132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[19:25]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Loksins, loksins. Það held ég að margir segi þegar nú er komið fram það frumvarp sem er hér til umræðu í dag sem bannar reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Ég tek heils hugar undir með þessu fólki. Í áranna rás hafa íslensk stjórnvöld verið í fararbroddi í heiminum í lagasetningu og forvörnum á sviði tóbaksvarna og margar þjóðir hafa litið hingað þegar marka á stefnu í tóbaksvörnum.

Eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins er meginmarkmið þess vinnuvernd starfsmanna með vísan til gildandi vinnuverndarlaga og vernd almennings, en fjöldi vísindalegra sannana fyrir því að óbeinar reykingar valdi heilsuskaða og dauðsföllum fer hratt vaxandi. Þegar þetta meginmarkmið frumvarpsins er uppfyllt má búast við ýmiss konar öðrum ávinningi af reykbanninu bæði fyrir einstaklinga og fyrir samfélagið.

Frú forseti. Eins og hefur verið rifjað upp í umræðunum í dag er nokkur aðdragandi að málinu sem gerð hefur verið ágætlega grein fyrir. En það hefur ekki síst verið sú umræða sem hefur farið fram, ekki einungis hér heldur víða um heim, sem hreinlega hefur kallað á þessar breytingar. Við höfum fylgst með lagasetningu í öðrum löndum og hér hafa verið rakin dæmi, t.d. frá Írlandi og Noregi. Margt hefur haft áhrif, t.d. vinna í ráðuneytinu, innan Lýðheilsustöðvar og ekki síst innan tóbaksvarnanefndar, auk frumvarps sem lagt var hér fram á síðasta þingi og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir var flutningsmaður að, allt hefur þetta leitt til mikillar umræðu hér á landi sem ég held að sé grunnurinn að því frumvarpi sem liggur hér fyrir í dag.

Í þessum efnum verður auðvitað að geta ályktunar Samtaka ferðaþjónustunnar frá í apríl á síðasta ári, en hennar hefur verið getið margoft í dag. Það má einnig taka það fram að í stjórnarfrumvarpinu sem nú liggur fyrir er einmitt tekið tilliti til óska Samtaka ferðaþjónustunnar, þ.e. í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að veitinga- og skemmtistaðir hafi tíma til að undirbúa starfsemi sína og laga að áformuðum breytingum til 1. júní 2007 en þá eiga staðirnir að vera orðnir reyklausir.

Lögin sem eru gildandi í dag, lög um tóbaksvarnir, hafa auðvitað breyst nokkuð frá þeim tíma sem þau voru sett, þ.e. 1. janúar 1965. Í 1. gr. þeirra er lögð áhersla á að draga úr heilsutjóni og dauðsföllum af völdum tóbaks með því að minnka tóbaksneyslu og hlífa fólki við áhrifum tóbaksreyks. Einnig segir þar að virða beri rétt hvers manns til að þurfa ekki að anda að sér lofti sem er mengað af tóbaksreyk af völdum annarra. Frá 1985 hefur þrisvar verið hert á ákvæðum tóbaksvarnalaga í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fólk þurfi að anda að sér tóbaksreyk frá öðrum. Í ljósi nýrrar þekkingar um skaðsemi óbeinna reykinga væri því afnám undanþágu 9. gr. tóbaksvarnalaganna eðlileg framvinda.

Markmið vinnuverndarlaganna er einnig að tryggja vinnuvernd starfsmanna. Miðað við núverandi undanþágu í 9. gr. tóbaksvarnalaganna nýtur starfsfólk veitinga- og skemmtistaða ekki þeirra réttinda sem vinnuverndarlögum er ætlað að tryggja því jafnt og öðru vinnandi fólki. Því tel ég mikilvægt að haldið verði áfram á þeirri braut sem stjórnvöld hafa markað og að öllum verði tryggt reyklaust vinnuumhverfi, þar með töldu starfsfólki á veitinga- og skemmtistöðum.

Frú forseti. Þekking okkar á skaðsemi óbeinna reykinga hefur stóraukist á síðustu árum. Hálf öld er síðan fyrstu sannanir um heilsuskaðleg áhrif reykinga komu fram og hefur það margoft verið staðfest síðan. Áratugir eru liðnir síðan menn gerðu sér grein fyrir því að reykingar þungaðra kvenna hafa skaðleg áhrif á fóstur. Styttra er síðan vísbendingar koma fram um heilsuskaða hjá þeim sem ekki reykja sjálfir en búa við tóbaksreykmengað andrúmsloft á heimili eða í vinnu.

Á undanförnum árum hefur komið fram fjöldi rannsókna sem sýnir að slíkar óbeinar reykingar eru skaðlegar heilsunni og geta auk óþæginda og vanlíðunar hjá mörgum valdið sömu sjúkdómum og hljótast af því að reykja. Þingmönnum hefur í ræðustól orðið tíðrætt um ýmsar rannsóknir og í sjálfu sér tel ég ekki nauðsynlegt að rifja upp öll þau heilsufarslegu áhrif sem óbeinar reykingar hafa, þ.e. skaðleg áhrif. Ég nefni sem dæmi lungnakrabbamein, hjartaáfall og líklegt er talið að þær geti valdið lungnaþembu og heilablóðfalli meðal fullorðinna.

Mér finnst mikilvægt, vegna þess að umræðurnar hafa talsvert snúist um trúverðugleika gagna eða rannsóknanna að koma inn á það. Þegar fjallað er um rannsóknir í heilbrigðisvísindum er mikilvægt að horfa á heildarmyndina, draga saman rannsóknir á hverju sviði fyrir sig og meta áhættuna út frá því. Margar erlendar vísindastofnanir og samtök heilbrigðisstarfsmanna í Bandaríkjunum, Bretlandi og Ástralíu, hafa tekið saman allar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á áhrifum óbeinna reykinga og ýmissa sjúkdóma og flestar eru sammála um að nægar vísindalegar sannanir séu fyrir því að óbeinar reykingar geti orsakað lungnakrabbamein og hjartasjúkdóma, ásamt því að auka hættu á fleiri sjúkdómum og óþægindum, svo sem öndunarfærasjúkdómum, truflun í augum og öndunarfærum.

Einnig hefur krabbameinsrannsóknastofnun WHO, þ.e. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, skoðað allar þær rannsóknir sem liggja að baki mati á krabbameinsvaldandi efnum í hliðarreyk, gögn úr faraldsfræðilegum rannsóknum og tilraunum, og komist að þeirri niðurstöðu að hliðarreykur sé krabbameinsvaldandi fyrir fólk, þ.e. óbeinar reykingar. Auk þess hafa íslenskir aðilar sagt sína skoðun, nefni ég þar til landlækni, Lýðheilsustöð, sérfræðinga á Landspítalanum, sérfræðinga í hjartasjúkdómum og lungnasjúkdómum og ýmis fagfélög. Þingmenn hafa t.d. áður lesið upp ályktanir frá Hjartavernd og Krabbameinsfélaginu og svo má áfram telja. Mér finnst að við getum ekki litið fram hjá málflutningi þeirra.

Ég verð að viðurkenna að ég er hugsi yfir framferði eins þingmannsins í ræðupúlti, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar, þar sem málið er mér einnig nokkuð skylt. Ég verulega hugsi yfir því og mér fannst hann fara með alvarlegar ásakanir í garð bæði heilbrigðisráðuneytisins og Lýðheilsustöðvar. Ég er viss um að þegar heilbrigðis- og trygginganefnd fær málið til umfjöllunar mun hún fara vandlega yfir þær ásakanir sem þar koma fram. Mér finnst mikilvægt að dregið sé fram að langflestar niðurstöður ber að sama brunni, þ.e. að óbeinar reykingar valdi heilsufarstjóni og þótt alltaf sé hægt að finna eina og eina rannsókn sem ekki er með afgerandi niðurstöðu. En mig langar líka að draga fram að meginaðferð tóbaksiðnaðarins í baráttu sinni gegn lagasetningu um reykingar á vinnustöðum er einmitt þessi, að vefengja vísindin sem liggja að baki, draga upp mynd af andstæðingum sínum sem öfgasinnum og halda því jafnvel fram að loftræsting sé næg vörn. Þau vara við áhrifum á rekstur og halda því fram að erfitt sé að framfylgja lagasetningum. Ég mun á eftir svara þeim atriðum.

Í andsvari mínu við ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar minntist ég á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sá sig á sínum tíma, þ.e. 9. mars árið 1998, knúna til að svara þeim ávirðingum sem uppi voru hafðar gegn stofnuninni vegna þessarar tilteknu rannsóknar. Ef ég mætti lesa upp hluta af fréttatilkynningunni, með leyfi forseta, þá segir þar:

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur opinberlega verið sökuð um að leyna upplýsingum. Andstæðingar stofnunarinnar halda því fram að hún hafi stungið undir stól skýrslu sem ætlað var að sanna vísindalega að tengsl væru milli óbeinna reykinga eða tóbaks í umhverfi og ýmissa sjúkdóma, einkum þó lungnakrabbameins. Er því haldið fram að ekki hafi tekist að sanna það. Báðar fullyrðingarnar eru rangar.“

Svo halda þeir áfram: „Í fréttaflutningi undanfarið hafa niðurstöður rannsóknanna verið algerlega rangtúlkaðar en þeim ber að mestu saman við niðurstöður úr sambærilegum rannsóknum bæði í Evrópu og víðar. Óbeinar reykingar valda núna krabbameini hjá fólki sem ekki reykir.“

Ég hvet þingmenn til að kynna sér þessa fréttatilkynningu ef þeir vilja.

Virðulegur forseti. Ég tel öllum í hag að setja lög sem hægt er að framfylgja en nokkuð hefur borið á því að erfitt hafi verið að framfylgja núgildandi lögum auk þess sem þau vernda ekki starfsmenn veitinga- og skemmtistaða fyrir neikvæðum afleiðingum tóbaksreyksins. Eins og ég hef sagt áður er staðan sú að margir starfsmenn veitinga- og skemmtistaða verða fyrir miklum áhrifum af óbeinum reykingum. Þetta er ein fárra stétta sem nýtur ekki verndar samkvæmt 9. gr. tóbaksverndarlaga og 1. gr. vinnuverndarlaga.

Tilgangur lagasetningar um reyklausa veitinga- og skemmtistaði er fyrst og fremst að bæta vinnuumhverfi þeirra sem þar vinna og draga úr áhættu starfsmanna. Mér finnst líka athyglisvert að rannsóknir á heilsu og vellíðan starfsmanna, fyrir og eftir að slík lög hafa tekið gildi, sýna að slíkar aðgerðir skila árangri. Í rannsókn sem gerð var í Kaliforníu kom fram að þjónustufólk kvartaði undan óþægindum í öndunarfærum, svo sem hósta, mæði, blístri í öndunarfærum og óþægindum í augum, nefi og hálsi, fyrir lagasetninguna. Einum mánuði eftir að lögin tóku gildi höfðu einkenni í öndunarfærum minnkað um 60%, óþægindi um 80%. Lungnavirkni hafði einnig aukist nokkuð. Sambærilega norska rannsókn ber að sama brunni.

Frú forseti. Þrátt fyrir að megintilgangur frumvarpsins sé að tryggja rétt starfsmanna sem vinna á veitinga- og skemmtistöðum til að anda að sér reyklausu lofti má segja að lagasetningunni fylgi einnig annar ávinningur. Um leið tryggjum við vernd gesta á veitinga- og skemmtistöðum fyrir óbeinum reykingum. Reynslan hefur sýnt að lagasetning sem þessi dragi úr reykingum. Dæmi þess má finna í Kaliforníu.

Þá má minna á að ýmis ávinningur fylgir því að veitinga- og skemmtistaðir séu reyklausir fyrir eigendur þeirra. Nægir að nefna minni eldhættu og minni viðhaldsþörf vegna skemmda á húsbúnaði og óþrifa. Einnig hafa óbeinar reykingar aðrar afleiðingar fyrir starfsfólk, vinnuveitendur og heilbrigðiskerfi. Óbeinar reykingar hafa verið tengdar við fjarvistir frá vinnu, fjölda heimsókna til lækna og notkun lyfja hjá körlum. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mat framleiðslutap vegna óbeinna reykinga á Íslandi árið 2000 upp á 448 millj. kr. Þá er einungis tekið mið af hjartasjúkdómum og lungnakrabbameini en ekki fjarvistum frá vinnu. Það má ætla að kostnaðurinn sé hærri.

Virðulegur forseti. Víða hefur svipuð löggjöf tekið gildi. Árið 2004 bönnuðu Írar, Norðmenn og Möltubúar reykingar á öllum veitinga- og skemmtistöðum í sínum löndum. Í janúar fylgdu Ítalir í kjölfarið. Í öllum þessum löndum hefur gengið mjög vel að framfylgja lögunum. Í ýmsum löndum stendur yfir umræða um slíka lagasetningu. Auðvitað hafa löndin að einhverju leyti farið mismunandi leiðir í útfærslu reykingabanns á veitinga- og skemmtistöðum en flest valið þá leið sem lagt er upp með í frumvarpinu.

Í júlí í fyrra gengu í gildi lög í Svíþjóð um að banna reykingar í öllum húsakynnum þar sem matur og drykkur er framleiddur. Svíar völdu að fara aðra leið en Norðmenn og Írar og leyfa reykingar í sérstökum reykherbergjum, þar sem hvorki má framreiða né neyta matar og drykkjar. Þróunin er hröð í þessum efnum sem best má sjá á því að ekki hefðu margir spáð því að þjóð eins og Ítalir, Suður-Evrópuþjóð, mundi banna reykingar á veitinga- og skemmtistöðum. Í Bretlandi á þessi umræða sér stað og er þar rætt um að banna reykingar á árinu 2008. Reyndar heyrist mér umræðan þar snúast frekar um hve langt eigi að ganga. Veitingamenn hafa þar haldið á lofti þeim sjónarmiðum að best sé að banna reykingar alfarið og ekki hafa neinar undanþágur því ella muni ekki ríkja jafnræði milli staðanna.

Mér þykir líka rétt að velta upp viðhorfi viðskiptavinanna. Heyrst hafa raddir um að veitingamenn hafi áhyggjur af áhrifum bannsins. Gallup hefur tvívegis gert viðhorfsrannsóknir, árin 2002 og 2004, þar sem skoðuð voru viðhorf fullorðinna til reykinga. Árið 2004 var spurt hvort fólk mundi fara sjaldnar, jafnoft eða oftar á þessa staði ef þeir væru alveg reyklausir. Í báðum rannsóknum kom fram að rúmlega 60% svarenda voru andvíg reykingum á veitinga- og kaffihúsum og í maí 2004 sögðust 85,8% svarenda mundu fara jafnoft eða oftar á veitingastaði eða kaffihús ef þeir staðir yrðu reyklausir. 14,1% töldu sig mundu fara sjaldnar. Það er athyglisvert að 52,8% fólks sem reykir sögðust mundu fara jafnoft eða oftar á kaffihús og veitingastaði ef þeir yrðu reyklausir.

Virðulegur forseti. Mönnum verður tíðrætt um áhrif reykbanns á rekstur veitingahúsa og hafa áhyggjur vaknað meðal veitingamanna. Þeir hafa jafnan áhyggjur af að tap verði í rekstri, að þeir verði að segja upp fólki og jafnvel að fyrirtækin beri sig ekki ef staðurinn verði reyklaus. Fjárhagsleg áhrif reykingabanns á veitinga- og skemmtistaði hafa mikið verið könnuð. Ekki finnast nokkur áreiðanleg gögn sem styðja áhyggjur veitingamanna.

Ef við skoðum reynslu einnar mestu ferðamannaborgar heims, New York, en þar tóku slík lög gildi í mars 2003 og höfðu þá reykingar reyndar verið bannaðar á matsölustöðum áður um átta ára skeið, kemur í ljós að þrátt fyrir hrakspár andstæðinga virðist hin víðtæka löggjöf yfirleitt ekki hafa bitnað á veitingarekstri eða ferðaþjónustu í New York. Fyrsta árið eftir að lögin tóku gildi fjölgaði störfum í greininni, velta veitinga- og skemmtistaða jókst og veitingaleyfum fjölgaði. Langflestir New York-búar studdu lagasetninguna og 97% veitinga- og skemmtistaða virða lögin.

Við höfum heyrt ýmis sjónarmið við þessa umræðu. Það er gott að þau komi fram og nauðsynlegt að málið fái málefnalega umræðu og þinglega meðferð. Mig langar rétt að koma inn á vangaveltur um skerðingu á umráðarétti manna yfir eignum sínum. Ég get ekki séð að þau eigi rétt á sér. Atvinnustarfsemi eru almennt settar ýmsar takmarkanir í lögum og reglugerðum með vísan til öryggis- og heilbrigðissjónarmiða, samanber lög um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum og lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ég velti því stundum fyrir mér sjálf eftir að ég kem heim eftir að hafa verið á skemmtistað eða veitingastað hver réttur minn sé yfir fötum mínum, sem ég get varla notað næstu daga vegna afleiðinga þess að hafa verið inni á slíkum stöðum. (Gripið fram í.) Það er mitt val að fara þangað. Það er rétt, að það er mitt val að fara þangað. En ég velti þessu stundum fyrir mér.

Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mikilvægt lýðheilsu- og forvarnarmál sem mikilvægt er að nái fram að ganga. Rannsóknir sýna að óbeinar reykingar eru skaðlegar heilsunni. Reynslan af svipaðri lagasetningu og við höfum hér til umfjöllunar hefur sýnt að heilsa og líðan starfsmanna veitinga- og skemmtistaða hefur batnað eftir að reykbann hefur tekið gildi á vinnustöðum þeirra. Íslendingar hafa verið leiðandi í lagasetningu og forvörnum á sviði tóbaksvarna. Nú er komið að því að stíga næstu skref og tryggja starfsmönnum veitinga- og skemmtistaða þau sjálfsögðu mannréttindi að starfa í reyklausu umhverfi.