132. löggjafarþing — 55. fundur,  31. jan. 2006.

Tóbaksvarnir.

388. mál
[20:24]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég efast ekkert um góðan hug heilbrigðisstéttanna og þeirra prýðilegu og velmeinandi þingmanna sem hafa mælt fyrir þessu máli hérna í dag. En þar leggja menn til hliðar það sem mér þykir vera grundvallaratriði í málinu, þ.e. þá aðför stjórnvalda að hegðun og frelsi fólks til tiltekinna athafna með löglegan varning sem mér þykir liggja málinu til grundvallar. Það breytir minni afstöðu til þess máls ekki neitt þó að einhver alhæfi um mörg þúsund manns í nafni heilbrigðisgeirans og heilbrigðisstéttanna. Allir veitingamenn í landinu eru allt í einu orðnir sammála af því að forustumaður í Samtökum ferðaþjónustunnar lét eitthvað frá sér fara o.s.frv.

Auðvitað eru ekki allir á eitt sáttir um það. Ég get talið upp með nafni fullt af veitingamönnum sem eru alveg ólmir á móti þessu banni. Svoleiðis málflutningur er bara fráleitur. Auðvitað ríkir sú tilhneiging innan ákveðinna geira eða stétta að fara kannski stystu og auðveldustu leiðina til að ná einhverju markmiði, eins og það sé engin samúð með því að leyfa reykingar í lokuðum rýmum, enda sjáum við að fyrir utan spítalana, því miður, hírist starfsfólk og stundum sjúklingar úti í kuldanum og trekknum reykjandi af því að það reykir enn og notar enn þá þennan löglega varning þó að hann sé skaðlegur, af því að engin rými eru til stunda iðjuna innan dyra.

Mér finnst þessar öfgar einfaldlega óréttlætanlegar og ég styð þær einfaldlega alls ekki. Það breytir engu þó svo að einhver fullyrði að allur geirinn sé með málinu. Það er hægt að ná markmiðunum algjörlega, ekki að hluta heldur algjörlega, með miklu mildari leiðum. Ég styð markmiðið fullkomlega af því að það er hægt að fara að því miklu mildari leiðir. Það er engin nauðsyn á þessu fortakslausa banni.