efna.

Þegar sígaretta eða annað tóbak brennur verða til tvær tegundir reyks, annars vegar reykurinn sem reykingamenn sjúga að sér, kallað meginreykur, og hins vegar reykurinn sem myndast þegar tóbakið brennur sjálft, hliðarreykur. Reykurinn sem reykingamenn sjúga að sér verður til við tiltölulega fullkominn bruna, eða yfir 600°C og inniheldur minna af skaðlegum efnum fyrir vikið. Reykurinn sem myndast þegar tóbakið brennur sjálft myndast hins vegar við ófullkominn bruna svokallaðan, eða u.þ.b. 350°C, og inniheldur því meira af skaðlegum efnum. Meiri hluti hverrar sígarettu brennur upp án sogs og myndar hættulegri reykinn. Reykmengun sem myndast þar sem reykt er innan húss, t.d. á veitinga- og skemmtistöðum, verður því til að meiri hluta úr hinum hættulegri hliðarreyk.

Ég tel að við verðum að hafa þetta í huga og það er alls ekki viðunandi að við bjóðum fólki sem starfar á veitingahúsum upp á það að vinna við þessar aðstæður. Fyrir utan það tel ég persónulega ekki heldur boðlegt að gestir á veitingahúsum þurfi að búa við þessa loftmengun og þessi hættulegu efni inni á veitingastað ef menn ætla að fá sér veitingar þar.

Við höfum verið í fararbroddi í heiminum í lagasetningu á forvörnum á sviði tóbaksvarna og höfum gott orð á okkur víða um lönd vegna þess og litið hefur verið til okkar hvað varðar tóbaksvarnir. Því tel ég tímabært, og það fyrir þó nokkru síðan, að við förum að dæmi þeirra þjóða sem þegar hafa bannað reykingar á veitingastöðum. Eins og kemur reyndar fram í þingskjalinu er talið upp hvaða þjóðir hafa þegar bannað reykingar á þennan hátt. Fyrstir voru Bandaríkjamenn eða Kaliforníuríki árið 1994, síðan kom New York-borg í kjölfarið og lögin þar tóku gildi í mars 2003. Kanadamenn hafa farið sömu leið og víða í Kanada hefur algerlega verið bannað að reykja á veitinga- og skemmtistöðum. Írar og Norðmenn hafa bannað reykingar á veitinga- og skemmtistöðum hjá sér. Sömuleiðis hafa menn einnig tekið á því að ekki sé reykt beint fyrir utan hús, t.d. í Noregi. Tel ég það vera til mikillar fyrirmyndar hvernig menn hafa staðið að þessum málum þar. Svíar hafa einnig bannað reykingar í öllum húsakynnum þar sem matur og drykkur er framreiddur. Þeir hafa reyndar komið á reykherbergjum þar sem menn geta staðið undir reykháfi og reykt upp í hann. Ég verð að segja að mér finnst það ömurleg sjón að sjá reykingafólk standa undir þessum reykháfum til að reykja, aflokað eins og dýr í búrum.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta frumvarp löngu tímabært. Mig langar aðeins að nefna í sambandi við þessa umræðu að í þingskjalinu er umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem segir að megintilgangur þess sé að afnema undanþágur sem nú eru í 2. mgr. 9. gr. laga um tóbaksvarnir. Síðan segir:

„Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.“

Ég er alveg sannfærð um að ef þetta frumvarp verður að lögum muni það til langs tíma frekar hafa jákvæð áhrif á útgjöld ríkissjóðs heldur en hitt, því það mun án efa minnka útgjöld heilbrigðiskerfisins vegna hinna ýmsu sjúkdóma sem reykingar og óbeinar reykingar valda. Við vitum að það er ekki bara lungnakrabbamein eins og mikið var gert úr hér. Miklu fleiri sjúkdómar eru afleiðing óbeinna reykinga, t.d. hjarta- og æðasjúkdómar, ýmis einkenni hjartasjúkdóma verða verri. Hjá astmasjúklingum verða astmaköstin oftar, berkjubólga versnar, heilablóðfall getur verið afleiðing af óbeinum reykingum. Það eru áhrifin á meðgöngu barna, eins og ég benti á áðan, og ýmis áhrif á börn eins og eyrnabólgur, sýkingar í öndunarfærum, astmaköst hjá þeim börnum sem eru með astma o.s.frv. Síðan er náttúrlega eins og við vitum öndunarerfiðleikar, ógleði, óþægindi í öndunarfærum, höfuðverkur, hósti, sviði í augum o.s.frv.

Ég starfaði í allmörg ár á skemmtistað þar sem var mikið reykt og það var mikil vanlíðan eftir þá vinnu þegar maður kom heim á kvöldin. Ég reykti ekki sjálf en þurfti að búa við óbeinar reykingar í vinnunni. Sama átti auðvitað við þegar reykingar voru leyfðar í flugvélum, í því lokaða rými. Það hafði veruleg áhrif á þá sem ferðuðust og þá sem unnu við það. Að maður tali nú ekki um reykingar í langferðabifreiðum sem urðu þess yfirleitt valdandi að fólk varð bílveikt, börn urðu veik o.s.frv. Sem betur fer er búið að banna allt slíkt. Þetta er bara gamaldags og á auðvitað alls ekki að líðast.

Varðandi alla þá gagnrýni sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson var með áðan, þá furða ég mig á málflutningi hans og velti fyrir mér hvað honum gangi til með að gera þau rök sem koma fram í greinargerðinni tortryggileg vegna einhverra tilvísana sem ekki gangi upp. Langflestar rannsóknir sýna fram á skaðsemi reykinga, sem þingmaðurinn efaðist reyndar ekkert um sjálfur. Ég get því ekki séð annað en að þetta sé hið besta mál. Ég mun koma að vinnu þess í heilbrigðis- og trygginganefnd og auðvitað köllum við alla til sem þarf að kalla til. Ég ætla ekki að verja þá sem falsa niðurstöður, enda finnst mér þetta mál ekki snúast um það. Við sem höfum verið að kynna okkur þessi mál, um tóbaksreykingarnar og þessa lagasetningu til að minnka áhrif reykinga og koma í veg fyrir reykingar, vitum að tóbaksfyrirtækin hafa beitt öllum brögðum til að koma áróðri sínum á framfæri og eru með fjölda manns í vinnu við það. Maður hefur séð hvernig þeir hafa beitt sér t.d. í þriðja heiminum, núna þegar hinar upplýstari þjóðir eins og vestrænu löndin hafa gert sér grein fyrir hversu skaðsemi reykinga er mikil þá hafa þeir beint markaðssetningu sinni á önnur mið.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mína lengri. Ég er mjög mikill fylgismaður þessarar lagabreytingar og mun auðvitað leggja mitt af mörkum til að hún nái fram að ganga, sem ég vona að verði. Ég vil að við Íslendingar verðum á sama róli og Norðurlandabúar hvað þetta varðar og treysti því að reykingabannið á veitingastöðum verði orðið að veruleika ekki seinna en 1. júní 2007 eins og getið í frumvarpinu en hefði gjarnan viljað sjá þessa lagabreytingu verða fyrr.