132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[20:08]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Að baki þeirri umræðu sem fram fer hér í dag um tóbaksvarnir liggur nokkuð merkileg grundvallarumræða sem lýtur að frelsi fólks og sjálfsákvörðunarrétti yfir lífi sínu og framgöngu og hátterni á opinberum stöðum. Ég hefði talið það nokkuð sjálfsagt mál að ná fram sjónarmiðum vinnuverndar hvers konar og tryggja að ekki sé vaðið yfir fólk sem ekki reykir þannig að það verði fyrir skaða, fólk sem starfar á veitinga- og skemmtistöðum hvers konar. Ég hefði talið að þegar tryggt væri að óbeinar reykingar og reykingamenn yllu þessu fólki ekki skaða inni á stöðunum væri meginmarkmiðinu náð. Það hefur jú komið fram að vinnuverndarsjónarmið hafi drifið málið áfram í upphafi, þó svo að margt annað blandist þar inn í.

Markmiðið er að mínu mati gott og ég styð það heils hugar. Það er sjálfsagt mál að fólk sem ekki reykir en starfar á veitinga- og skemmtistöðum þurfi ekki að vera innan um reykingamenn og draga að sér loft mettað reyk. En umræðan á meðal margra stuðningsmanna frumvarpsins hefur snúist upp í röksemdafærslu fyrir skaðsemi tóbaks og röksemdafærslu fyrir því af hverju eigi að vernda fólk fyrir óbeinum reykingum. Sú umræða er að mínu mati langt að baki. Það eru margir áratugir síðan sýnt var fram á gríðarlega skaðsemi af reykingum, það liggur fyrir. Ég efast ekkert um að reykingar eru að mörgu leyti andstyggilegt athæfi og valda þeim skaða sem reykja og anda að sér reyknum. Tóbaksreykingar eru eftir sem áður leyfðar á Íslandi og það er engin umræða í gangi um að banna þær, ekki frekar en að banna neyslu á áfengi þó að allir viti að áfengisneysla veldur ómældu tjóni, svo vægt sé til orða tekið, í samfélaginu á hverju ári. Það er einhvers konar samfélagssátt um það að leyfa neyslu á áfengi og leyfa neyslu á tóbaki. Þess vegna er sjálfsagt mál að finna leiðir til að tryggja að þeir sem ekki reykja og starfa á umræddum stöðum séu ekki neyddir til þess með einum eða öðrum hætti að draga að sér reyk. Að því markmiði eru margar mildari leiðir en sú sem hér er lögð fram.

Hér hefur verið spurt að því hvers vegna ekki er lagt til að leyft verði að hafa ákveðin reykrými inni á stöðum ef veitingamenn kjósa að setja þau upp og vilji kosta fé til þess. Þá eru rökin þau að Samtök ferðaþjónustunnar, einhverjir forustumenn þar, hafi í einkasamtölum sagt að það vildu þeir ekki af því að það mundi mismuna stöðunum. Það er náttúrlega algjör þvættingur. Staðirnir eru og mega vera misjafnir að stærð og gerð. Vilji einhver veitingamaður bjóða upp á slíkan valkost í veitingaflórunni á honum að sjálfsögðu að vera það heimilt.

Svo fortakslaust bann ber að mínu mati með sér árás á einkalíf fólks og verulega athafnafrelsisskerðingu og það gengur einfaldlega allt of langt. Að markmiðinu eru margar mildari leiðir, eins og fram hefur komið með skýrum hætti, t.d. í fínni ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar hér á undan mér. Í ræðu sinni nálgaðist hann viðfangsefnið málefnalega. Það blandast engum hugur um að markmiðinu þurfi að ná og tryggja beri að starfsfólk á veitinga- og skemmtistöðum þurfi ekki að verða fyrir óbeinum reykingum. En við erum að tala um fullorðið, sjálfráða fólk og hvað það tekur sér fyrir hendur. Þarf að hafa svo mikið vit fyrir fólki ef tryggt er að þjónustufólk á stöðunum verði ekki fyrir skaða og þurfi ekki að anda að sér reyk? Þarf að hafa svo mikið vit fyrir fullorðnu, sjálfráða fólki að það þurfi að banna þetta fortakslaust? Mitt svar við því er: Nei, að sjálfsögðu ekki.

Ef það að einhver reykir er vandamálið þá hljóta menn bara að ganga alla leið og taka umræðuna um það hvort það eigi að leyfa eða banna tóbak. Vinnuverndarsjónarmiðunum er hægt að ná fram með öðrum hætti, það er alveg á hreinu og það hefur komið hér fram. Það er blásið út af borðinu, eiginlega án umhugsunar, að til greina komi að hafa einhvers konar tjald eða aðstöðu, t.d. úti í garði fyrir aftan veitingastað, kjósi eigandinn að bjóða upp á það. Þegar það er blásið út af borðinu eins og hverri annarri firru er það nánast meinfýsið, það er hálfgerð meinfýsni sem liggur undir slíku. Fólkið skal þá hírast úti í kuldanum og rokinu, sem er nú nánast viðvarandi veðurástand hér á Íslandi, ætli það að viðhafa þann sið að reykja. Þetta þykir mér meinfýsni sem ekki á heima í þessari umræðu. Það á að ræða þessi mál af yfirvegun og sanngirni, það er örugglega nánast órofa samstaða um að það þurfi að ná fram vinnuverndarsjónarmiðunum og þeim er hægt að ná.

Við erum að tala um nokkuð grófa pólitíska íhlutun og pólitískt forræði stjórnvalda yfir lífi og sjálfsákvörðunarrétti borgaranna og þess vegna eiga menn að stíga varlega til jarðar. Við erum að tala um grundvallarmannréttindi, við erum að tala um frelsi einstaklinganna til orða og athafna. Við erum nokkuð sammála um það, eins og hefur nú legið undir í skrifum og orðræðu stjórn- og siðfræðinga á síðustu áratugum, að okkur sé heimilt að grípa inn í líf og hátterni einstaklinga þegar þeir valda öðrum og jafnvel sjálfum sér skaða. Við samþykkjum samt sem áður að fólk valdi sjálfu sér skaða með því að reykja, með því að drekka áfengi og með því að neyta þeirra vímuefna beggja. Við bönnum önnur fíkniefni en samfélagssátt er um það að leyfa áfengi og tóbak. Það má alveg ræða um það hvort það sé í sjálfu sér réttlætanlegt að banna öll önnur fíkniefni fyrst við leyfum eitt sterkasta fíkniefnið sem er áfengi, en það er önnur umræða.

Þetta frumvarp er gróf pólitísk íhlutun í frelsi og sjálfsákvörðunarrétt borgaranna í landinu og þá umræðu á að taka á þeim forsendum. Þegar hv. stuðningsmenn frumvarpsins fullyrða að hér sé einungis verið að ræða um vinnuverndarsjónarmið er það að sjálfsögðu bara einn angi málsins. Þó það sé eitt helsta markmið málsins þá snýst það um svo margt annað. Það er enginn efi í mínum huga, og ég er baráttumaður fyrir því, að við eigum að tryggja að þeir sem ekki reykja og vilja ekki vera í reyk, t.d. fólk sem vinnur á veitinga- og skemmtistöðum, þurfi aldrei að verða fyrir því. Mér þótti koma fram nokkuð sérkennilegur sentímentalismi í ræðuhöldum þegar taldir voru upp skemmtikraftar sem höfðu látist vegna óbeinna reykinga og það notað sem réttlæting fyrir banninu. Ég efast ekkert um það, og er stuðningsmaður þess og baráttumaður fyrir því, að tryggja að skemmtikraftar og aðrir sem vinna á veitingastöðum þurfi ekki að draga að sér reykinn. Við erum komin miklu lengra í umræðunni en það.

Nú erum við að tala um fortakslaust bann sem gengur mjög langt og þar vakna allar spurningarnar um hvort virkilega þurfi að ganga svona langt. Hér hafa verið tekin ágæt dæmi um að veitingamaður gæti kosið að reka til dæmis lítinn stað sem býður mönnum upp á einhvers konar vindla- eða reykingaklúbb eða gefur mönnum kost á að halda þar lítið einkasamkvæmi, matarboð þar sem allir viðstaddir eru fullkomlega upplýstir um skaðsemi reykinga en ákveða að reykja með máltíðinni eða eftir hana o.s.frv. Af hverju í ósköpunum á að banna fólki það fortakslaust og senda það út á gaddinn til að stunda þá iðju? Af hverju kemur ekki til greina að fara mildari leið sem nær fram sömu markmiðum eins og menn hafa gert í Svíþjóð og meta síðan árangurinn af því starfi eftir einhvern tiltekinn tíma?

Hvað liggur svo á? Hvar er vandamálið og hver er að kalla eftir svo fortakslausu banni svo hratt? Enginn, að ég held, eða alla vega ekki mjög margir. Um er að ræða verulega forsjárhyggju, mikinn rétttrúnað og mjög gróft stjórnlyndi, að mínu mati, sem fer langt yfir eðlileg og heilbrigð mörk. Spurning vaknar: Er nauðsynlegt að setja fortakslaust bann eins og þetta? Svar mitt við því er nei. Það er ekki nauðsynlegt að ganga svona langt enda má pólitísk íhlutun að sjálfsögðu ekki og á ekki að snúast upp í einhvers konar yfirgang og nánast ofbeldi í garð sjálfsákvörðunarréttar og frelsis borgaranna. Hægt er að ná fram öryggis- og varúðarsjónarmiðum hvers konar með allt öðrum og miklu mildari og skynsamlegri hætti en hér er lagður til.

Þetta hlýtur að verða skoðað mjög rækilega í meðförum heilbrigðis- og trygginganefndar. Við 2. umr. um málið hljóta fleiri sjónarmið að vakna. Ég treysti því að málið komi breytt út úr nefndinni þannig að farin verði mildari leið að þessu marki. Það er mjög auðvelt að reka blindan rétttrúnað fyrir máli eins og því að banna reykingar svo fortakslaust á veitinga- og skemmtistöðum með því að vísa í að 375 hafi, að því er talið er, látist vegna reykinga í fyrra á Íslandi, að þessi eða hinn hafi látist af völdum beinna og óbeinna reykinga. Það er mjög auðvelt að reka pólitík og stjórnmál á þessum forsendum. En að mínu mati er það líka mjög ómerkilegt. Það er verið að reyna að eyða þeirri sjálfsögðu umræðu sem við hljótum að taka. Þegar svo fortakslaust bann liggur fyrir þinginu hljótum við að taka almennari umræðu um hvað sé réttlætanlegt að banna fólki og hve stjórnvöldum leyfist að ganga langt í íhlutun sinni í líf fullorðinna og sjálfráða borgara í þessu landi. Um það á þessi umræða að snúast finnst mér af því að við erum sammála um að ná markmiðunum. Við erum sammála um að ná því markmiði að fullnægja vinnuverndinni skilyrðislaust, algjörlega skilyrðislaust að mínu mati. Um það er engin deila. Umræðan snýst ekki um hvort reykingar valdi skaða. Það er búið að sýna fram á það fyrir mörgum áratugum síðan, að mínu mati. Mér er alveg sama hvað öllum rannsóknum líður. Það gefur bara auga leið. Alveg eins er neysla á feitum mat og óhollum, sykri, áfengi og svo mörgum öðrum hlutum sem eru leyfðir, mjög óholl. Það er hægt að drepa sig á nokkrum árum með neyslu ýmiss slíks varnings eins og ég nefndi áðan. Alveg eins og það er hægt að reykja sig í hel, er hægt að drekka sig í hel og éta sig í hel. (Gripið fram í.) Engum blandast hugur um það. Nei, þess vegna er sjálfsagt að ná fram sjónarmiðunum um að tryggja að aðrir þurfi ekki að hrærast í reyknum. Það er engin spurning, alveg klárt mál. Við eigum að ná fram því markmiði. Um það virðist vera mjög þörf pólitísk sátt. Enginn hefur mælt gegn því hér við 1. umr. um málið í dag, ekki minnst á það.

Við erum hins vegar að tala um hve gróflega og hve langt stjórnvöldum leyfist að ganga í að íhlutast um athæfi fullorðinna sjálfráða einstaklinga og notkun þeirra á löglegum varningi í landinu. Nefnd voru hér dæmi áðan um vindlareykingarnar og vindlareykingaklúbbinn. Auðvitað hljómar það fáránlega að það sé lögbrot og lögreglumál að mennirnir hittist og reyki saman vindla sé það tryggt að enginn sem ekki reykir verði fyrir skaða í formi óbeinna reykinga. Auðvitað er það fáránlegt. Þetta fortakslausa bann er því að mínu mati óréttlætanleg skerðing á frelsi og athafnafrelsi borgaranna. Það gengur einfaldlega allt of langt. Það er ekki nauðsynlegt að ganga svona langt til að ná fram þeim góðu markmiðum um vinnuvernd sem liggja þessu máli sumpart til grundvallar. Vinnuverndarsjónarmiðið er eitt af markmiðunum frumvarpsins.

Svo er önnur umræða um skaðsemi fíkniefna og eiturlyfja hvers konar, áfengis og tóbaks, kannabisefna og kókaínefna hvers konar. Það er önnur umræða þó að hún að sjálfsögðu tengist þessari mjög af því að við erum að tala um hve langt okkur leyfist að ganga við að banna fólki þetta og hitt til að vernda það fyrir skaðseminni sem hlýst af neyslu þessarar og hinnar vörunnar. Eigum við til dæmis almennt að leyfa veitingastöðum að framreiða mat sem allir vita að veldur fólki stórtjóni á jafnvel undraskömmum tíma? Allt snýst það hins vegar um það sem liggur undir þessari umræðu, þ.e. hve langt stjórnvöldum leyfist að ganga til að íhlutast um hegðun fólks, hvað fólki leyfist að gera þó að vitað sé að það valdi því sjálfu skaða, ef tryggt er að það valdi ekki öðrum skaða um leið, eins og með því að tryggja að enginn þurfi að vinna í reykmettuðu umhverfi.

Þetta er 1. umr. og málið er frumstætt að sjá að þessu leyti. Það hlýtur að taka breytingum í meðförum nefndarinnar áður en það kemur aftur fyrir þingið, alla vega hafa komið fram mjög máttug rök að mínu mati í umræðunni í dag til að breyta málinu í þá veru.