132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[18:59]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir lagði í máli sínu höfuðáherslu á að frumvarpi þessu væri ætlað að ná fram vinnuverndarsjónarmiðum. Þess vegna leikur mér nokkur forvitni á að vita hvers vegna frumvarpið, og þar með stuðningur hv. þingmanns við frumvarpið, gengur lengra en nauðsynlegt er til þess að ná vinnuverndarsjónarmiðum. Samkvæmt frumvarpinu er t.d. bannað að bjóða upp á sérstök reykingarými þar sem ekki er veitt þjónusta á veitingastöðum. Það er meira að segja bannað, samkvæmt frumvarpinu eins og það lítur út í dag, að veitingamenn reisi sérstök tjöld í bakgarðinum hjá sér til þess að gefa fólki kost á að að fara út að reykja án þess að verða fyrir veðri og vindum, eins og menn þekkja níu mánuði ársins hér í Reykjavík. Aðstæður eru síst betri utan höfuðborgarsvæðisins hvað það varðar. Bannið gengur svona langt.

Þess vegna spyr ég: Er ekki gengið miklu lengra en vinnuverndarsjónarmið krefjast, sem hv. þingmaður mælir svo mjög fyrir? Er ekki gengið miklu lengra en nauðsynlegt er til að ná þessum markmiðum?