132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[19:03]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur vil ég spyrja hana hvort við sjáum ekki fyrir okkur að við sem löggjafi getum þolað það að einhver fjölbreytni sé í veitingahúsaflórunni. Ég vil spyrja hvort það sé hlutverk okkar að hlutast til um mál sem eftir því sem hv. þingmaður lýsir er eitthvert samkeppnismál hjá viðkomandi fyrirtækjum.

Nú eru veitingastaðir afskaplega mismunandi. Veitingastaðir eru stórir og litlir. Þeir hafa mismunandi vöruúrval, þeir eru misjafnlega staðsettir í bænum. Ekki teljum við það okkar skyldu að steypa alla í sama mót. Ég velti fyrir mér, er það hlutverk okkar sem löggjafa að takmarka það að veitingastaðir sem til þess hafa aðstöðu eða vilja leggja í fjárfestingar sem gera þeim kleift að bjóða upp á slík reykherbergi, er það hlutverk okkar að stoppa þá í því?