132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[19:43]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eitt atriði olli mér nokkurri umhugsun þegar ég hlýddi á mál hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur. Ég velti fyrir mér að hvaða leyti heilbrigðisyfirvöld hafa athugað reynsluna af þeirri breytingu sem varð á tóbaksvarnalögunum árið 2002. Þá var sú breyting var gerð varðandi veitinga- og skemmtistaði að gert var að skyldu að meiri hluti veitingarýmis væri reyklaus. Ég átta mig ekki á því eftir lestur frumvarpsins hvort slík athugun hafi átt sér stað. En þar sem ég veit að hv. þingmaður þekkir til í heilbrigðisráðuneytinu þá leikur mér forvitni á að vita hvaða upplýsingar liggja fyrir um þá reynslu. Ef reynslan er slæm þá hlýt ég að spyrja: Hefur heilbrigðisráðuneytið og þeir aðilar, þær stofnanir sem ábyrgð bera á framkvæmd laganna, leitast við að bæta framkvæmdina?

Mér finnst mikilvægt að þetta komi fram. Það er ljóst að þegar aukið er við bannákvæði í lögum, reglur hertar og annað slíkt, þá hljóta menn að spyrja: Er hægt eða hugsanlegt að fara vægari leiðir? Í þessu tilviki er lögð fyrir þingið tillaga um fortakslaust bann. Ég velti því fyrir mér hvernig ráðuneytið hefur metið reynsluna af þeim lögum sem sett voru árið 2002 hvað þetta varðar.